Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

21. fundur
Þriðjudaginn 13. júní 1995, kl. 17:25:50 (790)

[17:25]
     Ögmundur Jónasson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir hans svör. Hins vegar held ég að það þurfi miklu ítarlegri umræðu um þessi efni og ekki síst þær mótsagnakenndu upplýsingar sem okkur eru að berast af afstöðu landlæknis. Það er rétt að aðstoðarlandlæknir kom á fund heilbrn. þegar hún fjallaði um þessi mál almennt og svo að ég vísi í umsögn Ögmundar Jónassonar og Ástu R. Jóhannesdóttur um þessi frumvörp, með leyfi forseta, þá segir þar um hlut aðstoðarlandlæknis orðrétt:
    ,,Aðstoðarlandlæknir taldi frv. ekki til bóta, enda væri hér verið að stíga ,,fyrsta skrefið`` og opna fyrir ,,duldar auglýsingar``. Tók fulltrúi landlæknisembættisins undir það sjónarmið að með lagabreytingunum væri áfengi gert að verslunarvöru í ríkari mæli en verið hefur og þar með mundi aukast áhersla á að koma áfengi á markað.`` --- Tilvitnun lýkur í umsögn minni hluta heilbrn.
    Síðan vil ég taka það fram að í þessu bréfi sem heilbrn. var skrifað frá 7. júní talar landlæknir um áfengisvarnir almennt, segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Ef samþykkt framangreinds frv. verður til þess að auka framboð og neyslu áfengis, sem margt bendir til að verði, leggst landlæknisembættið á móti samþykkt þess.``
    Ég á hins vegar erfitt með að sjá hvernig forvarnasjóðurinn kemur inn í það mál. Það er annað og óskylt mál. En mér finnst að þessar upplýsingar, sem eru að koma hér inn núna, þurfi miklu frekari umræðu. Mér fyndist eðlilegt að þeir þættir sem eru núna að koma upp, bæði með tóbakssöluna og afstöðu landlæknisembættisins, séu tilefni þess að fara með þetta aftur inn í heilbrn. og fá nánari útlistanir frá heilbrrn.