Alþjóðaviðskiptastofnunin

22. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 16:10:16 (857)


[16:10]
     Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar) :
    Herra forseti. Hér fara fram stórkostlega áhugaverðar umræður um eðli og áhrif þessa 3% lágmarksmarkaðsaðgangs ef af verður og ætla ég ekki að blanda mér í þann þáttinn sem snýr að hugsanlegum eða óhugsanlegum áhrifum hér á innanlandsmarkað fyrir matvöru. Ég minni bara á að þessi 3% lágmarksmarkaðsaðgangur var þannig hugsaður af hálfu landbúnaðarvöruútflutningsríkja að hann átti að virka sem fleygur inn á áður lokaða markaði sem síðan var að sjálfsögðu ætlunin og er ætlunin að reka dýpra á kaf af hálfu þjóða sem líta á þetta sem fyrsta skrefið af mörgum inn á markaði sem áður voru lokaðir.
    Að öðru leyti sagði hv. þm. Pétur H. Blöndal að brtt. mín á þskj. 92 væri rökfræðilega furðuleg. Það má út af fyrir sig til sanns vegar færa í þeim skilningi að auðvitað þarf ekkert lagaákvæði um það að hvenær sem er er hægt að taka frv. til endurskoðunar, það er ljóst, það er okkur ljóst, hv. þm., ekki síður þeim sem hafa verið hér kannski í 12 ár heldur en hv. þm. Hins vegar er þetta alsiða og er venja að ef menn vilja taka um það ákvörðun með einhverjum tilteknum hætti hvernig staðið sé að endurskoðun og hvenær henni skuli lokið sé það gert með einmitt þessum hætti. Og hv. þm. getur örugglega flett upp á 10--20 fordæmum frá undanförnum árum þar sem einmitt er tekin pólitísk ákvörðun og gert samkomulag um að á einhverjum tilteknum tíma eða fyrir einhvern tiltekinn tíma sé svona verk unnið. Þetta byggir þar af leiðandi á hefð. Þetta er með vísan til ákveðins rökstuðnings sem kom fram í framsöguræðu minni fyrir tillögunni. Sem sagt þeirri að það verði fylgst með framkvæmdinni og þetta leggur með vissum hætti þá skyldu á herðar hæstv. ríkisstjórnar að hún gangist fyrir svona endurskoðun.
    Nú er hæstv. forsrh. kominn hér og getur þá kannski svarað því hvort hann er af hálfu hæstv. ríkisstjórnar tilbúinn að lýsa því yfir að svona verk verði unnið. Ég tók það einmitt fram að ég gerði ekki í sjálfu sér kröfur um að þetta yrði á þeim grundvelli að mín brtt. yrði samþykkt heldur mundi ég alveg taka gilda yfirlýsingu frá hæstv. ríkisstjórn um að í þetta verk yrði farið.
    En ég undirstrika að þó það megi halda fram að það sé út af fyrir sig fáfengilegt að vera yfirleitt að setja í lög að lög megi endurskoða, því það má auðvitað alltaf gera, Alþingi sem á hverjum tíma situr hefur að sjálfsögðu löggjafarvaldið, þá er þetta hefð og venja sem hv. þm. mun örugglega eiga eftir að kynnast að er iðulega gripið til.