Stjórn fiskveiða

23. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 18:33:10 (873)


[18:33]
     Frsm. meiri hluta sjútvn. (Árni R. Árnason) :
    Herra forseti. Ég geri grein fyrir frhnál. meiri hluta hv. sjútvn. og breytingartillögum sem meiri hlutinn leggur nú fram.
    Fyrir það fyrsta, herra forseti, liggur frammi þskj. 81, brtt. sem er hér með dregin til baka, hún er leiðrétting, efni hennar er nákvæmlega endurtekið í brtt. sem nú hafa komið fram á þskj. 95 og er þar í lið 1, staflið a.
    Á milli 2. og 3. umr. hefur hv. sjútvn. einkum fjallað um málefni krókabáta og aðrir þættir frv., sem hér liggur fyrir, eru nánast útræddir af hálfu nefndarinnar. Umræða nefndarinnar hefur sérstaklega snúið að því hversu fljótt megi taka upp róðrardagakerfi og um það snúast tillögur okkar stjórnarsinna í nefndinni og væntum við þess að breytingartillögur okkar teljist viðunandi niðurstaða. Við álítum eftir að hafa rætt þær í hópi okkar við aðra nefndarmenn, fleiri þingmenn og þá viðmælendur okkar, sem til okkar hafa komið, að málið sé með þessum breytingum orðið allsæmilegt miðað við þá heildaraðstöðu sem við stöndum frammi fyrir að verða með einhverjum hætti að ná betri stjórn á sókn krókaveiðiflotans og reyna að hemja aflasókn þeirra líkt og gert er á aflamarksskipunum. Í samræmi við þetta höfum við líka fjallað sérstaklega um hugsanlega möguleika þeirra til hagræðingar innan þessa stjórnkerfis og í þeim anda eru brtt. einnig lagðar fram.
    Herra forseti. Vegna þess sem fram hefur komið fyrr í umræðum um þetta mál, til að mynda við atkvæðagreiðslur eftir 2. umr., verður ekki hjá því komist að við vekjum á því athygli fyrir það fyrsta að með þessu frv. og breytingartillögum er í engu fjallað um ákvæði sem varðar tómstundaveiðar, sjóstangaveiðar eða hugsanlega sjóstangaveiðar sem tengjast ferðaþjónustu. Þessi ákvæði þrengja þau ekki, rýmka þau ekki og snúa ekki að neinu leyti að breytingu á þeim.
    Við höfum staðið frammi fyrir því að upplýsingar samtaka krókaveiðimanna sýna óyggjandi fram á að fjöldi báta sem stunda veiðarnar reglulega hefur vaxið ár frá ári svo að nemur tugum skipa og flest þeirra sem bætast við flotann á hverju ári eru tiltölulega afkastamikil, tiltölulega vel útbúin og geta farið ferða sinna milli lands og miða miklu fljótar en þeir hinir sem fyrir eru. Undir liggur kapp manna og m.a. vegna þessa var á því ekki vakið máls við okkur frambjóðendur fyrr á þessum vetri. Það stefndi í hættu ef ákvæðum um þessar veiðar yrði ekki breytt frá því sem verið hefur, sérstaklega þegar menn sáu fram á alvöru ákvæðanna um viðbótarbanndaga með tilliti til raunafla. Um þetta hefur okkar viðfangsefni snúist og með tillögum þessum, herra forseti, er endanlega gert ráð fyrir því að róðrardagakerfið sem nefnt er

í frv. og breytingartillögum verði tekið í gildi 1. febr. nk. Þeir sem á næsta sumri kynnu að velja þorskaflahámark fá að velja að nýju fyrir næsta fiskveiðiár að ári og geta þá valið sóknardaga eins og hinir.
    Með þessum tillögum verður mönnum boðið að flytja sóknardaga á milli veiðitímabila innan fiskveiðiársins eftir ákveðnum reglum. Í fyrstu voru þær tillögur þess efnis að eingöngu mætti flytja frá vetrartímabilinu til sumarsins en það verður gagnkvæmt og menn mega flytja á milli tímabila og sjútvrh. falið að semja reglur um slíkan flutning á milli tímabila.
    Herra forseti. Í umræðu nefndarinnar hefur mikið verið rætt um til hvers þessar tillögur mundu leiða og til að mynda miðað við þær upplýsingar sem fylgdu frv. í fyrstu gerð og meiri hluti nefndarinnar hefur mjög rætt í sinn hóp og telur tillögurnar snúa að því að tryggja að gangi þær áætlanir eftir um afla á þeim veiðitímabilum, sem ekki er lokið á þessu fiskveiðiári, geti menn treyst á niðurstöðu sóknardaga sem hafa verið nefndir, við töluna 86. Er miðað við þær upplýsingar sem menn hafa í höndum um raunafla tveggja tímabila sem þegar eru liðin og áætlaðan afla á þeim tveimur sem eftir eru.
    Meiri hlutinn vill taka fram að hann hefur í röðum sínum og meðal stjórnarliða á þingi og við ríkisstjórn og ráðherra talið rétt að komi fram að það er ásetningur okkar að ef og þegar unnt verður að ákveða aukinn þorskafla á Íslandsmiðum innan lögsögunnar aukist einnig aflaviðmiðun fyrir krókabáta og þetta á við aflaviðmiðunina 21.500 tonn. Þar með ætti einnig ef unnt væri að auka aflann að fjölga róðrardögum þeirra.
    Herra forseti. Breytingartillögurnar sem ég geri nú grein fyrir liggja fyrir á þskj. 95 og þar kemur fram í 1. tölul. a-lið það sem ég gerði fyrst að umtalsefni, leiðrétting á tilvísun í málsgreinar sem áður hafði legið frammi á þskj. 81.
    Í b-lið 1. tölul. er tillaga um að þeir sem nú velja sér þorskaflahámark geti að ári valið að nýju og þá geta þeir valið róðrardaga.
    Í c-lið 1. tölul. er tillaga um að róðrardagakerfið gangi í gildi 1. febrúar nk. og það dragist alls ekki.
    Í d-lið er tillaga um að í reiknireglunni um útreikning róðrardaga út frá formúlum, sem þegar eru fyrir í lögunum og hafa skapað mönnum veiðidaga, verði breytt úr 40% í 34% til þess að tryggja að miðað við núverandi upplýsingar og áætlanir verði þessir dagar 86.
    Í e-lið 1. tölul. er ákvæði um að heimila flutning róðrardaga á milli veiðitímabila. Þar er einkum breyting frá því sem við höfðum áður rætt í hópi nefndarmanna að ráðherra geti á sama hátt og fyrr er kveðið á í þeim lið leyft flutning með reglugerð milli annarra tímabila. Við teljum það vera heimild til að flytja hvort heldur er frá vetri til sumars, frá hausti til sumars eða á hinn veginn, frá sumri til vetrar eða hausts.
    Í f-lið 1. tölul. er tillaga um að breyta tölunni um krókafjölda og bjóð er samræming við það sem raun er í dag.
    Í g-lið er tillaga um að ákveða að þeim, sem svara ekki kallinu um að velja, skuli ætlaðir róðrardagar en áður var sá liður þess efnis að þeim skyldi ætlað þorskaflahámark.
    Í 2. tölul. gerum við svo breytingu, í samræmi við það sem áður er sagt, við bráðabirgðaákvæði III um hvernig skuli setja í gang róðrardagakerfi, sóknardagakerfi og ef fjareftirlit, sem við höfum orðað svo verður ekki reiðubúið, þ.e. eftirlit með fjarskiptibúnaði og með sjálfvirkum hætti, verði öðru eftirliti komið á en róðrardagakerfið mun ekki bíða.
    Herra forseti. Ljóst er að þetta er síðasta umræða á þessu vorþingi um málefni sjávarútvegs og krókabáta sérstaklega sem hafa fengið mesta athygli og mestan tíma umræðunnar. Ég vil af þessu tilefni þakka þeim sem hafa komið til viðtals við sjútvn. Landssamtök smábátaeigenda og fleiri landshlutasamtök eða landssamtök, sem málið varðar, hafa ævinlega verið reiðubúin að koma til viðtals við nefndina og láta í ljósi skoðanir og álit þó með skömmum fyrirvara sé. Ég þakka starfsmönnum og öðrum þeim sem hafa veitt okkur lið og ég þakka hv. nefndarmönnum sem hafa einnig verið tilbúnir að koma til nefndarfunda og viðræðna nánast hversu oft sem mönnum datt í hug til að gera málið endanlega viðunandi og sæmilega úr garði.
    Við stjórnarsinnar í hv. sjútvn. væntum þess að eftir þetta muni takast með sjútvn., með sjútvrn. og samtökum krókaveiðimanna sæmilegt samráð til þess að fylgjast sameiginlega með hvernig þessi ákvæði muni reynast í framkvæmd og hvað þarf að gera til að þau verði þjálli í framkvæmd þeirra og þjálli í framkvæmd stjórnarstofnana.
    Að þessu mæltu, herra forseti, legg ég í hönd þingsins tillögur og álit nefndarinnar.