Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

21. fundur
Þriðjudaginn 13. júní 1995, kl. 18:34:00 (801)


[18:34]
     Ögmundur Jónasson :
    Hæstv. forseti. Ég tek undir það sjónarmið hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur að samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði er fyrst og síðast samningur um markaðsvæðingu. Ég tek undir það sjónarmið. Ég tek undir það að þjóðin hafi að ýmsu leyti verið blekkt í umræðunni um hið Evrópska efnahagssvæði. Og ég tek undir að hér eru að koma á færibandi tilskipanir um aðlögun á þessum forsendum. Hins vegar er um það deilt hvort samningurinn, þessi markaðssáttmáli Evrópu hinn nýi, taki til þátta á borð við þá sem hér eru til umræðu. Og ég hefði kosið að menn reyndu að ræða það efnislega en flengja sér ekki út í alhæfingarumræðu af þessu tagi. Þannig hef ég sett fram tillögu í upphafi umræðunnar og síðan ítrekað aftur í dag að hægt sé að gera lítils háttar lagabreytingar til þess að taka af öll tvímæli gagnvart EES fyrir þá sem telja að þessir hlutir orki tvímælis. Og ég hefði kosið að þeir þingmenn sem ætla á annað borð í þessa umræðu taki efnislega á henni og ræði hvort umrædd tillaga að lagabreytingu kæmi til með að standast EES-samningana að þessu leyti.
    Hitt verð ég að segja að umræðan var kynnt í upphafi á þá lund að annars vegar þyrfti að hafa hliðsjón af því sem gerðist í Evrópu en einnig sagði hæstv. fjmrh. þegar hann talaði fyrir þessum lagabreytingum að það væri stefna íslenskra stjórnvalda, alveg burt séð frá þessum málum, að það væri hagkvæmt fyrir íslenska ríkið að breyta viðskiptaháttunum eins og hér er lagt til. Þetta sagði hæstv. fjmrh. í umræðunni þegar hún var upphaflega kynnt. En ég leyfi mér að auglýsa eftir efnislegri umræðu um hinn lagalega þátt. Að menn reyni að fara að komast út úr þessari alhæfingarullu og fari í efnislega umræðu.
    Hér hefur margt fléttast inn í þessi mál. Menn hafa verið að gera að umræðuefni einkavæðingarprógrömm ríkisstjórnarinnar fyrr og nú. Það er athyglisvert að ekki skuli koma nein viðbrögð og ég vil bara vekja athygli á því af því að við erum að tala um ÁTVR að breytingar sem voru gerðar fyrir nokkrum missirum, salan á framleiðsludeildinni, hafa skilað minna í sölu en nemur fjárhagslegum ávinningi fyrir ÁTVR á einu ári. Mér finnst þetta umhugsunarefni. Og mér finnst umhugsunarefni þegar farið er yfir sögu þessara einkavæðingarmála á liðnum missirum: Íslensk endurtrygging, SR-mjöl, Lyfjaverslunin og svo mætti áfram telja; um hvað er hér eiginlega á ferðinni og hvað iðulega hefur skort á umræðuna í þjóðfélaginu almennt þannig að menn gerðu sér grein fyrir því hvað er að gerast. Hv. þm. Guðrún Helgadóttir sagði að menn ættu ekki að blanda almannasamtökum í þessa umræðu. Þessi samtök hafa blandað sér í þessa umræðu. Þau hafa verið að koma saman til funda, hafa verið að álykta um þessi mál, hafa boðað til fréttamannafunda og skýrt sín sjónarmið og hið sama gildir um landlæknisembættið og aðra sem láta heilbrigðisþættina til sín taka. Með öðrum orðum auglýsi ég eftir efnislegum rökum.
    Ég innti hæstv. fjmrh. eftir því áðan hvernig hann skýrði það að eftirliti yrði betur fyrir komið eftir þessar lagabreytingar en fyrir þær. Eitt af því sem hann nefndi áðan var að eins og málum væri nú fyrir komið þá væru ekki allar flöskur merktar. Hann nefndi Fríhöfnina í því sambandi sérstaklega og einhverjar sérpantanir en vísaði sérstaklega til Fríhafnarinnar, ef ég tók rétt eftir. Ég spyr: Þegar við erum að tala um eftirlit almennt með áfengisverslun í landinu er í alvöru verið að færa það á borð hér að kaup farþega í Fríhöfninni í Keflavík sé orðin röksemd í umræðu um hvernig eftirliti sé háttað, það sé tekið sem dæmi um að ekki allar áfengisflöskur séu merktar?
    Ég verð að játa það að ég varð svo kjaftstopp yfir þessu að ég átti erfitt með að ná áttum í þessu, svo að ég noti svona orðbragð. En ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. fjmrh.: Var hann að vísa til Fríhafnarinnar í Keflavík sérstaklega og þess sem farþegarnir sem fara þar í gegn kaupa?
    Ég var að fullyrða áðan að almennt væri það ríkjandi í verslun með áfengi að varan væri merkt, það væri hið viðtekna, og ég var að færa rök fyrir því að það væri auðveldara að sinna þessum merkingum þegar það væri einn aðili sem annaðist þær og hefði yfirsýn yfir þessa hluti og þetta væri á einni hendi. Ég auglýsi sem sagt eftir nánari upplýsingum um þetta og ítreka að eins og málum er fyrir komið núna þá er mjög auðvelt að verða við þeim ábendingum sem koma frá víneftirlitsmönnum sem um þessi mál fjalla. Það er mjög auðvelt að svara þeim kröfum sem þeir gera til þess að þetta eftirlit verði bætt.
    Í annan stað talaði hæstv. fjmrh. um það að annars vegar væri um heildsöluálagningu að ræða og

hins vegar smásöluverslun. Ég ræddi hins vegar um það að skilin á milli smásöluverslunar og heildsöluverslunar gætu orðið ógleggri. Þannig verður það svo að veitingahúsin munu fá vöruna, áfengið, á lægra verði en útsöluverðið verður í smásölunni. Þess vegna langaði mig að biðja hæstv. fjmrh. um að skýra betur út fyrir okkur hvernig þessi þáttur verður til þess að auðvelda eftirlit og á hvern hátt. Og mig langar sérstaklega til að óska eftir svari við því hvað er það nákvæmlega í núverandi fyrirkomulagi sem verður auðveldara. Hvað er það sem ekki er hægt að gera núna en verður hægt að gera þá? Það er þetta sérstaklega sem ég vil fá að vita. Hvað er það sem verður auðveldara eftir þessa breytingu?
    Síðan ræddi hæstv. fjmrh. um tengsl. Hann kvartaði yfir því að starfsmenn ÁTVR sökuðu sig um hlutdrægni, ef ég man rétt, ég ætla að fara varlega í þessar yfirlýsingar þ.e. að hann skipaði menn í nefndir sem væru þeim andsnúnar, ef ég skildi þetta rétt, og var þá verið að tala um tilvonandi yfirstjórn ÁTVR. Ég vil leyfa mér að segja það að iðulega þegar ríkisstjórnin og þar með hæstv. fjmrh. eiga að skipa nefndir sem eiga að gera tillögur um breytt rekstrarfyrirkomulag, einkavæðingu, þá eru þær nefndir iðulega skipaðar aðilum sem annars vegar hafa hagsmuna að gæta eða eru mjög hlutdrægar. Og mig langar til að spyrja hæstv. fjmrh. í því sambandi t.d. hvort það sé ekki rétt mat hjá mér að við breytingu á innflutningsversluninni, og þá er ég ekki síst að hugsa um þær hugmyndir sem voru uppi á árinu 1991 og 1992 um breytingar á fyrirkomulagi verslunar með tóbak, hvort það er ekki réttur skilningur hjá mér að sá aðili sem hefði hagnast mest á þessu hefði verið Tollvörugeymslan. Og mig langar til að biðja hann um að upplýsa hver hafi verið stjórnarformaður á þessum tíma þegar hann skipaði nefnd til að fjalla um þessi mál og upplýsa hverjir voru í umræddri nefnd sem gerði tillögur um breytingar á þessu fyrirkomulagi með verslun á tóbaki.
    Ég nefni þetta sem dæmi og ég get nefnt fjölmörg önnur dæmi þar sem hafa verið settar á fót nefndir. Mér kemur í hug t.d. einkavæðingarnefndin sem hefur verið skipuð aðallega einstaklingum sem eru mjög eindregið á þeirri pólitísku skoðun, þó að þeir eigi ekki neinna persónulegra hagsmuna að gæta, að það eigi að einkavæða, þeir hafa starfað á slíkum grundvelli. Annar kostur hefði verið að fá óhlutdrægar nefndir til þess að gera úttekt á því hvar heppilegt væri að gera tillögur um breytingar á rekstrarfyrirkomulagi opinberra stofnana. Það er háttur sem er miklu eðlilegri að hafa á.
    Mér er minnisstætt í þessu samhengi, og þarf þetta náttúrlega ekki að koma neinum á óvart, að þegar einkavæðingarveiran herjaði sem mest á ríkisstjórnina á sínum tíma þá man ég eftir því að hæstv. forsrh. birtist einhverju sinni í fjölmiðlum og var spurður um einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar. Hann sagði þá að það væri ráðgert að einkavæða fyrir milljarð á árinu. Síðan spurði fréttamaður hvað það væri sem fyrirhugað væri að einkavæða. Ákvörðun hafði ekki verið tekin um það enn þá.
    Ég nefni þetta sem dæmi um pólitíska stefnu sem er gersneydd að mínu mati einhverju vitrænu inntaki og það er þetta sem átt er við þegar menn eru að segja að það sé iðulega skipað í nefndir á vegum stjórnvalda sem hafi fyrir fram gefnar lausnir skrifaðar á ennið á sér, en séu ekki að kanna eitt eða neitt. Og svo einnig hitt að það séu dæmi þess að í nefndir sem séu að gera úttekt á hlutum séu aðilar sem eigi beinna pólitískra hagsmuna að gæta.
    Þetta eru atriði sem mig langar til að fá hæstv. fjmrh. til að ræða nánar. Það er á hvern hátt það verði auðveldara að koma við þessu eftirliti sem ég hef vikið að. Ég óska eftir því að hann skýri þetta nánar.