Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

21. fundur
Þriðjudaginn 13. júní 1995, kl. 18:28:26 (798)


[18:28]
     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er alveg rétt hjá hv. 8. þm. Reykn. að íslensk stjórnvöld gerðu fyrirvara. Ég minnist ekki að undir þann fyrirvara væri tekið af stjórnvöldum í Evrópusambandinu. Og það er ein blekkingin sem hæstv. fyrrv. og núv. ráðherrar hafa gengið með að þeirra yfirlýsingar skiptu einhverju máli. Auðvitað gerðu þær það ekki neitt nema undir þær væri tekið. Og ég minnist ekki að undir þetta hafi nokkurs staðar verið tekið. Ég held að menn haldi stundum að þeir skipti meira máli en þeir gera. Við urðum nú illilega vör við það stundum þegar við komum suður til Genfar eða suður til Brussel og menn höfðu nýverið verið heima með yfirlýsingar um alla skapaða hluti, að það hafði ekki nokkur lifandi maður hlustað á þetta þar suður frá.