Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

21. fundur
Þriðjudaginn 13. júní 1995, kl. 17:19:01 (786)


[17:19]
     Ögmundur Jónasson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að spyrja hv. þm. hvað hv. þm. átti við með tilvitnun minni í ummæli hv. þm. Vilhjálms Egilssonar og hvað var óviðurkvæmilegt við það í minni ræðu. Ég hef bent á að við erum að fjalla um mál sem efh.- og viðskn. þingsins hefur haft til umfjöllunar og ég hef kvartað yfir því að formaður þeirrar nefndar, hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, skuli ekki vera á staðnum til að taka þátt í umræðu um þetta. Ég vitnaði einnig til þess að hann hefði sagt í útvarpsviðtali á dögunum frá Brussel, að hann teldi ekki koma til greina að þinghaldi lyki fyrr en búið væri að samþykkja þessi brennivínsfrumvörp. Þetta er bara staðreynd máls, sem er ekkert óeðlilegt að sé reifuð og rædd hér. En ég óska eftir því að þingmaðurinn geri nánar grein fyrir því hvað hér er um að ræða.
    Í annan stað segir hv. þm. að hún haldi að jafnræðisreglan varðandi birgjana og nú erum við ekki bara að tala um áfengið, við erum að tala um tóbakið líka, þýði eitthvað tiltekið. Mér finnst ekki nægilegt að halda eitthvað um þessi efni. Þess vegna ítreka ég fyrirspurn mína til hæstv. starfandi heilbrrh., Finns Ingólfssonar: Hefur þetta fengið umræðu í heilbrrn.? Hver er afstaða heilbrrh. til þess?