Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

21. fundur
Þriðjudaginn 13. júní 1995, kl. 15:31:43 (774)


[15:31]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Ég vildi leyfa mér að þakka hv. þm. undirtektir við málið, sem er í samræmi við fyrri umræður um það. Ég hef þegar svarað í stuttum andsvörum ýmsum atriðum. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sem hér talaði síðastur vakti athygli á því hversu vandmeðfarið málið er og margslungið. Það á auðvitað rót að rekja til atburða sem snertir þjóðina mjög djúpt og það sveitarfélag sem lenti í hremmingunum og ýtti umræðunni af stað lendir í því að vera sundurtætt sveitarfélag. Miðjan á sveitarfélaginu er eiginlega hrunin eða horfin og þar með er sveitarfélagið orðið sundurlaust og á ekki framtíð jafnvel óháð hinni dimmu fortíð sl. árs á þeim stað. Jafnvel þó að hættumat mundi leiða til þess að einhver slíkra húsa gætu staðið ein og sér, sem ég hygg reyndar að hættumat mundi ekki leiða til, en jafnvel þó svo færi, þá hlytu menn að sætta sig við það eða samþykkja að uppbygging fyrir þetta byggðarlag yrði að eiga sér stað á einum stað og í nokkru öryggi. Ég held að það séu út af fyrir sig allir sammála því að öðruvísi er ekki hægt að taka á málum varðandi þetta sveitarfélag. Þetta sveitarfélag lendir þá í því að það þarf að byggja upp undrafljótt á nýjum stað sem ekki hefur gengið undir hættumat vegna þess að þar hafði enginn gert ráð fyrir því að yrði byggt með þeim hætti. Það hættumat þarf síðan að liggja fyrir.
    En alveg eins og hv. þm. sagði þá er þetta mál ekkert auðgert eða auðleyst og þó að erfitt sé að ræða það án þess að tilfinningar liðinna atburða hræri hugsunina þá engu að síður verða menn að fjalla um það af hæfilegri, ég vil nú ekki segja kulda, mig vantar rétta orðalagið fyrir það efni, (Gripið fram í.) hæfilegri yfirvegun varðandi það efni sem um önnur atriði.
    Nú vill þannig til að innan sveitarfélags til að mynda eins og á Hnífsdal liggur fyrir að út af sameiningu sem þar hefur átt sér stað, geta menn flutt til á svæði sem menn þekkja og örugg eru innan sveitarfélagsins ef fyrir liggja fjármunir og reglur að öðru leyti.
    En rétt eins og hv. þm. nefndi þá er tryggt í lögunum, og reyndar með þeim breytingum sem á þeim voru gerðar á síðasta þingi, að hlutverk sveitarfélagsins er í fyrirrúmi og ábyrgð sveitarfélagsins er í fyrirrúmi. Vegna þess að þar segir að sveitarstjórn sé heimilt að gera tillögu um það að menn fari ekki í varnarvirki eða almennar varnir heldur byggi upp húsnæði eða kaupi húsnæði annars staðar og þeirri tillögu sveitarstjórnar, ef á hana verður fallist, fylgir kostnaður vegna þess að ofanflóðasjóður mun aldrei greiða nema sem nemur 90% af þeim kostnaði og sveitarstjórnin hlýtur að lenda í kostnaði vegna almennra mannvirkja og hugsanlegrar þátttöku í þeim flutningi.
    Varðandi þær reglur sem hv. þm. nefndi þá er það alveg rétt að þrjú ráðuneyti, félmrn., umhvrn. og dómsmrn., hafa undirbúið vinnu og reyndar var sú vinna farin af stað í tíð síðustu ríkisstjórnar en hefur haldið áfram, um samningu reglna og reglugerðar um framkvæmd þessara ákvæða og þar gera menn mun og ég vænti þess að það standist lögfræðilega, menn gera mun á því varðandi greiðslur, eða hugmyndin er sú a.m.k., hvort húsnæði sem keypt er sé endurbyggt innan sveitarfélags eða hvort menn hyggist flytja algerlega á brott. Þetta er vandmeðfarið lögfræðilegt álitaefni. En hugmyndin er sú að þarna sé forsvaranlegt að gera á nokkurn mun. Annars vegar geta menn þá litið til þess að mannvirki yrði keypt á fasteignamatsverði og hins vegar á brunabótamatsverði og þar með ýtt undir það að þessar reglur knýi ekki á um byggðaflótta, heldur þvert á móti til byggðauppbyggingar á öruggari svæðum. En það er hárrétt hjá hv. þm. að þessar reglur eru vandmeðfarnar. Væntingarnar sem kannski hafa verið byggðar upp, vegna þess að menn hafa verið að bregðast við heilmiklum ótta og angri, skiljanlegum ótta og skiljanlegu angri fólks eftir erfiðan vetur, það kann að vera erfitt að uppfylla þær væntingar. En ég tel þó að þingið, með því að

gera frv. að lögum, sé að bregðast með raunhæfum hætti við stöðunni. Þingið sé að kynna raunhæf úrlausnarefni við vandamálum. Það sé ekki aðeins verið með vangaveltur, hugmyndir, velviljað orðalag o.s.frv. heldur séu lagðir til hliðar verulegir fjármunir, kannski ekki nægir en verulegir fjármunir og þá sér fólkið í byggðarlögunum sem hefur mátt búa við þennan vanda, að þinginu er full alvara. Ég held að það hefði verið algerlega í ósamræmi við okkar sameiginlegu viðbrögð við þeim atburðum sem urðu, ef við hefðum ekki brugðist við með þessum hætti, eins og þingið vonandi og ég skil þingið þannig, mun bregðast við nú.
    Ég endurtek að ég færi þingmönnum þakkir fyrir þær undirtektir og þær málefnalegu umræður sem hafa orðið um þetta mál hér á þessum þingfundi nú.