Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

21. fundur
Þriðjudaginn 13. júní 1995, kl. 18:48:55 (802)


[18:48]
     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Einungis örfá orð til þess að fyrirbyggja misskilning. Ég er jafnmikið á móti þessu frv. og hv. 17. þm. Reykv. og það veit hann vel sjálfur. Ég skil líka mjög vel áhyggjur almannasamtaka eins og samtakanna Vímulaus æska, ég skil áhyggjur landlæknis og heilbrigðisyfirvalda. Það er ekki málið og það er alveg rétt að vissulega komu þau og lýstu þessum áhyggjum sínum. Vandamálið er bara það að Evrópusambandið hefur engan áhuga á þessu fólki. Það vill selja sem allra mest áfengi og sem allra mest tóbak hvarvetna innan samningssvæðisins og gefur ekkert fyrir áhyggjur manna af afleiðingunum. Um það snýst þetta mál. Þetta er ekki spurning um, eins og ég hef áður sagt, velferð samningsþjóðanna, heldur er þetta spurning um fjármagn, vöru og þjónustu.
    Ég vil bara að það komi fram að ég skil vel áhyggjur þessara samtaka. En ég held að þau geti afar lítið gert nema kannski ef vera skyldi að það góða fólk hefði átt að gera sér ljóst fyrir kosningar hvað þessi samningur fæli í sér og taka afstöðu til stjórnmálaflokka eftir því. Það er of seint að iðrast eftir dauðann.