Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

21. fundur
Þriðjudaginn 13. júní 1995, kl. 14:53:28 (768)


[14:53]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Hæstv. forseti. Það mál sem hér er til umræðu var kynnt í efh.- og viðskn. fyrir nokkrum kvöldum og urðu um það miklar umræður og þá ekki síst það atriði sem snýr að snjóflóðavörnum og það hvert gagn væri í rauninni í slíkum vörnum. Það vildi svo til að á fundinum voru þá staddir tveir Vestfirðingar sem þekkja þessi mál af eigin raun og var mjög merkilegt að hlusta á þeirra frásagnir og þá ekki síst hv. þm. Einar Odd Kristjánsson sem lýsti reynslu Flateyringa og þeim mikla ótta sem hefur skapast í hugum fólks vegna sífelldrar hættu sem vofað hefur yfir íbúunum sérstaklega nú í vetur en þeir þekkja reyndar frá fyrri árum. Það er alveg ljóst eftir veturinn í vetur að við Íslendingar þurfum að skoða mjög rækilega hvernig við stöndum að snjóflóðavörnum og hvar byggingar eru leyfðar. Og við getum ekki annað en horfst í augu við það að stór svæði sérstaklega á Vestfjörðum eru hættusvæði. Það hafa komið upp efasemdir í mínum huga varðandi enduruppbygginguna á Súðavík, hvort þar sé í rauninni verið að færa íbúabyggðina inn á svæði sem einnig er í hættu. Ég gat ekki skilið þær upplýsingar sem við höfum fengið öðruvísi en þannig að í rauninni sé svæðið allt í ákveðinni hættu. En við vitum að það er ákaflega erfitt mál fyrir íbúana að horfast í augu við það að búa á hættusvæði. Það eru miklar eignir í húfi og ég get vel skilið það að menn vilji halda í sína byggð. En maður hlýtur þó að velta því fyrir sér hvort ástæða kunni að vera til þess að hreinlega banna byggð á stærri svæðum en nú er gert vegna þessarar miklu hættu sem kom svo rækilega í ljós í vetur. Ég held að við þurfum að skoða þessi mál í víðu samhengi, en jafnframt að reyna að átta okkur á því hvaða varnir duga og hvort einhverjar varnir duga.
    En inntakið í því sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði, hann er því miður ekki viðstaddur þessa umræðu, var í rauninni það að óttinn væri orðinn svo mikill að það dygðu engar varnir vegna þess að fólk einfaldlega flytti úr húsunum þegar hættuástand skapaðist og tryði ekki á þessar varnir og þetta er mjög umhugsunarvert.
    Frv. sem hér er til umræðu gengur út á það að leggja sérstakan skatt á fasteignaeigendur, sérstakt álag, til þess að standa undir þeim kostnaði sem fram undan er vegna uppbyggingar á Súðavík og væntanlega vegna aukinna snjóflóðavarna. Þetta er skattur og fram hjá því verður ekki horft og er enn einu sinni verið að bæta ofan á þá sem eiga fasteignir og er auðvelt í því samhengi að rifja upp harða gagnrýni á meiri hlutann í Reykjavíkurborg fyrir sérstakt gjald sem lagt var á fasteignagreiðendur í borginni. En það er ljóst að það verður að útvega peninga í þessa uppbyggingu og ég fæ ekki séð að þessi leið sé verri en hver önnur þó að það hefði hugsanlega mátt velta því fyrir sér hvort ekki hefði átt að leggja þá ákveðið gjald á alla landsmenn til þess að standa undir þessum kostnaði og þessari uppbyggingu sem fram undan er.
    En ég skil það þannig að ástæðan fyrir því hve mikið liggur á að afgreiða þetta frv. sé það að lögin verði gengin í gildi áður en næsta rukkun verður send út þannig að hluti af þessu gjaldi náist þá inn í haust.
    Þetta mál er þannig vaxið að það er ekki hægt annað en styðja það. Það verður að ná í þessa peninga, en eins og ég segi hefði gjarnan mátt gefast meiri tími til að velta því fyrir sér hvort aðrar leiðir hefðu verið færari. En í þessu samhengi vil ég beina því til hæstv. forsrh. að við sem nú skipum stjórnarandstöðuna fáum að fylgjast með framgangi þessa máls og hvernig fyrirhugað er að verja þessu fjármagni og einnig að við fáum öll að taka þátt í umræðu um hvernig staðið verði að snjóflóðavörnum og skipulagi byggðar vegna þess hve brýnt mál það er og vegna þess hvernig það í rauninni snertir alla landsmenn. Þetta er mikið og stórt mál fyrir alla þjóðina.
    Ég er áheyrnarfulltrúi í efh.- og viðskn. og við munum fara í gegnum þetta mál í kvöld, en að svo komnu máli sé ég ekki ástæðu til annars en lýsa yfir stuðningi við þetta mál.