Alþjóðaviðskiptastofnunin

22. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 15:16:29 (835)


[15:16]
     Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Það er af sem áður var þegar fyrrv. stjórnarflokkar deildu hvað mest um landbúnaðarmál, verndarstefnu og leiðir út úr henni. Þá var það gjarnan viðkvæði hæstv. forsrh. að hann sagði að hann vissi yfirleitt ekkert um hvað málin snerust, skildi ekkert í því um hvað þau snerust. Nú hefur hann greinilega, að eigin áliti öðlast á því dýpri skilning, en kjarni málsins er þessi: Voru vaktar upp falskar væntingar í kosningabaráttunni af einhverjum eins og hæstv. forsrh. vildi gefa í skyn en þorði ekki að fullyrða? Nei, það var ekki.
    Kjarni málsins er hins vegar þessi: Í þeirri nefnd sem hafði málið til úrvinnslu og var undir pólitískri forustu hæstv. forsrh. voru lagðar fram þrjár tillögur. Tillaga Alþfl. var, og ég er þá að tala um megintollana, ekki um lágmarksmarkaðsaðganginn, tillaga Alþfl. var sú að tryggja jöfnun innflutningsverðs og innlends heildsöluverðs og síðan bæta fjarlægðarverndinni við. Embættismenn undir forustu hæstv. fjmrh. höfðu lagt fram tillögur um að leggja á þar til viðbótar álag, 20% seinast þegar ég vissi. Tillaga hæstv. landbrh. og embættismanna hans var sú að lögbinda tollabindingarnar. Þetta var það sem var til umfjöllunar. Hver varð svo niðurstaðan? Niðurstaðan varð síðan sú að ofurtollar eru í þessu frv. því að skilgreiningin á þeim er: Tollar sem koma í veg fyrir innflutning og viðskipti. Og ef hæstv. forsrh. vill rengja mitt mat á því, þá ráðlegg ég honum að spyrja alla þá sem komu fyrir efh.- og viðskn., svo sem eins og forstöðumenn Hagkaupa, forstöðumenn Bónus eða forstöðumenn Íslenskrar verslunar eða samtaka íslensks iðnaðar eða Sambands veitinga- og gistihúsa svo að ég nefni bara nokkur dæmi, sem sögðu: Þessir tollar eru til þess gerðir og til þess fallnir að útiloka viðskipti. Þetta eru ofurtollar.
    Þetta var það sem gerðist. Og í kosningabaráttunni var frá því skýrt að hæstv. landbrh. hefði uppi slík áform og hann sór fyrir það. Hann sór fyrir það í kosningabaráttunni þegar verið var að reyna að skírskota til fylgis frjálslynds og umbótasinnaðs fólks.