Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

22. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 13:39:55 (819)


[13:39]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Hæstv. forseti. Við meðferð EES-samningsins á hinu háa Alþingi var því haldið fram að enga breytingu þyrfti að gera á sölu og dreifingu áfengis hér á landi. Annað hefur komið á daginn eins og það frv. sem er til meðferðar ber með sér. Við kvennalistakonur teljum að réttara hefði verið að láta þetta mál bíða og að fá dóm eftirlitsstofnunar EFTA og dómstólsins þannig að ljóst sé hvernig haga má áfengismálum hér á landi samkvæmt reglugerðum Evrópusambandsins sem við verðum að beygja okkur undir. Við lítum svo á að hér sé verið að stíga fyrsta skrefið í breytingum sem sér ekki fyrir endann á. Við teljum að rétt sé að vísa þessu máli til ríkisstjórnarinnar til frekari meðferðar. Verði sú tillaga felld treystum við okkur ekki til þess að styðja málið en munum þó styðja einstakar breytingartillögur sem eru til bóta.