Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

21. fundur
Þriðjudaginn 13. júní 1995, kl. 16:31:34 (780)


[16:31]
     Ögmundur Jónasson :
    Hæstv. forseti. Ég á eftir að tjá mig nánar um þessi mál við síðari umræður og mun þá kanna nánar forsendur fyrir þeirri yfirlýsingu sem hæstv. fjmrh. var með hér áðan, þar sem hann kvað starfsmenn ÁTVR fara með rangar staðhæfingar. Þetta er hlutur sem ég mun grafast nánar fyrir um, en ég tel að það eigi ekki við rök að styðjast. Þá vil ég upplýsa það sem útvarpshlustandi, og ég held að það hafi verið í fréttum Ríkisútvarpsins, að forstjóri ÁTVR upplýsti að hann hefði fengið að vita um þessar skipulagsbreytingar hjá ÁTVR í Ríkisútvarpinu. Það hafi verið fréttamaðurinn sem upplýsti hann um þessar breytingar.
    Annars vil ég byrja á að fagna því að hæstv. fjmrh. skuli vera viðstaddur þessa umræðu og ég leyfi mér að óska eftir því við hæstv. forseta að heilbrrh., ef hann á kost á því, komi og verði við umræðuna. Það hafa komið hér fram mjög mikilvægar upplýsingar yfir helgina frá landlækni sem nauðsynlegt er að fá viðbrögð hæstv. heilbrrh. við. Í annan stað þá fagna ég því að hæstv. viðskrh. skuli vera hér til að taka þátt í umræðunni. En ég sakna átakanlega formanns efh.- og viðskn., þeirrar nefndar sem hefur vélað um þessi mál öll, og leyfi mér að spyrjast fyrir um það hjá hæstv. forseta þingsins hvort ekki er kostur á að fá hv. þm. Vilhjálm Egilsson til að vera hér í salnum og taka þátt í umræðunni.
    ( Forseti (StB) : Forseti vill vegna fyrirspurnar hv. þm. geta þess að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson er með fjarvistarleyfi og er að gegna skyldustörfum erlendis þannig að það er ekki hægt að gera ráð fyrir því að hann komi hér til fundar. Starfandi hæstv. heilbrrh. er hér til staðar þannig að forseti vonast til þess að það sé fullnægjandi.)

    Ég þakka hæstv. forseta fyrir þessar upplýsingar. Mér finnst það hins vegar afar miður að formaður efh.- og viðskn. skuli ekki hafa verið viðstaddur þessar umræður. Hann var ekki viðstaddur umræðurnar á fyrri stigum málsins, þá var hann við skyldustörf í Brussel, og eins og frægt varð ávarpaði hann þjóðina hér í útvarpsávarpi á enskri tungu og sagði að þingstörfum yrði ekki lokið fyrr en allt brennivín væri búið. Ég veit ekki hvort þetta mun ganga eftir, en hitt vitum við mætavel að þetta er krafa sem hefur komið mjög eindregið fram frá Kaupmannasamtökum Íslands, sem í sínu áliti óskuðu eftir því að við gengjum enn lengra í lagabreytingum og létum ekki staðar numið fyrr en við værum búin að koma áfengi inn í smásölubúðir á Íslandi.
    Hitt var mjög merkilegt í þessari umræðu hér um daginn og eftirminnilegt, að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson upplýsti okkur um það að þetta mál hefði orðið sér mjög til framdráttar, eins og hann orðaði það og margendurtók. Það sem við vitum hins vegar er að þessar breytingar sem verið er að gera á lögum um áfengissölu í landinu eru mjög umdeildar í þjóðfélaginu. Annars vegar eru almannasamtök sem hafa látið þessi mál til sín taka, samtök sem hafa sinnt áfengisvörnum, og hins vegar eru margvísleg hagsmunasamtök sem hafa beina hagsmuni af því að selja varning og vilja helst komast yfir brennivínið líka, Kaupmannasamtök Íslands, eins og ég vitnaði til, en Verslunarráðið hefur einnig gengið mjög hart fram í því að fá þessar lagabreytingar samþykktar hér á þingi.
    Ég skal ekki efast um það að framganga hv. þm. Vilhjálms Egilssonar hafi orðið honum mjög til framdráttar hjá þessum aðilum. Þessum aðilum hefur verið einkavæðing mjög að skapi og margir hafa orðið til að lofa og prísa hvernig til hefur tekist í þeim efnum á undanförnum árum. Að vísu hafa aðrir komið til sögunnar sem hafa gert athugasemdir við einkavæðingu ríkisstjórnarinnar á liðnum missirum og árum og má þar nefna Ríkisendurskoðun, en hún gerði eins og kunnugt er mjög alvarlegar athugasemdir við sölu á ýmsum fyrirtækjum og má þar nefna Íslenska endurtryggingu og SR-mjöl, fyrirtæki sem er metið og var metið upp á marga milljarða kr. en var selt langt undir raunvirði.
    Ég hef áður vikið að því hér í ræðustól hvernig framleiðsludeildin hjá ÁTVR var nánast, mér liggur við að segja gefin. En ég benti á að tekjutap ríkissjóðs, ÁTVR í þessu tilliti, nam 17 millj. kr. á ári. Ég færði rök fyrir því á sínum tíma hvernig þessu væri farið og ætla ekki að endurtaka það. En eins og kom fram í upphafi þegar þessi frv. voru kynnt hjá hæstv. fjmrh. þá telur hann að þær breytingar sem verið er að boða nú muni þýða tekjutap fyrir ÁTVR upp á 50 millj. kr. Ýmsir aðrir aðilar ætla að tapið muni verða miklu meira en þessu nemur, auk alls hins sem fylgir með. Þar erum við að tala um skattheimtur ríkissjóðs og allt eftirlit með áfengissölu í landinu.
    Ég var að telja upp fyrirtæki sem hefðu verið seld. Það mætti nefna fleiri til sögunnar, t.d. Lyfjaverslun ríkisins, sem skilaði árlega í ríkissjóð tugum millj. kr., en þessir fjármunir voru m.a. notaðir til að fjármagna bólusetningu í landinu. Fjármunir sem ríkissjóður verður nú af og verður að leita annað, leita ofan í vasa skattborgarans eða draga úr þjónustunni ella. Ég nefni þetta einvörðungu til þess að menn skilji hvað það er sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson á við þegar hann talar um að þetta mál hafi orðið sér til framdráttar. Að sjálfsögðu eru margir aðilar í samfélaginu sem hagnast á þessari stefnu og telja hana aðdáunarverða.
    Spurningin er hins vegar hvaða sjónarmið það eru sem stjórnmálamenn vilja gefa gaum. Í þessari umræðu hefur verið vitnað í umsagnir sem hafa komið frá fjölmörgum aðilum sem til þessara mála þekkja. Það hefur verið vitnað í ályktanir sem komið hafa frá Starfsmannafélagi ÁTVR, frá SFR, Starfsmannafélagi ríkisstofnana, og fleiri samtökum launafólks. Það hefur verið vitnað í yfirlýsingar og greinargerðir sem hafa komið frá fjölmörgum almannasamtökum. Hér á dögunum boðuðu samtökin Heimili og skóli, Stöðvum unglingadrykkju og Vímulaus æska til fréttamannafundar þar sem fulltrúar þessara samtaka kynntu afstöðu þeirra til þessara lagabreytinga. Sú afstaða var mjög á einn veg. Það var mjög eindregið varað við þessum lagabreytingum en það er umhugsunarefni hver urðu örlög þessa blaðamannafundar í fjölmiðlaheiminum íslenska. Að vísu var ágætlega gert grein fyrir þessum fundum í Morgunblaðinu og í blaði Þjóðvaka sá ég. Ég veit ekki hvað gerðist í Ríkisútvarpinu eða hljóðvarpi, en ég held að ég geti fullyrt að hvorug sjónvarpsstöðin sá ástæðu til að segja frá þessum fréttamannafundi. Alla vega voru ekki sendir fréttamenn á þennan fund sem helstu almannasamtök í landinu, sem eru að beita sér gegn áfengisvandanum og reyna að koma einhverjum böndum á áfengisbölið, stóðu fyrir.
    Hins vegar vakti það athygli að þegar yfirlýsing kom frá Kaupmannasamtökum Íslands þá var það mjög rækilega tíundað í fréttum Ríkissjónvarpsins og eitthvert kvöldið fór fram umræðuþáttur á milli fulltrúa Kaupmannasamtaka Íslands og fulltrúa frá áfengisvarnaráði, ágætar umræður, en fulltrúar samtakanna sem stóðu að þessum fundi voru virtir að vettugi að því er ég best veit. Mér finnst skipta mjög miklu máli að umræða af þessu tagi þegar verið er að gera grundvallarbreytingar á viðskiptaháttum fái sanngjarna umfjöllun í samfélaginu.
    Auk þessara almannasamtaka hefur áfengisvarnaráð einnig ályktað um þessi mál. Það hefur áður verið vitnað í þær samþykktir og ætla ég ekki að gera það aftur, þetta er skráð í þingræður, annað en segja að það er mjög eindregið lagst gegn þessum breytingum.
    Síðan gerist það að landlæknir sendir frá sér yfirlýsingu --- og að nýju leyfi ég mér að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forseta hvað líði komu hæstv. heilbrrh. hingað á fundinn.
    ( Forseti (StB) : Forseti gat þess að hæstv. iðn.- og viðskrh. gegnir störfum sem heilbr.- og trmrh. þannig að hann er hér til staðar.)
    Ég vil biðja hæstv. forseta þingsins velvirðingar, þetta fór fram hjá mér.
    Í yfirlýsingu sem kom frá landlæknisembættinu og hefur verið vitnað í af hv. 14. þm. Reykv., Kristínu Ástgeirsdóttur, í ræðu fyrr í dag, þá tíundar landlæknir í sinni greinargerð áhrif af áfengisneyslu og bendir á það hvernig Vestur-Evrópuþjóðir hafi á undanförnum árum tekið þessi mál til alvarlegrar athugunar. Hann bendir á að í þessum löndum almennt líkt og á Íslandi sé heilbrigðisþjónustan í fjárhagskreppu og þess vegna erfiðleikum bundið að bæta og auka þjónustuna og í því samhengi er landlæknir að fjalla um fyrirhugaðar lagabreytingar, en í niðurlagi bréfsins frá landlækni segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Ef samþykkt framangreinds frv. verður til þess að auka framboð og neyslu áfengis, sem margt bendir til að verði, leggst landlæknisembættið á móti samþykkt þess.``
    Samkvæmt lögum, eftir því sem ég veit best, er landlæknir helsti ráðgjafi heilbrrh. og mér finnst ástæða til þess að spyrja hvort þessi niðurstaða sem landlæknir, Ólafur Ólafsson, hefur komist að og hans embætti, verði mönnum ekki tilefni til þess að endurskoða afstöðu til þessara mála. Þess vegna vil ég taka undir þau sjónarmið sem hafa verið viðruð hér og tillögur sem hafa verið fram settar að þessum málum verði aftur vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Það er ýmislegt að athuga í sambandi við þessar lagabreytingar og einnig þær breytingatillögur sem hafa komið fram í þessu máli. Eins langar mig t.d. til að gera að umræðuefni breytingartillögu sem hefur komið fram frá meiri hluta efh.- og viðskn. þar sem segir:
    ,,Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins annast innflutning og innkaup á vínanda, áfengi og tóbaki samkvæmt lögum þessum og dreifingu þessara vara undir yfirstjórn fjmrh. Þess skal gætt að jafnræði gildi gagnvart öllum birgjum.``
    Ég hefði áhuga á því að fá það upplýst í þingumræðu hvað þetta merkir. Þarna er ekki einvörðungu verið að skírskota til áfengissölunnar heldur tóbaksins líka. Nú er það vitað mál að í sambandi við verslun með tóbak þá er á ferðinni tóbak í viðskiptalífi heimsins sem er sannarlega skaðlegt og það mun hafa verið svo að ÁTVR hafi einmitt fylgst með þessum þætti málsins mjög rækilega. ( Fjmrh.: Hvaða tóbak er ekki skaðlegt?) Hvaða tóbak er ekki skaðlegt, bendir hæstv. fjmrh. réttilega á. En hitt er annað mál að til eru tóbakstegundir sem hafa verið til sölu í ýmsum ríkjum þriðja heimsins t.d. sem eru sannanlega miklu skaðlegri en gerist almennt. Og ég vildi fá það upplýst hvað menn eru eiginlega að fara með þessu. Hér er verið að setja í lagabreytingu ákvæði sem ekki hefur fengið neina umræðu. Hér er á ferðinni heilbrigðismál sem hefur ekki komið til umræðu í heilbrn. sem fjallaði um þá þætti málsins og ég vil spyrja hvort hæstv. viðskrh., starfandi heilbrrh., sé fjarri undan vegna þess að ég er að tala um þætti sem snerta heilbrigðiseftirlit. Ég mun gera hlé á mínu máli þangað til hann er kominn aftur í salinn.
    ( Forseti (StB) : Forseti mun gera ráðstafanir til þess að hæstv. iðn.- og viðskrh. komi í salinn. Forseti hefur gert ráðstafanir til þess að hæstv. iðn.- og viðskrh. komi í salinn og hefur fengið upplýsingar um það að hann komi innan stundar. Vill forseti biðja hv. þm. að sýna biðlund.)
    Ég þakka fyrir. Hæstv. viðskrh. Ég vék í máli mínu að ýmsum þáttum sem snerta sérstaklega heilbrigðiseftirlit og ræddi sérstaklega um brtt. sem fram er komin við þetta frv. þar sem segir m.a.:
    ,,Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins annast innflutning og innkaup á vínanda, áfengi og tóbaki samkvæmt lögum þessum og dreifingu þessara vara undir yfirstjórn fjmrh. Þess skal gætt að jafnræði gildi gagnvart öllum birgjum.``
    Hér er ekki einvörðungu verið að fjalla um áfengissöluna heldur einnig tóbakssölu. Þetta er þáttur sem ekki kom til umræðu í heilbrn. þegar hún var með þessi mál til umfjöllunar, enda var þetta þá ekki komið inn, en mér finnst þetta vera þess eðlis að það þurfi að fá athugun og umfjöllun þar vegna þess að eins og ég benti á áðan, þá er það svo að í dreifingarkerfum heimsins er á ferðinni tóbak sem er sannanlega miklu skaðlegra heldur en almennt gerist með tóbak. Þetta er tóbak sem fátækum þjóðum víða um heim er selt eins og við höfum oft haft fréttir af og ég vil bara spyrja án þess að ég hafi komist sjálfur að nokkurri niðurstöðu um þetta mál: Hefur verið fjallað um þetta í heilbrrn.? Hefur verið fjallað um þetta af hálfu heilbrrh.? Hitt veit ég að landlæknir hefur fjallað almennt um þessi frumvörp og ég vitnaði áðan í greinargerð sem frá honum er komin og las upp úr niðurlagi hennar þar sem hann leggst mjög eindregið gegn því að þessi frumvörp verði samþykkt. E.t.v. er of fast að orði kveðið að segja að hann leggist mjög eindregið gegn því, en hann segir í sinni álitsgerð að verði þetta til þess að auka áfengisneyslu, en margt bendir til þess að svo verði, þá leggist embættið gegn því. Eitthvað á þessa leið var þetta orðað.
    Menn hafa verið að gæla við þá hugmynd að kaupa einhvers konar syndaaflausn í þessu máli með því að grípa til einhverra forvarna. Ég styð heils hugar tilraunir til að efla forvarnastarf. Ég styð það heils hugar að látið sé meira fjármagn til slíkra hluta. En ég spyr: Er ekki jafnframt rétt að reyna að koma í veg fyrir slysin? Þetta minnir mig pínulítið á það að menn kveikja í húsi en setji jafnframt upp eldvarnatæki. Ég vil forvarnir sem koma í veg fyrir húsbruna, sem koma í veg fyrir að slysin eigi sér stað, en hins vegar tek ég að sjálfsögðu heils hugar undir að það séu látnir fjármunir í auknar forvarnir. Ég styð það að sjálfsögðu mjög eindregið að slíkt sé gert. En það á ekki að tengja við þessi mál. Menn eiga ekki að kaupa sér syndaaflausn með þessum hætti. Það er mjög ódýr lausn fyrir menn að ganga þannig fram.
    Það sem mig langaði annars mest til að gera og ég sannast sagna hlakkaði mest til þessarar umræðu var rúsínan í pylsuendanum sem ég ætlaði að fá hæstv. fjmrh. til að svara. Ég er nefnilega búinn að velta vöngum yfir því hvað hann átti við með því á dögunum þegar hann sagði við umræðu í þinginu fyrir helgina að með samþykkt þessara laga yrði allt eftirlit með áfengissölu miklu auðveldara en nú er. Og nú lýsi ég eftir hæstv. fjmrh. Menn eru mjög vakrir á stólunum þó að hæstv. ráðherra þurfi að njóta sannmælis því að hann hefur setið hér og hlustað á þessa umræðu, en ég bíð eftir því að hann komi og hlusti á þær spurningar sem ég ætla að beina til hans. Í millitíðinni langar mig til að vitna í ágætt nefndarálit sem er reyndar minnihlutanefndarálit efh.- og viðskn. þar sem segir m.a. í áliti Ágústs Einarssonar, með leyfi forseta:
    ,,Ekki hafa verið færð sterk rök fyrir því að samþykkt frumvarpanna sé nauðsynleg til að uppfylla skyldur okkar gagnvart EES-samningunum. Íslensk stjórnvöld hafa ætíð talið að núverandi skipulag áfengismála rúmist innan EES-samninganna.
    Ekki er vitað hvort eftirlitsstofnun EFTA, sem gert hefur athugasemdir við núverandi fyrirkomulag, vísar málinu áfram til EFTA-dómstólsins. Dómstóllinn er ekki bundinn af áliti eftirlitsstofnunarinnar og réttarstaða okkar virðist vera traust.
    Samþykkt frumvarpanna skapar einnig óöryggi hjá starfsmönnum ÁTVR og ekki hefur verið sýnt fram á að breytt fyrirkomulag leiði almennt til lægri kostnaðar og aukinnar hagkvæmni við innflutning áfengis.
    Frumvörpin lúta þannig fyrst og fremst að þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að einkavæða innflutning á áfengi. Slíkt skapar vissulega aukin viðskipti hjá umboðsaðilum og birgðastöðvum en hefur jafnframt í för með sér fjárhagslega áhættu fyrir ríkissjóð.
    Dreifing birgðastöðva vítt og breitt um bæinn mun auka hættu á misnotkun og skapa ýmiss konar öryggisvandamál.``
    Tilvitnun lýkur í þetta ágæta nefndarálit frá hv. þm. Ágústi Einarssyni, en það sem ég vildi segja í sambandi við þetta er að þótt hv. þm. Ágúst Einarsson telji að okkar réttarstaða sé traust gagnvart EFTA-dómstólnum, og ég tek undir það sjónarmið að ég tel að við búum við lög núna sem eiga að tryggja að við stöndum við okkar skuldbindingar gagnvart EES, þá vil ég boða það nú að verði það ekki samþykkt að vísa þessum frumvörpum aftur til ríkisstjórnarinnar, eins og tillaga hefur verið gerð um, þá mun ég ásamt Steingrími J. Sigfússyni flytja brtt. við 3. umr. sem er á þessa leið:
    ,,Í stað 1.--6. gr. komi ný grein er orðist svo:
    Við 2. gr. laganna bætist við ný málsgrein er orðast svo:
    Komi fram ósk um að tiltekin tegund áfengis eða tóbaks verði flutt til landsins má eigi synja þeim tilmælum nema með vísun til annarra laga en þessara enda hafi sá er tilmælin bar fram tryggt að Áfengis- og tóbaksverslunin fái andvirði vörunnar greitt.``
    Aðeins þessu til skýringar er það svo að eftirlitsnefnd EFTA með framkvæmd EES-samningsins hefur gert athugasemdir við fyrirkomulag það sem Íslendingar hafa á sölu áfengis í landi sínu. Gagnrýni nefndarinnar hefur aðallega beinst að því að því að samkvæmt ákvæðum gildandi laga um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins sé unnt með ákvörðun stjórnvalds að hindra innflutning áfengis til landsins með sama hætti og væri ef bannlög giltu. Við íhuguðum það á einhverju stigi málsins að flytja þetta sem frv. en munum gera það sem brtt. við þau lagafrumvörp sem liggja frammi. Með brtt. okkar er tryggt að einkarétti til innflutnings á áfengi verði ekki beitt sem banni. Framvegis yrði ÁTVR að flytja inn vöru væri hennar óskað. Þessi breyting hefur þó ekki áhrif á umboð annarra aðila, t.d. Hollustuverndar, til að banna innflutning á vöru innihaldi hún efni sem eigi má nota í áfenga drykki.
    Ég er með ítarlegri greinargerð og skýringar á brtt. sem við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon munum flytja ef ekki verður fallist á tillögu okkur um að vísa þessum lagafrumvörpum algerlega til ríkisstjórnarinnar til endurskoðunar.
    Annars ætla ég ekki að halda þessum málflutningi lengi áfram að sinni vegna þess að við eigum eftir að heyra sjónarmið hæstv. ráðherra þar sem þeir greina okkur frá viðbrögðum við nýjum upplýsingum sem eru að koma fram um jafnræði gegnvart birgjum t.d. og heyra hvaða viðbrögð það hefur fengið hjá hæstv. heilbrrh. að landlæknisembættið skuli snúast gegn því að áfengisfrumvörpin verði samþykkt. En það sem ég ætlaði að koma að og finnst vera rúsínan í pylsuendanum og ég var farinn að hlakka mikið til er að heyra röksemdir hæstv. fjmrh. sem upplýsti okkur um það hér um daginn að með þessum lagabreytingum yrði auðveldara að framkvæma eftirlit með áfengissölunni en verið hefur.
    Ég skil mjög vel þá sem eru mjög áfram um það að stíga þessi einkavæðingarskref annaðhvort af hagsmunaástæðum eða vegna hugsjóna sinna, að þeir vilji breyta þessu af pólitískum ástæðum og þá reyni þeir að lappa upp á kerfið ef það er til óþurftar á einhverjum sviðum eða hefur einhver vandræði í för með sér. Þá leiti menn leiða til að gera við það sem bilað er en hitt finnst mér nýstárlegra þegar því er haldið fram núna að þessar breytingar verði beinlínis til að bæta eftirlitið. Þetta stríðir þvert gegn því sem þeir aðilar sem um þetta mál hafa fjallað segja að sé raunin og þar er ég að tala um áfengiseftirlitsmennina t.d. sem eru sjálfir á staðnum og fylgjast með þessum hlutum. Ég er að tala um þá sem hafa sinnt þessari skyldu hjá ÁTVR og þá aðila yfirleitt sem um þessi mál hafa vélað. Mér er fullkunnugt um að það eru ýmsir sem telja að hægt sé að finna einhverjar leiðir til þess að draga úr óhagræðinu. Menn hafa talað um það að setja upp sérstaka deild hjá skattinum t.d. Menn eru að velta vöngum yfir því hvort hægt sé að láta

tollinn stimpla og brennimerkja allar flöskur og þá spyr maður sjálfan sig hvort hugmyndin sé sú að einhver sérstök deild í tollinum kalli inn allar vínflöskur, hvort sem þær eru framleiddar innan lands, taki upp alla kassa sem koma erlendis frá. Ég hlakka reglulega til þess að heyra útskýringar hæstv. fjmrh. á þessari staðhæfingu sinni að þetta sé auðveldara.
    Hitt finnst mér annað sjónarmið að segja að það sé hægt að draga úr skaðseminni og draga úr vandræðunum með ýmsu móti. En ég veit að þeir sem hafa verið jákvæðastir gagnvart þessum breytingum og hafa komið nálægt skatti eða eftirliti á einn eða annan hátt hafa verið að velta vöngum yfir ýmsu. Þeir hafa ekki neinar afgerandi lausnir á takteinum, en ef hún er fyrir hendi og satt best að segja er þetta engin tilraun til útúrsnúninga heldur meina ég þetta alveg fullkomlega heiðarlega að mér finnst að hæstv. fjmrh. þurfi að skýra þetta. Það sem er hættulegast í svona umræðu allri er að hún fari fram, að menn séu búnir að gefa sér allar lausnir fyrir fram, að sá sem framkvæmir breytingarnar sé búinn að ákveða fyrir fram hver niðurstaðan eigi að vera og láti enga gagnrýni eða ábendingar hafa nokkur áhrif á sig. Þá má spyrja hvort það gildi ekki á báða bóga. Ég tek alveg undir það. En það sem við erum að gera hér er að bregðast við tillögum um breytingar og þá náttúrlega hvílir sönnunarskyldan á þeim sem stendur fyrir breytingunum. Og hann verður að færa rök fyrir sínu máli. Ég er t.d. sannfærður um það að margt af því sem ég hef gert að umræðuefni hérna, t.d. að framleiðsludeild ÁTVR skuli hafa verið seld fyrir minna en sem nemur fjárhagslegum ávinningi ÁTVR á einu ári, fékk aldrei rækilega umfjöllun hérna. Og það gildir um marga hluti sem menn hafa verið að taka ákvarðanir um á liðnum árum að þeir fengu ekki rækilega umfjöllun áður en ákvarðanir voru teknar, t.d. í sambandi við einkavæðinguna alla. Þess vegna segi ég og legg áherslu á að áður en ráðist er í þessar breytingar, þá hvílir sú skylda á þeim sem standa fyrir breytingunum að gera mjög rækilega og rökstudda grein fyrir því hvernig þeir ætla að standa að þessu og þeir verða að svara þeirri málefnalegu gagnrýni sem fram hefur verið sett.