Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

21. fundur
Þriðjudaginn 13. júní 1995, kl. 17:17:39 (785)


[17:17]
     Sólveig Pétursdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil gera athugasemd við það hvernig hv. þm. talaði um og vitnaði í hv. þm. Vilhjálm Egilsson, sem er fjarverandi og getur því ekki svarað fyrir sig. Ég tel a.m.k. rétt að það komi skýrt fram að hann er erlendis og gegnir þar störfum á vegum Alþingis.
    Ég vil líka taka undir það sem hæstv. fjmrh. benti á áðan, að það kemur hér brtt. á eftir með næsta máli um sérstakan forvarnasjóð sem verður mælt fyrir í brtt. við frv. til laga um gjald af áfengi. Hv. þm. spurði líka sérstaklega um brtt. varðandi jafnræði um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Það segir í lok brtt. að þess skuli gætt að jafnræði gildi gagnvart öllum birgjum. Ég held að þar sé átt við það að ÁTVR geti ekki mismunað aðilum, þ.e. að jafnræðisreglan sé í heiðri höfð, en auðvitað á jafnræðisreglan að gilda hvort sem er gagnvart sérstaklega settum stjórnsýslulögum. En hér er það greinilega ítrekað í brtt.