Alþjóðaviðskiptastofnunin

22. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 15:38:35 (842)


[15:38]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Áður en ég kem að efni andsvarsins, þá vil ég aðeins segja við hæstv. ráðherra vegna hans lokaorða að flokkur sem hefur talað um neyðarástand á heimilum, flokkur sem hefur talað um tafarlausar aðgerðir í húsnæðismálum, flokkur sem hefur talað um sára fátækt getur ekki komið hér og sagt: Sex vikur eru ekki langur tími og þetta bíður allt til haustsins. Það var a.m.k. fólkinu ekki sagt þegar talað var í þessum ræðustól, og þær tilvitnanir liggja alla fyrir, um gjaldþrot þúsunda heimila, sára fátækt og neyðarástand svo að ég noti nokkur orð sem Framsfl. notaði í þessum ræðustól fyrir örfáum mánuðum. Það sýnir bara á hvaða mælikvarða Framsfl. leggur sára fátækt, neyðarástand og gjaldþrot heimilanna, að það má bíða.
    Erindi mitt upp í þennan ræðustól var að inna hæstv. ráðherra frekar eftir því að hann íhugi nú rækilega ásamt félögum sínum í ríkisstjórninni að samþykkja brtt. á þskj. 92 frá Steingrími J. Sigfússyni þar sem það er lögbundið að ákvæði laga þessara skuli tekin til endurskoðunar fyrir árslok 1996. Það hefur oft verið gert, hæstv. ráðherra, að binda slíka endurskoðun í lögum. Það hefur komið fram frá öllum, bæði stuðningsmönnum frv. og andstæðingum, að það veit enginn nákvæmlega hvernig veruleikinn kemur út og það eitt og sér eru nægileg rök fyrir því að lögbinda endurskoðun. Þar að auki tel ég skynsamlegt fyrir hæstv. ráðherra að hafa vissa hliðsjón af hugsanlegri, breiðari samstöðu í bakgrunni málsins heldur en bara ríkisstjórnarmeirihlutanum einum og sér og fallast á þessa endurskoðun fyrir árslok 1996. Og ég vil eindregið árétta við hæstv. ráðherra að það verði íhugað af hálfu ríkisstjórnarflokkanna að styðja þessa brtt. við lokaafgreiðslu málsins. Það kann að hafa veruleg áhrif á það undir hvaða merkjum þessi lagasetning siglir inn í framtíðina.