Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

21. fundur
Þriðjudaginn 13. júní 1995, kl. 15:02:19 (770)


[15:02]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Eins og hefur komið fram í umræðunni þá er það mál sem hér er til umfjöllunar fyrst og fremst flutt vegna þeirra hörmulegu atburða sem urðu á liðnum vetri og þeirra nýju viðhorfa til úrlausna í snjóflóðavörnum sem sprottið hafa fram á opinberan vettvang vegna þeirra atburða.
    Ég vil hins vegar nota tækifærið við þessa umræðu til þess að vekja athygli á því að mér finnst við að ýmsu leyti vera á erfiðri braut þegar við erum að fylgja þeirri stefnu að grípa til sérstakra aðgerða vegna atburða. Ástæðan er að sú stofnun, Viðlagasjóður og Viðlagatrygging, sem sett hefur verið upp í landinu til þess að vera eins konar sameiginleg trygging okkar Íslendinga vegna náttúruhamfara, er of veikburða.
    Meginástæðan fyrir því að ég nefni þetta sjónarmið er að sé fylgt þeirri aðferð sem hér er gert og hefur verið fylgt áður þá lendum við í þeim vanda að vera að vega og meta í hvert sinn hver sé stærðargráða vandans og taka þá kannski gildisbundna, svæðisbundna og tilfinningabundna afstöðu en vandamál sem eru kannski jafnerfið fyrir fjölskyldur, einstaklinga og byggðarlög eru látin liggja án þess að á þeim sé tekið af því að þau ná kannski ekki þeim samanburði sem önnur tilvik fela í sér.
    Ég er þeirrar skoðunar, þó ég eigi erfitt með að sanna það, að í hugum flestra landsmanna sé það ætlunarverk Viðlagatryggingar og hliðstæðrar starfsemi að tryggja almenning, byggðarlög og heimili í landinu gagnvart náttúruhamförum af hvaða tagi sem er. Hér hafa verið nefnd eldgos, snjóflóð, en því miður er það einnig þannig að í sumum byggðarlögum hefur ágangur sjávar skapað mikið tjón og víða skortir á að sjóflóðavarnir við byggðarlög séu nægilega tryggar. Það eru ekki nema að mig minnir ein fimm ár síðan gífurleg flóð urðu í nágrenni höfuðborgarinnar á Suðurlandsundirlendi sem olli miklu tjóni í byggðarlögum eins og Stokkseyri, Eyrarbakka og Grindavík og mikill fjöldi einstaklinga beið við það tilfinnanlegt tjón á eignum sínum og það var mjög flókið og erfitt úrlausnarefni að greina á milli hvað skyldi bætt af hinum sameiginlega sjóði landsmanna, hvað skyldi bætt af tryggingafélögum og hvað viðkomandi einstaklingar þyrftu að bera. Jafnframt stóð þá í nokkra daga umræða um mikilvægi þess að efla sjóflóðavarnir og þótt nokkurt átak væri gert í þeim efnum, þá er það því miður enn þá þannig að ýmis byggðarlög á Suðurlandsundirlendi og Reykjanesskaganum eru enn þá það vanbúin að vörnum í þessum efnum að með samspili vinda, veðra og háflæðis geta orðið þar mjög tilfinnanleg áföll. Þess vegna vil ég í tilefni frv. vekja athygli á því verkefni að efla Viðlagasjóð eða annan slíkan sameiginlegan sjóð með svo skýrum hætti að hann geti tekið á hvers kyns áföllum sem náttúruhamfarir leiða yfir þjóðina, hvort sem uppspretta þeirra er eldur, fannfergi eða hafið.
    Það er því miður nokkuð erfitt að lenda hér í þinginu í þeim vanda að gera upp á milli byggðarlaga, einstaklinga og fjölskyldna og bæta sumt tjón og annað ekki og vera að ganga þá braut að efna til sértekjuöflunar í einstökum tilvikum. Mér finnst mikilvægt að það komi fram við þessa umræðu en ég tók ekki eftir því að það kæmi fram við ræðu hæstv. forsrh. en kannski getur það komið fram við meðferð nefndarinnar hverjar eru eignir Viðlagasjóðs um þessar mundir og hvaða áform eru uppi um aukningu þeirra á næstu árum miðað við að engin alvarleg áföll komi til.
    Einnig held ég að það sé nauðsynlegt að af þessu tilefni tjái stjórnvöld sig um það hvort þau eru reiðubúin til víðtæks samstarfs um að breikka grundvöll verkefna sem þessi sameiginlegi sjóður okkar Íslendinga og trygging á að fjalla um.
    Ég tók ekki heldur eftir því að það kæmi fram í framsöguræðu hvort ætlunin er að verja þessu fjármagni einnig til fyrirbyggjandi aðgerða í byggðarlögum sem á liðnum vetri urðu kannski ekki fyrir miklum áföllum en urðu fyrir mjög alvarlegum áföllum og mannskaða fyrir allnokkrum árum síðan. Ef við ætlum að ráðast í sameiginleg verkefni af þessu tagi, bæði á Vestfjörðum, Austfjörðum og einnig á syðri hluta landsins, eins og ég vék að áðan, þá er ljóst að sú sérstaka tekjuöflun, sú viðbótargjaldtaka sem í þessu frv. felst, mun á engan hátt duga til þess að standa straum af þeim verkefnum. Engu að síður held ég að bæði með flutningi þessa frv. og almennri umræðu sem farið hefur fram í landinu þá hafi verið skapaðar ákveðnar væntingar um aðgerðir á þessu sviði. Við þingmenn Reykjaneskjördæmis t.d., þó að ég ætli ekki að gera neinn efnissamanburð á erfiðleikum sem þar eru vegna ágangs hafsins og þeim miklu hörmungum sem urðu á Vestfjörðum, þá verðum við þingmenn Reykn. ærið oft þátttakendur í umræðum byggðarlaga á Suðurnesjum þar sem þó nokkurs ótta gætir að atburðir frá því fyrir nokkrum árum, sem ég vék að áðan, kunni að endurtaka sig á komandi árum. Og það er alveg ljóst að það eru þó nokkur byggðarlög á suðvesturhluta landsins sem eru í nokkurri hættu vegna þess möguleika að verulegt eignatjón og kannski mannskaði verði vegna þess að varnir gegn sjóflóðum, háflæði og ofviðri hafa ekki verið nægilega tryggðar. Ég tel þess vegna mikilvægt að umfjöllun um öll þessi mál sé með þeim hætti að menn skoði þau í heild sinni en lendi ekki í þeirri stöðu að þurfa að vega og meta í hvert sinn hvort farið er fram með málið á grundvelli sérstakrar tekjuöflunar. Mér finnst að við ættum að reyna að sameinast um þá almennu stefnu að sá sameiginlegi sjóður og það tryggingakerfi sem við byggjum upp vegna náttúruhamfara sé það öflugt að við getum sameiginlega tekið þátt í því að bæta byggðarlögum, fjölskyldum og einstaklingum það tjón sem þau verða fyrir án þess að þurfa að fara í sértækar aðgerðir af þessu tagi.
    Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta mál að þessu sinni, en vona að bæði við athugun nefndarinnar og eins við nánari skoðun þessa máls í sumar íhugi menn það að skapa nægilega víðtækan grundvöll svo að þegar í stað þegar tjón verður sé hægt að fullvissa íbúa og forsvarsmenn byggðarlaga og einstaklinga og fjölskyldur um að ekki þurfi að hafa áhyggjur af fjármálum vegna þeirra atburða sem orðið hafa. Það er nægileg byrði fyrir fólk að bera þau áföll sem verða vegna atburðanna sjálfra þó að einstaklingar og fjölskyldur þurfi ekki að búa mánuðum og jafnvel árum saman við þá óvissu sem skapast af götum eða togstreitu í tryggingakerfi landsmanna um það hver eigi að greiða hvað.
    Ég hef t.d. á undanförnum árum oft átt samræður við einstakling sem býr og hefur búið á undanförnum árum á Suðurnesjum en lenti í snjóflóðum á Patreksfirði fyrir mörgum áratugum síðan og varð fórnarlamb kerfistogstreitu í landinu þar sem opinber yfirvöld, tryggingafélög og aðrir hentu á milli sín boltanum um það hver ætti að greiða hvað. Sú togstreita varð til þess að viðkomandi einstaklingur og fjölskylda hans flosnaði upp og hefur satt að segja aldrei náð sér eftir þá erfiðu lífsreynslu sem varð árin á eftir. Þess vegna hefur mér orðið enn frekar hugleikið á síðari árum að við þyrftum að ganga frá þessu kerfi á þann veg að slíkt komi ekki upp og setja Viðlagatryggingu eða öðrum slíkum aðila þannig starfsreglur og skapa nægilegt fjármagn svo að hægt sé að taka fyrir hvert og eitt tilvik um leið og það á sér stað.