Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

21. fundur
Þriðjudaginn 13. júní 1995, kl. 15:14:32 (771)


[15:14]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Þó að aðeins hafi gætt annars tóns í ræðu hv. þm. heldur en nokkurra annarra þingmanna hér þá var þó tónninn betri heldur en búast mátti við miðað við aðdraganda umræðunnar þar sem engu var líkara en hv. þm. teldi að hægt væri að ganga algerlega í Viðlagasjóð og þar væru nægar eignir og ekki þyrfti neitt að grípa til annarra aðgerða.
    Það sem við þurfum að horfast í augu við sem stjórnvöld í landinu sameiginlega að við berum ábyrgð, ekki persónulega heldur sem stjórnvöld. Vegna þess að fjöldi íbúðareigenda, íbúa á tilteknum svæðum, byggði hús sín í góðri trú um að þau hús væru samkvæmt því mati sem þá lá fyrir ekki á hættusvæðum. Ég er ekki að tala um neina sök í þeim efnum en nú liggur fyrir nýtt mat, ný þekking miðað við nýja, erfiða og harða reynslu um það að það sem áður var talið öruggt er ekki jafnöruggt og fyrr. Fólk sem byggði í góðri trú með leiðbeiningum eða samþykki yfirvalda er skyndilega komið með húseignir á stöðum sem nú eru innan hættusvæða og húseignir verða því í einu vetfangi verðlausar eða verðlitlar. Við erum að bregðast við þessu. Við erum að bregðast við sameiginlegri ábyrgð stjórnvaldanna okkar. Þó við berum ekki persónulega sök höfðu stjórnvöldin miðað við þá þekkingu sem þá var nærtækust gefið þessu fólki vottorð um það að þar væri því óhætt að byggja. Við erum sem framhandleggur þessara fyrri stjórnvalda að bregðast við, að rétta hlut og sem betur fer virðist vera og ég vona að hv. þm. ætli ekki að skerast úr leik í þeim efnum, góð sátt um það í þinginu að það beri að bregðast við, að stjórnvöldum, okkur, beri að bregðast við og leiðrétta það sem hér hefur kannski staðið tæpt.