Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

21. fundur
Þriðjudaginn 13. júní 1995, kl. 17:10:47 (782)


[17:10]
     Ögmundur Jónasson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ef hæstv. fjmrh. getur ekki skýrt þessi mál betur en þetta þá skortir mikið á. Í fyrsta lagi talar hæstv. fjmrh. um þær breytingar sem verið er að gera og segir: Nú þarf fjmrh. að gefa leyfi. Hér hefur komið fram við umræðuna hvað eftir annað að leyfi án þess að við þekkjum reglugerðina sem fylgir frv. og er ekki til staðar, er bara marklaust tal. Við vitum ekkert á hvaða grundvelli slík leyfisveiting fer fram.
    Í annan stað er talað um það í lagafrv. að lögreglan eigi að gefa veitingahúsum auknar gætur. Ég fer ekki alveg orðrétt með lagatextann, en þetta er hugsunin. Það var spurt við umræðu: Hvað er raunverulega átt við með þessu? Þetta eru þær breytingar til eftirlits sem hæstv. fjmrh. vitnaði í, auk þess sem hann talaði um forvarnagjaldið sem kemur í rauninni þessu máli ekki við. En hæstv. ráðherra kom hins vegar inn á kjarna málsins, sem er spurningin um merkingarnar.
    Í fyrsta lagi, og ég ætla reyndar að byrja aftan frá, talar hann um að nú sé ekki lengur hægt að kaupa og fara með það úr smásölunni inn í veitingahúsin. Verður ekki smásalan enn hjá ÁTVR? Heldur

hæstv. ráðherra að það verði ekki enn möguleiki á að gera þetta? Það verður möguleiki á að gera þetta. Það sem víneftirlitsmennirnir tjáðu okkur var að til þess að ná betri böndum á þetta þurfi traustari merkingar, helst dagbundnar merkingar. Og það segir sig sjálft að þegar þú ert með þetta á einni hendi en ekki mörgum þá er miklu auðveldara að sinna því hjá ÁTVR en að sinna því annars staðar. Ég gæti haldið áfram lengur, en þessar upplýsingar sem hér eru að koma fram eru í raun engar upplýsingar.