Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

21. fundur
Þriðjudaginn 13. júní 1995, kl. 18:29:29 (799)


[18:29]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það var eðli samningaferilsins um EES að báðir samningsaðilar, Evrópusambandið og EFTA-ríkin, gátu lýst viðhorfum sínum og væri þeim ekki mótmælt af gagnaðilanum höfðu yfirlýsingarnar gildi. Yfirlýsingu Íslands um fyrirvarann varðandi verslun með áfengi út frá heilbrigðis- og félagssjónarmiðum var ekki mótmælt af hálfu Evrópusambandsins. Þess vegna fór fyrirvarinn inn í textann, þess vegna er hann hluti af EES-samningaferlinu og þess vegna birtist hann þjóðþinginu með þeim hætti sem hann gerði á sínum tíma. Það er almenn regla í gerð alþjóðlegra samninga að yfirlýsingum sem ekki er mótmælt ber að halda til haga og gefa meira gildi en sjónarmiðum sem er mótmælt.
    Hv. þm. getur staðið hér og fullyrt út frá innsýn sinni í EFTA og störfum í Genf og Brussel o.s.frv. að ekkert mark sé takandi á þessu eða hinu o.s.frv. Hvorki hv. þm. né ég getum fullyrt um það hvað er rétt eða rangt í þeim efnum út frá EES-samningnum. Það var settur upp úrskurðaraðili, dómstóll, innan EES-samningsins til þess að kveða upp úr með deilur af þessu tagi. Og það er það sem við höfum mörg sagt á þinginu að í þessu máli vegna eðlis þess, vegna sögunnar, vegna yfirlýsingar Íslands sem liggur fyrir formlega og ekki var mótmælt, þá eigi að láta á það reyna formlega innan EES-samningsins hvaða gildi slíkt hefur. Þeir sem ekki eru að gera það eða hafa þá skoðun eins og hv. þm. eða hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, eru í reynd, eins og ég var að lýsa hér í fyrri ræðu minni, að varða veginn í það að eftirlitsstofnunin geti knúið til breytinga á smásöluversluninni með áfengi á Íslandi.