Alþjóðaviðskiptastofnunin

22. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 15:43:30 (844)


[15:43]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. GATT-samningurinn er víðtækt, alþjóðlegt samkomulag sem fyrst og fremst þjónar því markmiði að gagnast fólkinu í löndum heims til þess að skapa ódýrari vörur og betri lífskjör fyrir fólkið í landinu sem aðili er að samkomulaginu. Það er alveg rétt að hér á þingi starfar landbn. sem gætir hagsmuna landbúnaðarins og er ekkert nema gott um það að segja. En það starfar engin neytendanefnd hér á þingi, hæstv. ráðherra. Það er enginn aðili á þinginu sem hefur það verkefni að sinna hagsmunum neytenda og sá ráðherra sem á að gera það í ríkisstjórninni, hæstv. viðskrh., hefur heldur lítið látið fyrir sér fara í þessari umræðu. Það er þess vegna sem við mörg teljum að það sé nauðsynlegt að í eftirfylgju málsins sé það líka tryggt, sérstaklega varðandi framkvæmd 3--5% lágmarksinnflutningsins, að þar eignist neytendur á Íslandi ákveðna kjarabót. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að það sé farsælla fyrir alla þá sem ábyrgð bera á málinu, þar með talinn hæstv. landbrh., að gera samkomulag um þetta endurskoðunarákvæði hér á þinginu heldur en neita því líka.