Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

21. fundur
Þriðjudaginn 13. júní 1995, kl. 18:57:48 (807)


[18:57]
     Ögmundur Jónasson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég hlýt að taka trúanlegar þær yfirlýsingar sem hér koma fram frá hæstv. fjmrh. um að sérpantanir til veitingahúsa séu ekki merktar ( Fjmrh.: ÁTVR.) séu ekki merktar ÁTVR. Þetta eru upplýsingar sem hér eru að koma fram. Í annan stað segir hann að þetta hafi færst mjög í vöxt. Þetta eru fullyrðingar hæstv. fjmrh. á þinginu. Það er alveg rétt, það getur hver sem er kannað það líka og það verður að sjálfsögðu gert, en ég sé ekki ástæðu á þessu stigi að draga í efa að þarna sé farið rétt með. En hitt finnst mér óviðurkvæmilegt að blanda í sífellu embættismönnum ríkisins, sem eru beðnir um að setjast í tilteknar nefndir, í nefndir sem hafa mjög umdeilanlegt pólitískt hlutverk. Ég var að benda á áðan að það væru skipaðar nefndir til þess að gera tillögur um einkavæðingu, sölu á fyrirtækjum og formbreytingar sem væru skipaðar mjög einsleitum hópi pólitískt, menn sem ættu sér þá hugsjón heitasta að einkavæða sem mest. Síðan nefndi ég tiltekna starfsnefnd þar sem mætti færa rök að því að það væri hætta á alvarlegum hagsmunaárekstrum. Þessu hefur hæstv. fjmrh. ekki svarað. En hæstv. fjmrh. segir hins vegar að hann sé sífellt að endurtaka einhverjar upplýsingar. Það er ekki svo. Það er verið að reyna að draga fram upplýsingar og það er verið að þröngva mönnum út í rökræður um efnisþætti þessa máls.