Alþjóðaviðskiptastofnunin

22. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 15:18:45 (836)


[15:18]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Vegna þess að hv. þm. nefndi það að ég hefði einhvers staðar sagt að ég botnaði ekkert í þessum málum sem uppi væru, þá er það alveg rétt að ég sagði það nokkrum sinnum held ég prívat við hv. þm. En það var þó aðallega það að ég botnaði ekki nákvæmlega í málatilbúnaði hv. þm. stundum í landbúnaðarmálum. Ég hitti reyndar ekki mjög marga, m.a. þingmenn í hans flokki, sem út af fyrir sig gerðu það. Það var vandamál sem ég hafði ekki verulegar áhyggjur af.
    En ég vakti hins vegar athygli á öðru atriði og spurðist fyrir um hvað hv. þm. hefði átt við þegar hann sagði að vinstri stjórn hefði verið borðleggjandi og hélt því fram á fundi með hæstv. núv. utanrrh. að vinstri stjórn hefði verið borðleggjandi á einu augabragði. Var hann búinn að semja um það að GATT, sem átti að afgreiða fyrir 1. júlí, skyldi vera í þeim farvegi sem hv. þm. talar um nú eða hafði hann ákveðið sjálfur að laga sig að þeim sjónarmiðum sem eru efst á blaði í þinginu? Það vantaði dálítið upp á að hv. þm. gerði grein fyrir þessu.