Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

21. fundur
Þriðjudaginn 13. júní 1995, kl. 18:11:03 (796)

[18:11]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Mér hefur nú gefist kostur á að sitja hér á aðra viku og hlýða á margar og langar umræður um það mál sem hér er til umræðu, sem er verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf, með síðari breytingum, eins og þar segir. Hvaðan formanni mínum hv. og þm. Ólafi Ragnari Grímssyni kemur það að ég sé ósammála honum um áfengismál eða tóbaksmál og aðgerðir í þeim efnum veit ég ekki. Við erum sammála í einu og öllu í þeim efnum.
    Margt ágætt hefur vissulega verið sagt hér um þau mál en ég verð að segja alveg eins og er, hæstv. forseti, að ég hef aldrei hlýtt á sérkennilegri umræðu en hér hefur farið fram þessa dagana. Vegna þess að allar þessar ræður eru utan við umræðuefnið. Þær hefðu átt að fara fram áður en samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið var samþykktur. Það sem er kannski enn þá sérkennilegra er að nú drífa hér inn frá hinni nýju ríkisstjórn mál eftir mál sem koma Íslendingum í opna skjöldu og nægir að nefna mál sem hér bar að ekki alls fyrir löngu um að banna börnum að vinna sem er jafnfráleitt íslenskri þjóðarsál og hugsast getur. Það sem er kannski sérkennilegt er að það má ekki á milli sjá hvort er ruglaðra þjóðin eða þingið. Þeir tveir stjórnmálaflokkar sem unnu stórsigur í síðustu kosningum höfðu unnið sér það til ágætis, annar að samþykkja Evrópska efnahagssvæðið, hinn að vera á móti því. Síðan gengu þessir ágætu stjórnmálaflokkar í eina sæng og Sjálfstfl. verður nú að draga Framsfl. með sér í að berja hér í gegn mál sem flokkurinn var á móti þegar samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið var á dagskrá. Þeir eru ekki öfundsverðir framsóknarmenn, það verð ég að segja.
    Ég veit ekki hvað hefur komið því inn í höfuðið á Íslendingum að þeir geti jafnan tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi, undirritað og staðfest samninga um alla skapaða hluti milli himins og jarðar og halda svo að þeir geti svo farið sínu fram eins og þeir helst vilja án þess að taka tillit til þess samnings sem þeir voru að undirrita. Ég vil minna á hvalveiðibannið góða forðum sem, sem betur fer, hæstv. núv. menntmrh. hefur tekið að sér í minn stað eftir að þjóðin hafði tekið það mjög illa upp að ég gagnrýndi framgöngu manna í því máli. Þar var undirritaður samningur og staðfestur en síðan þverbrotinn um leið og Íslendingum sýndist svo. Það sama halda menn að þeir komist nú upp með varðandi Evrópska efnahagssvæðið og samninginn um það.
    Það hefur komið hér fram og menn hafa saknað ákaflega hv. 5. þm. Norðurl. v., Vilhjálms Egilssonar, að það fáránlega í þessu máli er að það var akkúrat hann sem ýtti þessu máli af stað og kom því í raun og veru af stað núna. Ég er ekkert viss um að það hefði verið til umræðu á þessu þingi nema af því að hann, í krafti embættis síns sem framkvæmdastjóri Verslunarráðs, kærði Íslendinga fyrir að ætla að fara sínu fram í þessum málum. Nú veit ég ekki betur en að hann og hv. þm. Svavar Gestsson, 8. þm. Reykv., séu í Bergen eða hafi verið þar fyrir nokkrum dögum einmitt á EFTA-fundi. Og ég vil spyrja hæstv. fjmrh.: Voru þeir ekki beðnir um að taka þessi mál upp þar og biðja Íslendingum vægðar í þessum málum? Hvað voru þeir að gera þar?
    Ég sakna ekkert hv. þm. 3. þm. Norðurl. e., Valgerðar Sverrisdóttur, vegna þess að hún var ein af fáum framsóknarmönnum sem hleypti samningnum í gegn með hjásetu sinni, ef ég man rétt.
    Þessi umræða öll er allt of seint fram komin svo ágæt sem hún er. Ég verð að segja alveg eins og er þegar menn bjóða manni upp á að svo eigi að stofna einhvern forvarnasjóð og það er verið að þvæla vesalings hæstv. heilbrrh. inn í þetta mál að ósekju. Þetta mál snýst ekkert um velferð Íslendinga. Þetta snýst um samkeppni og viðskipti, þetta snýst um bissness, eins og allur samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið snýst um. Hann er enginn góðgerðastarfsemi, hann er ekkert til þess að bera fyrir brjósti hag Íslendinga né annarra þjóða. Hann snýst um fjármagn. Þetta er alveg undarleg umræða, ég verð að segja það alveg eins og er.
    Auðvitað get ég svo sem fallist á það og skal ekkert hafa á móti því að við þumbumst hér eitthvað fram eftir sumri í þessu máli þannig að þetta fari fyrir dómstól í Brussel en ég get hins vegar sagt ykkur alveg strax að við töpum því máli að sjálfsögðu. Það vill nefnilega svo til, hæstv. forseti, að ég átti sæti í EFTA-nefndinni á síðasta kjörtímabili og EES-nefndinni og ég man aldrei eftir því, hæstv. forseti, að það kæmi nokkurn tímann fram, ekki á þeim fundum sem ég sat og þóttist ég fylgjast allvel með, að einhverjar sérþarfir yrðu virtar á Íslandi varðandi sölu á áfengi, ég hef aldrei heyrt það. Og hafi hæstv. fjmrh. og hæstv. fyrrv. utanrrh. sagt þinginu það, sem mig minnir að þeir hafi gert, þá voru þeir ósköp einfaldlega að segja ósatt.
    Það er það sem menn eiga að ræða hér. Voru þeir að segja ósatt? Þess í stað eru menn farnir að hanga í símanum og tala við landlækni. Ég veit ekki hvernig í ósköpunum hann kemur inn í þetta mál. Stefna manna í heilbrigðismálum er allt annað mál og þessu öldungis óviðkomandi. Það er engin efi í neins

manns hjarta hér inni að það ber að uppfræða börn og unglinga um hættuna af ofnotkun áfengis og hættuna af þeim ósið að nota tóbak. Það er skylda foreldra og kennara, það á ekki að stofna neinn sjóð til þess. Það er bara skylda kennara að fella það inn í öll samskipti við börn og unglinga að vara þau við slíku.
    Ég held jafnframt að það séu ekki allar syndir guði að kenna, eins og einhvern tímann var sagt. Kannski gætum við spurt okkur hér: Er kerfið sem við höfum, sem ég vil gjarnan hafa áfram --- en ef ég væri spurð --- finnst þér það svona gott? Þá mundu nú koma á mig vöflur. Ég sé ekki að stýringin á neyslu áfengis í landinu sé til fyrirmyndar og ég held að eftirlitið með blessuðum unglingunum sé ekki til þess að hrópa húrra fyrir. Hitt er annað mál að ég er ekki í nokkrum vafa um að slæmt er það fyrir en verra yrði það þegar þessi ósköp yrðu að lögum.
    Hitt er svo annað mál að menn eru óskaplega tilbúnir til að einfalda hluti. Það skyldi nú aldrei vera að það væru fleiri þættir sem orsökuðu ofdrykkju og hvers kyns óhamingju. Það skyldi nú aldrei vera að atvinnuleysi þúsunda manna í landinu, fátækt þúsunda manna og hvers kyns erfiðleikar væru eins mikill valdur að áfengisdrykkju og það hvað auðvelt er að ná í það. Ég held að manneskja sem er í sæmilegu jafnvægi geti yfirleitt notað áfengi af einhverju skynsamlegu viti og alveg eins held ég að barn sem er sæmilega hamingjusamt og á gott heimili geti forðast að fara allt of snemma að neyta áfengis, löngu áður en barnið ræður nokkuð við það. Þannig að ég held að það geti verið allflókið mál.
    En hv. 8. þm. Reykn., ég verð að skjóta því að, lýsti því fjálglega áðan hvað Bandaríkjamenn væru komnir langt í að banna alla skapaða hluti og m.a. tóbaksnotkun og tók sem dæmi að á allri Manhattan væri bannað að reykja og í helstu höfuðstöðvum fjármálanna. Hefur hv. þm. séð verðbréfamarkaðinn í Wall Street? Hafi ég nokkurn tímann séð samkomu sem minnti mig ekki á neitt nema geðveikrahæli þá er það nákvæmlega verðbréfaþingið í Wall Steet. Ég ætla að vona til guðs að það sé ekki af því að þeir séu hættir að reykja að þeir láta eins og þeir láta þar. ( ÓRG: Þeir reyktu enn þá þegar þingmaðurinn heimsótti þá.) Nei, það er ekki rétt. ( Gripið fram í: En hættu snarlega eftir það.)
    En grínlaust. Það sem ég hef við alla þessa umræðu að athuga er sem sagt þetta: Þetta mál er bara eitt af mörgum og við eigum eftir að fá þau fleiri þar sem samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði hentar ekki á nokkurn hátt fyrir þetta þjóðfélag sem við erum að reyna að stjórna. Og það sem verra er, verði þessum samningi ekki sagt upp þá ráðum við minna og minna yfir okkur sjálfum og þetta veit hvert mannsbarn hér inni. Þess vegna verð ég að segja það að mér finnst það að fara undan í flæmingi að eyða hér tíma í að vera svo að þvæla um alls kyns hluti sem koma þessu máli raunverulega ekkert við, ekki nokkurn skapaðan hlut. Allra síst hefur ESA minnsta áhuga á heilbrigðismálum Íslendinga ef þið haldið það, hæstv. forseti, og bið ég afsökunar á að ég ávarpaði ekki forseta.
    Ég held þess vegna að þetta verði afskaplega ótrúverðug umræða. Menn eru farnir að tala hér um stjórn Áfengisverslunar ríkisins. Hún er allt annað mál. Við getum rætt um hvernig á að stýra þeirri stofnun en hún kemur þessu máli ekki nokkurn skapaðan hlut við. Ég held að við séum einfaldlega komin að því að gera upp við okkur: Ætlum við að vera áfram aðilar að Evrópsku efnahagssvæði? Ég býst við að hv. framsóknarmenn séu nú orðnir ákveðnir í því og við höfum séð sorglega tilburði hæstv. félmrh. til að tala fyrir málum hins Evrópska efnahagssvæðis sem bara hefur orðið þannig að það var ekki þurrt auga í salnum. En þessi mál munu streyma hér yfir okkur. Frá þessari sérkennilegu ríkisstjórn þar sem helmingurinn af henni er með samningnum og hinn á móti en báðir verða að tala fyrir málunum. Og hvernig á nú vesalings íslenska þjóðin að botna í svona fólki? Ímyndar sér einhver að Íslendingar hætti að láta börnin sín upp að 15 ára aldri hafa eitthvað fyrir stafni? Ég held að það detti bara ekki nokkrum lifandi manni í hug, hvað sem yrði samþykkt hér á hinu háa Alþingi. Og þannig munu mál ganga á þessu kjörtímabili.
    Ég bið menn þess vegna að vera ekki að blanda landlækni og hæstv. heilbrrh. og alls kyns samtökum eins og Vímulausri æsku og alls kyns góðum samtökum sem eru að koma í veg fyrir ofnotkun áfengis og vímuefna í þetta mál. Þau koma þessu máli nákvæmlega ekkert við. Ég hlaut, hæstv. forseti, að taka mér það bessaleyfi að segja þetta um leið og ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvar maðurinn er staddur nú, hv. 5. þm. Norðurl. v., fyrrverandi formaður minn í EFTA-nefndinni og núv. hv. formaður efh.- og viðskn., sem kærði málið svo að þetta yrði keyrt í gegnum þingið vegna þess að honum finnst ekki að við eigum að hafa það sölukerfi sem við höfum nú? Hvað var honum falið að gera í þessu máli? Ég býst við að hæstv. fjmrh. hafi beðið hann um að sjá svo til að við fengjum að hafa þetta alveg eins og okkur sýnist þar sem hér sé ekki nokkur friður með þetta. Ég vil gjarnan vita hvaða niðurstöðu þeir hafa komist að þar úti.
    Að öðru leyti er ég sammála hverju orði sem hefur verið sagt í þessum umræðum. En ég verð að segja það alveg eins og er að það þreytir mig þegar menn vita ekki lengur um hvað þeir eru að tala. Þetta er spurningin um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Við greiddum atkvæði gegn honum, við vildum hann ekki og við viljum hann ekki enn. Hann kemur aldrei til með að valda okkur öðru en vandræðum. Þeir sem vilja halda honum verða að gera svo vel og sætta sig við að Evrópusambandið skipar okkur fyrir verkum hvernig við eigum að haga okkar málum. Svo einfalt er þetta. Og hafi ekki hv. þm. Framsfl. minnst á þetta á þingflokksfundum undanfarið þá held ég að þeir ættu að setjast niður og gera upp við sig hvernig þeir ætla að standa að öllu því málaflóði sem yfir okkur á eftir að dynja.