Alþjóðaviðskiptastofnunin

22. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 14:00:56 (824)

[14:00]
     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir brtt. frá efh.- og viðskn. um frv. til laga um breytingu á lögum vegna aðildar Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni á þskj. 90.
    1. Við 6. gr. Í stað orðsins ,,sönnun þess`` í 1. málsl. 3. efnismgr. komi: fullnægjandi gögn þess efnis.
    2. Við 9. gr. 2. efnismgr. verði 2. og 3. málsl. 1. efnismgr.
    3. Við 19. gr. 4. málsl. 3. efnismgr. orðist svo: Berist umsóknir um meiri innflutning en sem nemur tollkvóta vörunnar skal heimilt að láta hlutkesti ráða úthlutun eða leita tilboða í heimildir til innflutnings samkvæmt tollkvótum og skal andvirðið þá renna í ríkissjóð.
    Í greinargerð með þessari brtt. segir, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Þar sem efasemdir eru um að lækkað verð vegna lægri tolltaxta skili sér til neytenda þykir nefndinni rétt að ráðherra eigi kost á að leita tilboða í heimildir til innflutnings samkvæmt tollkvótum. Jafnframt eru hér lagðar til tvær tæknilegar breytingar á frumvarpinu sem á engan hátt snerta efni þess.``