Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

21. fundur
Þriðjudaginn 13. júní 1995, kl. 17:13:04 (783)


[17:13]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég get auðvitað ekki gert neitt við því þótt hv. þm. skilji ekki eða vilji ekki skilja eða telji ekki skýringar nægilega góðar. En það liggur í hlutarins eðli að það er hægt að fylgjast með og verður fylgst með því hvað heildsalinn tekur mikið af vínföngum til sín og hvert hann selur þessi vínföng. Það er mjög auðveldlega hægt að fylgjast með því. Og þegar við erum að bera saman einhverja hluti þá verðum við að bera saman þá kosti eins og staðan er í dag og hvernig hún verður eftir breytinguna og það var það sem ég gerði. Ég var ekki að bera það saman sem væri hægt að auka við frá deginum í dag, eins og hv. þm. virtist vera að gera þegar hann gaf sér að það ætti að fara fram miklu meira eftirlit heldur en er í dag.
    Það sem skiptir máli er að það myndast heildsöluverð og sá aðili sem ætlar að kaupa í smásölu til endursölu verður þá a.m.k. að greiða hærra verð heldur en ef viðskiptin eru með eðlilegum hætti. En í dag er það svo að vínveitingahús og þeir sem hafa vínveitingaleyfi verða að greiða smásöluverð rétt eins og sá sem er venjulegur kaupandi að áfengi. Þannig að það má halda því fram með fullum rökum að það sé auðveldara og það sé meira eftirlit og minni líkur til þess að menn svindli í nýja kerfinu heldur en því gamla. Það er það sem liggur að baki mínum ummælum. Og ég vil endurtaka það að merkingar á flöskum með merkinu ÁTVR eru ekki á öllum flöskum heldur einungis á þeim flöskum sem ÁTVR flytur inn til sölu í sínum búðum en ekki það sem fer fram með sérpöntunarkerfi eða áfengi sem er flutt inn með öðrum hætti, t.d. í gegnum Fríhöfnina í Keflavík. Það er misskilningur sem ég heyri allt of oft sagðan hér úr ræðustóli á hinu hv. Alþingi.