Alþjóðaviðskiptastofnunin

22. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 15:21:21 (838)


[15:21]
     Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki mjög lengja þessar umræður, sem væntanlega eru komnar á endasprettinn, um þetta mikilvæga mál sem hefur til umræðu í þinginu oftsinnis, ekki bara um þetta frv. sem hér er nú til umræðu heldur einnig áður þegar verið var að fjalla um samþykkt þingsins á aðild að Alþjóðaviðskiptastofnuninni.
    Ég vildi fyrst og fremst lýsa stuðningi mínum við þá brtt. sem borin er fram af hv. efh.- og viðskn. og svara einni spurningu sem til mín var beint í umræðum áðan af hv. 11. þm. Reykn.
    En fyrst aðeins örfá orð um þessa brtt. sem felur í sér valkosti, heimildir til ráðherra að láta annaðhvort hlutkesti ráða úthlutun eða leita tilboða í heimildir til innflutnings. Það mun vera svo að það eru uppi einhver ágreiningsefni um framkvæmd þessara mála milli þjóða og á nýlegum fundi í landbúnaðarnefnd Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar mun hafa komið fram að það þyrfti að liggja skýrt fyrir áður en til framkvæmda kæmi hvaða aðferð yrði viðhöfð við úthlutun innflutningsheimildanna þannig að öllum vafa um framkvæmd málsins væri eytt og þá gilti það. Þannig er nokkuð ljóst að það er eitt af því sem þarf að ákveða nú á þeim skamma tíma sem þó er eftir til undirbúnings gildistökunnar um næstu mánaðamót

og er vissulega rétt hjá hv. 4. þm. Norðurl. e., Steingrími J. Sigfússyni, að undirbúningstíminn er orðinn naumur og þarf að vinna skjótt að málum á næstu dögum.
    Hann sagði líka, sá hv. þm., að fyrri stjórn hefði ekki komið sér saman um málin. Þess vegna hefðu þau dregist úr hömlu. Hann sagði einnig að ný stjórn hefði gaufast með málið og hvað sem segja má um ummæli hans um vinnubrögð hæstv. fyrrv. ríkisstjórnar vil ég leyfa mér að halda því fram að það hafi verið unnið að þessu máli af fullum krafti þó að það sé því miður komið að framkvæmdinni þegar lögin verða loksins samþykkt sem ég vona að verði nú innan stundar. Þá er það ekki vegna þess að ekki hafi verið haldið áfram á fullu að vinna að málinu eftir að núv. hæstv. ríkisstjórn var mynduð. Allur sá tími hefur verið nýttur vel og auðvitað fór mest vinnan í þeim undirbúningi í að embættismannanefnd fimm ráðuneyta sem vann að málinu kæmi sér saman um það.
    Þá langar mig aðeins að grípa ofan í það sem hv. 9. þm. Reykv. hefur sagt um vinnubrögðin og um það hvernig hafi verið staðið að undirbúningi þessa máls, m.a. að frv. hafi verið samið af hagsmunaaðilum annars aðilans og hinn aðilinn lítt eða ekki komið að málinu. Ég vísa þessu frá. Það hefur verið um málið gott samstarf allra ráðuneyta sem að þessu hafa komið. ( JBH: Ég var ekki að tala um ráðuneytin.) Þeir sem mest hafa unnið að undirbúningi málsins var þó þessi embættismannanefnd sem starfaði í tíð hæstv. fyrri ríkisstjórnar og hélt áfram að starfa að málinu í tíð núv. hæstv. ríkisstjórnar og hv. 9. þm. Reykv., þáv. hæstv. utanrrh., vitnaði einmitt til þeirra nefndarstarfa í ummælum sínum á Alþingi 29. nóv. 1994, sem þegar hefur verið vitnað til áður í umræðum af hv. 4. þm. Norðurl. e. og þarf kannski ekki að rekja meira eða frekar. En þó má reyndar ítreka að þá hafði hv. þm., hæstv. þáv. utanrrh., þá skoðun að sú leið sem frv. gerði ráð fyrir eins og það liggur hér fyrir væri eina leiðin sem menn hefðu bent á sem ekki mundi bitna á neytendum. Það var hans afstaða og skoðun þá. Nú geta menn auðvitað skipt um skoðun og það geta komið upp aðrar forsendur og er ekkert við því að segja, ekki hægt að sakast um það. En allan tímann hefur þetta verið unnið í þessum sama farvegi, hv. þm., og það er ekki, eins og hér hefur líka verið nefnt, bæði af hv. 9. þm. Reykv. og fleirum, t.d. hv. 11. þm. Reykn., að þetta hafi skipt eitthvað um lit eða forsendur eftir að Framsfl. kom að málinu og Framsfl. eða forráðamenn hans eða ráðherrar hans hafi beitt einhverjum nýjum aðferðum eða þvingunum um það að ná fram einhverjum vinnubrögðum eða aðferðum við úthlutun öðrum en áður hafði gert ráð fyrir. ( Gripið fram í: Þetta er rangt.) Þetta er nákvæmlega eins og sá vinnuhópur ráðuneytanna sem mér hefur orðið tíðrætt um lagði málið upp og lagði til og kannski lagt það til einmitt að frumkvæði hæstv. þáv. utanrrh. og samkvæmt þeim skoðunum sem hann hafði lýst mjög ítarlega í þinginu og reyndar kallaði við 2. umr. það skömmtunarkerfi sem hann sagði að nú væri verið að taka upp, kallaði það held ég, skrifaði um það eftir hv. þm., spillingarkerfi, hann minnir mig á það og staðfestir að ég hafi skrifað rétt eftir, en þetta spillingarkerfi var einmitt það sem hann lagði hér til. Fyrst svo er nú langt komið langar mig til að vitna hér til, með leyfi hæstv. forseta, þess sem hv. þm., þáv. hæstv. utanrrh., svaraði Inga Birni Albertssyni, þáv. hv. þm., í andsvari þegar hann sagði að vísu samkvæmur þessari skoðun sinni: ,,Öll skömmtunarkerfi eru af hinu vonda.`` Hann orðaði ekki spillingarkerfi þá, en það kom til síðar af því að þá var hann sjálfur að leggja til þetta skömmtunarkerfi. Þá var það ekki spillingarkerfi. Það er orðið spillingarkerfi eftir að aðrir hafa tekið það upp eftir honum og ætla að nýta sér það. En öll skömmtunarkerfi eru af hinu vonda, sagði hæstv. þáv. utanrrh.
    ,,Framkvæmd á skömmtunarkerfum verður yfirleitt með þeim hætti að það leiðir til mismununar. Útboð eða uppboð hefur þann ókost að það mun hækka verðið til neytenda. Sú leið sem hér er valin er einfaldlega sú að auglýsa án mismununar, öllum frjálst að sækja um eða eftir atvikum, ef um er að ræða varning sem kallar á einhverja fagþekkingu eða annað slíkt, tiltekinn hópur fær að sækja um. Þá er minnstur skaði að því og minnst mismunun að láta hlutkesti ráða valinu úr þeim hópi. Miklu er það geðþekkari aðferð en t.d. ef ráðherra eða einhver skrifstofa, t.d. innan landbúnaðarkerfisins, ætti að taka um þetta geðþóttaákvörðun og úthluta einhverjum völdum gæðingum.`` --- Undir það tek ég heils hugar með hv. þm. og hann þarf ekki að gera mér upp neinar skoðanir um það að það sé eitthvað sem ég vilji taka upp.
    En nóg um þetta, hæstv. forseti. Ég fékk eina spurningu frá hv. 11. þm. Reykn. Ef ekki yrði af lágmarksinnflutningi og aðrar lagaheimildir mundu ekki duga til þess að af innflutningi yrði, hvort þá yrði lögð hér fram á haustþingi breyting á þessum lögum eða frv. um lágmarksinnflutning eða einhver sú breyting gerð sem leiddi til þess eða tryggði það.
    Ég sagði við 2. umr. um málið að auðvitað hefði hv. Alþingi alla möguleika á því að breyta í ljósi fenginnar reynslu. Við höfum þetta mál, hv. alþm. og löggjafarsamkoman, auðvitað í hendi okkar. Ég sagði þá, eins og hefur komið fram ítrekað í máli manna, að við ættum ekki að rasa um ráð fram í þessu. Við ættum að láta reynsluna sýna sig og sanna og skera úr og að sjálfsögðu er það svo að þá getur komið til þess, þegar við sjáum það, ef þetta fer eftir eins og hv. þm. margir hafa lýst yfir að enginn innflutningur yrði og þetta frv. eins og það liggur fyrir sé eitthvert girðingafrv. sem takmarki eða hefti allan innflutning, þá bendir meiri hluti hv. landbn. á það í sínu áliti um málið sem sent er hv. efh.- og viðskn. að eðlilegt sé að þingið fylgist vel með málinu og nauðsynlegt kunni að verða að endurskoða í ljósi fenginnar reynslu. Mig langar til að lesa þessa tilvitnun, með leyfi forseta:
    ,,Meiri hlutinn tekur fram að þar sem frv. þetta felur í sér flókið og viðamikið mál sem ekki er reynsla fyrir hér á landi verður að liggja ljóst fyrir að Alþingi þarf að fylgjast vel með framkvæmd þess, ef að lögum verður, og nauðsynlegt kann að vera að endurskoða lögin í ljósi fenginnar reynslu.``

    Nú ætla ég út af fyrir sig ekki að gera mér upp neitt um það hvaða hugmyndir meiri hluti hv. landbn. hefur haft til málsins og hvaða ástæður liggja því að baki að þeir telja e.t.v. nauðsynlegt að taka lögin skjótt til endurskoðunar. En ég vil hins vegar taka undir þessa yfirlýsingu hv. landbn. og segi það við hv. þm. að ég tel að það sé mjög eðlilegt að Alþingi fylgist vel með málinu.
    Hér hefur reyndar komið fram tillaga um það að setja inn í lögin ákvæði um endurskoðun. Ég held almennt talað að það sé heldur hvimleitt ákvæði að hafa yfir sér það að lög skuli endurskoðuð fyrir einhvern ákveðinn tíma á einhverjum forsendum sem ekki liggja fyrir. Ég er ekki að segja að það sé neitt útilokað og auðvitað eru mörg dæmi um það að slík ákvæði er að finna í lögum. Það er út af fyrir sig í lagi að skoða það mál, en ekki er ég þó að gefa neina yfirlýsingu fyrir hönd stjórnarmeirihluta um stuðning eða ekki stuðning við málið á þessu stigi. Það hefur ekki verið rætt og ég lýsi því aftur yfir að ég tel að það sé ekki eðlilegt að slík fyrirheit séu gefin í málinu fyrir fram. Ég hef margsagt það hér í þessum ræðustól að ég tel að reynslan verði að skera úr um málið.