Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

21. fundur
Þriðjudaginn 13. júní 1995, kl. 17:31:05 (793)


[17:31]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Umfjöllunin um þetta mál sem hér er á dagskrá hefur verið mjög lærdómsrík. --- Virðulegi forseti. Ef starfandi heilbrrh. getur ekki verið hér við umræðuna þá held ég að það sé óþarfi að

halda henni áfram.
    ( Forseti (StB) : Forseti mun gera ráðstafanir til þess að hæstv. iðnrh., starfandi heilbrrh., verði hér við.)
    Sú umræða sem hér hefur farið fram og meðferð þingsins á þessu máli hefur verið mjög lærdómsrík. Hún hefur ekki síst verið lærdómsrík fyrir hæstv. heilbrrn. og þá sem þar bera ábyrgð. Þegar hæstv. fjmrh. kom með þetta mál í þingið og reyndar tvö sem hér eru á dagskrá, þá var viðhorf stjórnarflokkanna til frumvarpanna á þann veg að þessi frumvörp bæri að afgreiða með einföldum hætti í þinginu. Svo mikið lá við að hæstv. fjmrh. óskaði eftir því að fá að mæla fyrir báðum frv. í einu, vísa þeim með hraði til nefndar og afgreiða málin sem skjótast.
    Hæstv. heilbrrh. áttaði sig þá allt í einu á því í þingsalnum að líklegast væri þetta mál sem heilbrrn. ætti lögum samkvæmt að láta til sín taka um. Nú þegar málið kemur frá nefnd þá er komið í ljós að þessir sömu stjórnarliðar og þessir sömu ráðherrar, sem fyrir fáeinum vikum síðan töldu að engu þyrfti að breyta, eru að hæla sér af veigamiklum brtt. sem hafa verið lagðar fram um þetta mál. Í þeim brtt., m.a. stofnun forvarnasjóðsins, sem starfandi hæstv. heilbrrh. var að gera að umtalsefni áðan, felst viðurkenning á því að þegar hæstv. ríkisstjórn kom með málið inn í þingið var það á engan hátt í þeim búningi að það væri hægt að afgreiða það. Ég tel þess vegna að eins og málið liggur hér fyrir við 2. umr. og þær brtt. sem stjórnarflokkarnir flytja hér og ráðherrar hafa gert að umtalsefni, staðfesti að sú gagnrýni og kannski það andóf sem einstaka þingmenn hafa haft uppi um þetta mál í þinginu hafi verið byggt á fullum rökum. Hver eru rökin? Þau eru tengd því að áfengi hefur tvíþætt eðli í okkar þjóðfélagi: Það er annars vegar verslunarvara og lýtur þess vegna lögmálum viðskipta, bæði í alþjóðlegum samningum um það efni sem og öðrum lögmálum sem um viðskipti fjalla, en í öðru lagi er áfengi vímuefni. Áfengi er vímuefni sem sannanlega skaðar þá sem neyta þess í óhófi til lengdar, sem sannanlega er orsök fjölmargra slysa og sjúkdóma í okkar þjóðfélagi, sem sannanlega er orsök fjölmargra fjölskylduvandamála og persónulegra harmleikja í okkar þjóðfélagi, sem sannanlega er ein meginorsök unglingavandamála í okkar þjóðfélagi.
    Þessi seinni þáttur málsins hafði á engan hátt verið skoðaður, ræddur eða undirbúinn þegar ríkisstjórnarflokkarnir komu með þetta mál hér til þings. Sérstaklega var þáttur Framsfl. ámælisverður í þeim efnum vegna þess að hv. fyrrv. þm. Jón Helgason rakti á síðasta þingi mjög rækilega þessa þætti málsins og benti á það með skýrum rökum í nokkrum ræðum á síðasta þingi, að ef ætti að afgreiða þessi frv. þá yrði að taka þann þátt sem snertir áfengi sem vímuefni, áfengi sem vandamál heilbrigðiskerfisins til miklu rækilegri umfjöllunar. Ég tel þess vegna að það beri að fagna því að nokkru leyti hér við 2. umræðu, að vegna málflutnings nokkurra þingmanna stjórnarandstöðunnar, vegna vinnu nokkurra þingmanna í nefndum, hefur tekist að klæða málið í búning sem er þó í áttina að því að menn með opnum augum átti sig á því að áfengi er ekki bara eitthvað sem tengist EES-samningnum, þó að margir hafi talið að verslun með áfengi væri undanþegin EES-samningnum.
    Áfengi er vandamál. Víðtækt, þjóðfélagslegt, heilbrigðislegt og fjölskyldulegt vandamál. Viðurkenning á því sjónarmiði hefur ekkert með það að gera hvort einstaklingar neyta þess eða ekki sjálfir, heldur tel ég að þingið, sérstaklega nú á tímum, þegar fjölskyldustefna, persónuvernd og heilbrigði einstaklinga og þjóðfélagsheilda eru æ ríkari þáttur í umfjöllum þjóðþinga og stjórnvalda víða um heim, þá beri að horfa á þennan þátt málsins mjög rækilega.
    Mér hefur verið tjáð t.d. og er nú vont að hæstv. fjmrh. skuli vera fjarri, en vonandi heyrir hann það. ( Fjmrh.: Hann hlustar.) Mér hefur verið tjáð að fram hafi komið á vettvangi heilbrn. að fulltrúi heilbrrn. hafi kvartað undan því að heilbrrn. hafi gengið mjög illa að fá fjmrn. til þess að viðurkenna þessa þætti málsins. Það er auðvitað mjög slæmt ef fjmrn. áttar sig ekki á því að um áfengi gilda önnur lög en þau sem snerta verslun með áfengi.
    Ég vil einnig segja það, virðulegi forseti, út af orðum hv. þm. Sólveigar Pétursdóttur --- það er nú líka vont að þessi eini fulltrúi Sjálfstfl. í efh.- og viðskn., sem hér er þó til andsvara, skuli ekki vera viðstaddur umræðuna samfleytt. --- Ég vil líka segja það við hv. þm. að það er ekki hægt að halda þannig á málum af hálfu stjórnarliðsins í þinginu að þeir sem bera ábyrgð á málinu í nefndum séu eiginlega aldrei til viðtals í þingsalnum um tillögugerð nefndarinnar. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson hefur metið þær skyldur sínar að vera erlendis mikilvægari en þær skyldur sínar að vera hér, vegna þess að þingmanninum ber líka skylda til að vera hér. Hann er formaður nefndarinnar sem um þetta mál fjallar og það kom fram á þeirri stuttu stund sem hann var viðstaddur umræðu um þetta mál í síðustu viku, að hann upplýsti það hér að hann var höfundur, ásamt fulltrúum Framsfl. í nefndinni, að m.a. þeirri breytingu á stjórnskipulagi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins sem lagt er til að hér verði gerð. Báðir fulltrúar Framsfl. sem stóðu að þessari tillögugerð, hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir og hv. þm. Gunnlaugur Sigmundsson, eru líka fjarverandi, ekki bara í dag heldur líka í síðustu viku. Við höfum þess vegna ekki átt neinn möguleika til þess að ræða við þá fulltrúa Framsfl. sem samkvæmt upplýsingum hv. þm. Vilhjálms Egilssonar eru höfundar tillögunnar um það að breyta stjórnskipulagi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Þá er verið að setja okkur í þá aðstöðu samkvæmt kenningu hv. þm. Sólveigar Pétursdóttur að við megum ekki tala um málið vegna þess að hv. þm. séu fjarverandi í skyldustörfum sínum erlendis og þess vegna megi ekki tala um þá, orð þeirra, verk og tillögur. Það gengur auðvitað ekki upp, hv. þm. Það er ekki hægt að setja þinginu þær skorður að fyrst einstakir þingmenn sem unnið hafa að málum meta skyldur sínar erlendis meira en skyldur sínar hér

þá verðum við hinir að afneita rétti okkar til að fjalla um málið.
    Ég segi það alveg skýrt að mér finnst hv. þm. Vilhjálmur Egilsson hafa umgengist þetta mál af ótrúlegri léttúð og þau svör sem hann gaf í þingsalnum í síðustu viku og hv. þm. Ögmundur Jónasson vék m.a. að í sinni ræðu gefa til kynna að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson líti alls ekki á þetta mál sem alvörumál heldur eitthvað sem hann getur svarað í hálfkæringi og flimtingum þegar menn eru að setja fram rökstudda gagnrýni á bæði tillögugerð og sjónarmið sem fram hafa komið.
    Mér finnst líka vera fullkomlega óeðlilegt að af hálfu Framsfl. skuli það ekki vera útskýrt í þingsalnum af einum einasta manni hvaða rök eru fyrir því að í tengslum við þetta mál skuli eftir rúmlega 70 ára sögu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins fulltrúar Framsfl. í efh.- og viðskn. allt í einu að komast að þeirri niðurstöðu að nú verði að breyta stjórnskipulagi fyrirtækisins, nú verði að setja því stjórn. Það má vel vera að það geti verið rök fyrir því að setja fyrirtækinu stjórn. Þau hafa bara ekki verið borin fram í þingsalnum af hálfu þeirra sem flutt hafa um það tillögu, hvað þá heldur að tillaga um að setja stjórn yfir Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins snerti eitthvað það mál sem hér er verið að fjalla um.
    Upphaflega var þetta mál kynnt þannig að beint eða óbeint væri upphafs þess að leita í EES-samningnum. Það er ekkert í EES-samningnum sem segir að það eigi að skipa stjórn yfir Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Hvert á að vera verkefni þessarar stjórnar. Hvaða hagsmunir eiga að eiga þar fulltrúa? Hvaða starfsháttum á stjórnin að fylgja? Á hún að skerða eitthvað valdsvið forstjórans? Á hún að gæta almannahagsmuna? Á hún að gæta hagsmuna innflytjenda? Á hún að gæta hagsmuna neytenda? Á hún að gæta heilbrigðishagsmuna? Hvert er verkefnið?
    Við höfum aðra ríkisstofnun, Ríkisútvarpið. Þar kýs þingið stjórn yfir ákveðnum þætti í starfsemi útvarpsins, þ.e. dagskrárgerðinni, útvarpsráð. Það er ekki fjármálastjórn. Útvarpsráð er ekki fjármálastjórn yfir Ríkisútvarpinu. Sú stjórn er í höndum embættismanna Ríkisútvarpsins. Það liggur ekkert fyrir í þeirri tillögugerð sem hér er lögð fram hvert á að vera verksvið þessarar stjórnar. Og það sem er verra er að hæstv. fjmrh. á að hafa algerlega opna heimild um það að velja einstaklinga í þessa stjórn. Hæstv. fjmrh. vék að því í andsvari fyrir helgina að það mætti með vissum hætti líkja þessu við Lyfjaverslun ríkisins. Hæstv. fjmrh. veit auðvitað að þessi tvö fyrirtæki eru jafnólík og frekast getur verið.
    Áfengis- og tóbaksverslunin fjallar um eitthvert víðtækasta sviðið í okkar þjóðfélagi, sinnir því erfiða verki að sækja tekjur fyrir ríkið án þess að auka neysluna, og ég legg áherslu á þetta síðasta atriði, án þess að auka neysluna, því það hefur ávallt verið tengt markmiðum verslunar með áfengi á Íslandi að sá hluti markaðslögmálanna sem felst í því að selja sem mest gilti ekki um verslun með áfengi. Mér finnst mjög mikilvægt að hæstv. fjmrh. geri okkur grein fyrir því hvort með einhverjum hætti sé verið að feta sig frá þeirri braut að reyna að halda sölunni og þar með neyslunni á áfengi innan hóflegra marka.
    Þegar opnað er á þá möguleika sem gert er í þessum tillöguflutningi þá segir það sig sjálft að það er búið að skapa fjömarga nýja möguleika fyrir umboðsaðila og innflytjendur að auka neysluna og satt að segja er það þannig að 30--40 millj. eða hvað það er sem á að vera í þessum forvarnasjóði er satt að segja ansi lítið fé.
    Hér var t.d. fyrir nokkrum árum síðan reglulega haldið uppi fræðslustarfi í grunnskólum og framhaldsskólum um reykingar. Það fræðslustarf var að margra dómi veigamikill þáttur í því að draga úr reykingum í okkar landi, minnka þannig tilkostnað heilbrigðisstéttanna og auka heilbrigði og hamingju einstaklinganna. Ég held að ég fari rétt með að þetta fjármagn hafi verið skorið það rækilega niður á undanförnum árum að slík fræðslustarfsemi hafi ekki farið fram um langt árabil, a.m.k. ekki í sama mæli og áður, í grunnskólum eða framhaldsskólum. Sé ætlunin með forvarnastarfi að taka upp fræðslu í grunnskólum og framhaldsskólum um þá hættu sem felst í áfengisneyslu unglinga þá er alveg ljóst að 30--40 millj. í þeim efnum eru litlir peningar.
    Við heyrðum af því fréttir fyrir nokkru síðan að þegar prófum í framhaldsskólunum og jafnvel grunnskólunum lauk hafi það leitt til verulegrar unglingadrykkju á götum höfuðborgarinnar. Því miður er það þannig að á síðari árum hafa komið fram fjölmörg dæmi um það að unglingadrykkja í okkar þjóðfélagi hefur færst í vöxt með þeim hætti að sívaxandi hópur drengja og stúlkna er um tvítugsaldur orðnir alvarlegir áfengissjúklingar. Það var nánast óþekkt í landinu fyrir 25--30 árum síðan, en í dag búum við við víðtækt þjóðfélagsvandamál sem felst í því miður allt of stórum hópi drengja og stúlkna sem eru samkvæmt skilgreiningu læknisfræðinnar orðnir áfengissjúklingar um tvítugsaldur.
    Við höfum kannski rætt allt of lítið um þennan þátt málsins hér á Alþingi og ég heyri það t.d. á einstaka þingmönnum í hliðarsölum að menn gera létt grín að þessari umræðu og segja: Eru hér einhverjir bindindismenn að tala? Eða af hverju er verið að tala um þessa vitleysu, eins og heyrðist í frammíkalli frá einum þingmanni áðan. Ég vil spyrja þingmenn: Vita menn um einhverja neysluvöru á Íslandi sem skapar meiri heilbrigðisvandamál, meiri fjölskylduvandamál, meiri einstaklingsvandamál í okkar þjóðfélagi en neysla á áfengi? Geta menn nefnt einhverja eina vörutegund sem fer fram úr áfenginu hvað þetta snertir? ( KH: Sykur.) Sykur, segir hv. þm. Kristín Halldórsdóttir. Það getur vel verið, hv. þm., að það megi nefna sykur í þessu sambandi. Ég veit ekki um mörg umferðarslys sem verða vegna neyslu á sykri. Ég veit ekki um marga unglinga sem eru orðnir ósjálfbjarga vegna sjúkdóma líkt og áfengisneysla er vegna neyslu á sykri um tvítugt. Ég vara satt að segja við því að vera að flytja þessa umræðu niður á það plan að það megi nefna sykur eða einhverjar slíkar vörutegundir og þar með sé umræðunni vísað út af borðinu. Það má

vel vera að hægt sé að rekja einhverja langvarandi sjúkdóma sem ég held að komi flestir fram miklu síðar á ævinni til neyslu sykurs en þeirra harmleikja sem við erum hér að ræða um og snerta áfengisneyslu beint og óbeint.
    Þau frumvörp sem við erum hér að ræða um hafa skapað þessa umræðu í þinginu vegna þess að með þeim er verið að stíga fyrsta skrefið út úr þeim þrönga viðskiptaramma sem í ártugi hefur gilt um verslun með þessa vöru á Íslandi. Við erum satt að segja mörg hver þeirrar skoðunar að réttara hefði verið að þrengja viðskiptarammann enn frekar en að rýmka hann. Það væri hægt að færa fyrir því víðtæk rök, hæstv. fjmrh., að það mundi leiða til verulegs sparnaðar í ýmsum útgjaldaþáttum ríkisins að minnka neyslu á áfengi, sérstaklega hjá ákveðnum þjóðfélagshópum á ákveðnu aldursskeiði. En sú umræða fæst aldrei í gang vegna þess að það ríkir ákveðið tabú í kringum þetta, nákvæmlega sams konar tabú og ríkti gagnvart umræðunum um reykingar fyrir svona 10--15 árum síðan. Nú er það viðurkennt að reykingar séu slíkur sjúkdómavaldur að það sé réttlætanlegt að skerða persónufrelsi einstaklinga varðandi neyslu þessa efnis. Og það sem meira er að læknisfræðilega hefur það verið talið sannað að reykingamaður sem reykir á vinnustað innan um fólk sem ekki reykir, t.d. barnshafandi konur, sé að valda þeim sem eru á sama stað og fóstrinu verulegu tjóni. Þess vegna hafa jafnvel í landi frelsisins, Bandaríkjunum, verið teknar upp reglur og sett lög um það sem banna ekki aðeins reykingar t.d. í flugvélum og á veitingastöðum heldur banna líka reykingar á vinnustöðum. Svo hörð er löggjöfin í New York t.d., háborg viðskiptafrelsisins, að í skýjakljúfunum á Manhattan, í skýjakljúfunum á Wall Street, þekktasta götunafni viðskiptafrelsisins í heiminum, er samkvæmt löggjöf bannað að reykja á hverri einustu hæð skýjakljúfanna. ( GHelg: Þetta er kolvitlaust fólk.) Hv. þm. getur haft sínar skoðanir á því, eins og þekkt er. Það breytir ekki því að löggjafinn í Bandaríkjunum hefur talið nauðsynlegt vegna heilsusjónarmiða og annarra sjónarmiða að banna með lögum reykingar á öllum skrifstofum í háborg heimsviðskiptanna á Wall Street á Manhattan. Og svo standa menn hér, hæstv. fjmrh., hv. þm. Sólveig Pétursdóttir og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson og segja að neysla vímuefna verði að vera frjáls í nafni viðskiptafrelsisins. Eru þau lög eitthvert brot á viðskiptafrelsi sem yfirvöld í Bandaríkjunum, bæði þjóðþingin, ríkisþingið og borgarstjórnirnar hafa sett um neyslu áfengis og tóbaks á opinberum vettvangi, á vinnustöðum og annars staðar? Er það eitthvað brot á einstaklingsfrelsinu, viðskiptafrelsinu? Á hvaða braut erum við þegar hér á Íslandi er verið að opna starfshætti í verslun með áfengi, þetta vímuefni, á sama tíma og í háborg viðskiptanna í Bandaríkjunum eru menn að ræða hvernig sé hægt að takmarka þessi viðskipti vegna þeirrar hættu sem í þeim felst.
    Þess vegna er ég þeirrar skoðunar, hæstv. fjmrh., að væru íslensk stjórnvöld, hæstv. heilbrrn. og hæstv. fjmrn., með sannfæringu fyrir því að þær skoðanir sem íslensk stjórnvöld sannanlega lýstu á sínum tíma, að vegna heilbrigðis- og félagssjónarmiða áskildum við okkur rétt í EES-samningnum að hafa áfram forræði á þeim viðskiptaháttum sem við vildum hafa um þessi efni í okkar landi, þá væri réttara að sækja þetta mál fyrir EES-dómstólnum ef eftirlitsnefndin vill þá höfða mál eða einhver annar. Ég tel sérstaklega, hæstv. starfandi heilbrrh., að það hafi átt að vera skylda heilbrrn. að knýja á um að það yrði gert. Það hafi verið röng ákvörðun hjá heilbrrn. að beygja sig undir það að þessum þætti, sem var kjarninn í fyrirvara Íslands, væri bara ýtt til hliðar hér heima og farið í þann leiðangur sem menn eru í hér nú með þessi stjfrv. Vegna þess að þegar íslensk stjórnvöld ýta því til hliðar nú þá tel ég að þau hafi ekki möguleika til að taka upp vörnina þegar kemur að smásölunni.
    Með því að beygja sig undir það að gera þessar breytingar fyrir fram bara út af áliti eftirlitsstofnunarinnar, en án þess að dómstóllinn hafi fellt úrskurð, er ríkisstjórn Íslands, Sjálfstfl. og Framsfl. og þeir sem standa að þessum breytingum, að mínum dómi að stíga skrefið í áttina að því að smásalan verði líka gefin frjáls. Ég held því miður að það sjónarmið sem hæstv. utanrrh. lýsti hér við 1. umr. málsins, að ef það gerðist að eftirlitsstofnunin léti í ljós þá skoðun að ríkisskipunin á smásölu áfengis samrýmdist ekki EES- samningnum hér á Íslandi þá bæri að fara í mál, þá ætti ekki að beygja sig fyrir áliti eftirlitsstofnunarinnar, sé rangt mat, í grundvallaratriðum rangt mat. Að varnarlínan liggi ekki milli smásölustigsins og heildsölustigsins, eins og hæstv. utanrrh. vildi vera láta, heldur liggi varnarlínan um málið í heild sinni út frá grundvelli heilbrigðissjónarmiða og félagslegra sjónarmiða, en ekki út frá viðskiptamismun milli heildsölu annars vegar og smásölu hins vegar. Það er hættan sem heilbrrn. og ríkisstjórnin er búin að setja íslenskan málstað í, að beygja sig undir það að viðskiptarökin séu æðri í málinu.
    Ég vil segja það hér alveg skýrt að ef það kemur að því að EFTA-stofnanirnar dæmi að lokum á þann veg að það verði líka að gefa smásöluna frjálsa þá liggur orsökin í afstöðu þess meiri hluta sem stendur að þessum málum hér.           


    Mér finnst líka mikilvægt að ræða það hér og mér finnst merkilegt að það fæst ekki um það umræða af hálfu hvorugs stjórnarflokksins og alls ekki ráðherranna, að þeir telji það eitthvað óeðlilegt að mál gangi til dóms innan EES-svæðisins. Það er sjónarmið sem ég skil ekki. Hvað sem líður afstöðu manna til EES-samningsins þá var sett upp sú skipan að þar væri eftirlitsstofnun og þar væri úrskurðaraðili, hliðstætt því sem við erum með í okkar landi. Við erum með eftirlitsaðila eins og lögreglu og margar aðrar eftirlitsstofnanir og svo erum við með dómstóla. Er eitthvað óeðlilegt að aðili sem telur að eftirlitsstofnun eða t.d. lögregla hafi rangt fyrir sér biðji um úrskurð dómstóls? Felst einhver ósigur í því, felst eitthvert tap eða vanmat í því? Nei alls ekki.
    Það er alveg ljóst að við erum að fjalla hér um atriði --- og ég fullyrði að allir þeir sem komu að EES-samningnum á undirbúningsstigi, á umfjöllunarstigi og allt fram undir kannski síðasta áfangann voru þeirrar skoðunar að við þyrftum ekki að gera breytingar á þessu atriði vegna EES-samningsins. Þá er réttara og skynsamlegra að láta dómstólinn virka. Og að gefa það til kynna hér í meðferð þessa máls að það sé álitshnekkir, eins og sumir hafa talað, að það sé álitshnekkir fyrir Ísland að mál gangi til úrskurðar hjá EES-dómstólnum. Það er enginn álitshnekkir. Er það einhver álitshnekkir fyrir hv. þm. Stefán Guðmundsson ef einhver lögreglumaður telur að hann hafi brotið eitthvað af sér og hv. þm. er ósammála lögreglumanninum og fer í mál, neitar að borga sína sekt og lætur málið ganga til úrskurðar héraðsdómara í sinni heimabyggð? Auðvitað er það enginn álitshnekkir. Réttarríkið byggir á því að menn láti mál ganga í úrskurð. ( StG: Af hverju settir þú mitt nafn í . . .  ?) Það er engin sérstök ástæða fyrir því. Ég tók bara dæmi af sómakærum alþingismanni, sem menn vita að vill ekki vamm sitt vita og myndi ekkert beygja sig undir það þótt einhverjir með derhúfu eða stimpil eftirlitsstofnunar væru að láta í té einhverja skoðun sem þingmaðurinn væri ósammála. ( Gripið fram í.) Já.
    Mér finnst þess vegna í þessu máli vera falin ansi alvarleg hætta á upphaftíma EES-samningsins að hér tala ráðherrar og ýmsir aðrir á þann veg að það væri í sjálfu sér tap fyrir Ísland að láta mál ganga í úrskurð. Þess vegna er ég eindregið þeirrar skoðunar að þessu máli sem hér er til umfjöllunar eigi að haga á þann veg að íslensk stjórnvöld eiga að neita að viðurkenna álit eftirlitsstofnunarinnar. Íslensk stjórnvöld eiga að neita að viðurkenna álit eftirlitsstofnunarinnar og búa sig í málflutning við dómstólinn þar sem, hæstv. heilbrrh., heilbrrn. hefur forustu. Ekki fjmrn. sem ber ábyrgð á viðskiptaþætti áfengismálanna á Íslandi, ekki utanrrn. sem að forminu til fjallar að vísu um samskipti við útlönd heldur það ráðuneyti sem ber ábyrgð á því starfssviði þar sem fyrirvarinn var. Að við vildum í milliríkjaviðskiptum af þessu tagi halda því til streitu að áfengi hefði tvíeðli. Annars vegar er það vara og hins vegar er það fíkniefni.
    Ég vil líka segja það hér til að fyrirbyggja misskilning að ég tel þetta mál ekki vera flokkspólitískt. Ég tel þetta ekki vera mál sem eigi að reyna að knýja fram til úrslita eftir því hvernig flokkar raða sér í ríkisstjórn undir ýmsum sjónarmiðum og tilviljunum frá einum tíma til annars. Eins og menn hafa heyrt í frammíköllum má vel vera að ég og hv. þm. Guðrún Helgadóttir séum ekki alveg sammála um alla þætti í þessu máli og við erum örugglega ekki sammála um alla þætti hvað snertir tóbaksvarnir. ( GHelg: Ég er sammála formanninum í einu og öllu.) Ég þakka fyrir það. En það er bara ekki þátturinn í þessu máli. Það hefur tekist hér á Íslandi þangað til núna að hafa breiða flokkspólitíska samstöðu um það að annars vegar værum við með ákveðna viðskiptahætti um áfengi og hins vegar mundum við reyna að efla forvarnastarf og tryggja áfengisvarnir. Mér finnst þetta mál satt að segja vera sótt af slíku kappi að menn eru að slíta þá samstöðu í sundur. Einn þátturinn í því er það atriði í brtt. meiri hluta nefndarinnar að nota frv. til að gera breytingar á stjórnunarháttum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa lengra mál um þetta hér og nú. Hins vegar árétta ég að mér finnst það ekki góðir starfshættir á Alþingi að þeir nefndarmenn, í þessu tilviki þingmenn Framsfl. í efh.- og viðskn., sem standa hér að ákveðinni tillögugerð hafa aldrei verið viðstaddir 2. umr. um málið. Hvorki hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir né hv. þm. Gunnlaugur Sigmundsson hafa verið viðstödd 2. umr. málsins þannig að okkur hefur ekki gefist nein aðstaða til þess að ræða við þingmennina um tillögur sem þau flytja. Hæstv. fjmrh. hefur upplýst að hann er ekki frumkvæðisaðili að þeim tillögum heldur hafi það frumkvæði komið frá hv. þm.
    Ég tel einnig, hæstv. starfandi heilbrrh., að brýn nauðsyn sé að heilbrrn. geri sig með myndugum hætti gildandi í þessu máli. Ekki bara á þinginu heldur líka gagnvart þeim erlendu stofnunum sem eru hluti af EES-kerfinu. Ég tel að það hafi komið rækilega í ljós í þessu máli og ég ætla ekki að segja að það sé sök núv. heilbrrh., hún er ný í því starfi, en það hefur tvímælalaust komið í ljós við meðferð málsins að heilbrrn. hafði af einhverjum ástæðum ekki staðið vaktina. Annaðhvort vegna andstöðu fjmrn. sem heilbrrn. beygði sig undir eða af einhverri annarri ástæðu. Ég vona satt að segja að innan heilbrrn. muni menn áður en þetta mál verður tekið hér til endanlegrar afgreiðslu vega það og meta að nýju hvort það er ekki skynsamlegra út frá þeim hagsmunum sem heilbrrn. ber að gæta um meðferð áfengis að afgreiða ekki þessi frv. heldur láta málið ganga ef eftirlitsstofnunin kýs svo til úrskurðar viðkomandi dómstóls á EES-svæðinu.
    Ég ítreka það sjónarmið sem ég lét í ljós hér áðan að ég held að málatilbúnaðurinn í þessu máli geri það að verkum að Ísland muni engar varnir hafa þegar einhver kærir út af smásölunni --- ég segi ekki ef --- þegar einhver kærir út af smásölunni.