Stjórn fiskveiða

23. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 18:45:19 (876)


[18:45]
     Sighvatur Björgvinsson :
    Virðulegi forseti. Full ástæða er til þess að tala nokkuð rækilega um þá stefnu sem hæstv. ríkisstjórn er nú að móta í sambandi við endurskoðunarlög um stjórn fiskveiða. Því var lofað af hálfu ríkisstjórnarinnar í stjórnarsáttmála, af hálfu sjútvrn. í verkefnalista þess ráðuneytis og af hálfu fjölmargra hv. stjórnarþingmanna að eitt af fyrstu verkum þessarar hæstv. ríkisstjórnar mundi verða að endurskoða lög um stjórn fiskveiða. Herra forseti. Það er ekki endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða sem hér fer fram. Ríkisstjórnin og stjórnarþingmenn gáfust upp á því verki, í besta falli hafa þeir frestað því. Það sem hér er verið að ræða er eingöngu spurningin um hvernig eigi að bregðast við vandamálinu krókaleyfismönnum, hvernig eigi að bregðast við því vandamáli að krókaleyfismenn eru einu frjálsu fiskimennirnir sem eru eftir á Íslandi, hvernig eigi að koma þessum mönnum inn í aflamarkskerfið í áföngum ef ekki vill betur til með því að neyða þá til að hverfa frá sínum frjálsu fiskveiðum. Þetta er það eina sem þessi endurskoðun fjallar um. Vonandi eigum við eftir að verða fyrir þeirri lífsreynslu að fá frv. aftur frá hæstv. sjútvrh. á næsta hausti þannig að menn geti þá tekið til við þá endurskoðun sem þá var lofað. En ég á nú satt að segja ekki von á því, herra forseti.
    Ég býst við því að hæstv. sjútvrh. og hæstv. ríkisstjórn muni gera allt það sem hægt er að koma í veg fyrir það að frv. um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða komi aftur fyrir Alþingi. Ég er alveg sannfærður um það að af alkunnri tillitssemi við hæstv. sjútvrh. munu þeir þingmenn sem mestu lofuðu standa með honum í því. Þeir munu kannski vakna þegar nokkrir mánuðir eru til kosninga og koma þá fram með kröfurnar sem þeir lofuðu að koma fram með í upphafi þess þings sem nú er að ljúka en hafa gleymt.
    Menn hafa gleymt því í umræðunni um kvótakerfið hver var tilgangur þess. Tilgangur þess var tvíþættur: Tilgangur þess var annars vegar að byggja upp fiskstofnana við Ísland og hins vegar að samræma sóknar- og afkastagetu fiskiskipaflotans og afrakstursgetu fiskstofnanna á Íslandsmiðum. Hvorugt þessara markmiða hefur náðst. Þvert á móti hefur stjórnkerfið valdið því að fiskveiðar Íslendinga eru nú í sögulegu lágmarki og þetta stjórnkerfi hefur valdið því að aldrei hefur meira magn af fiski farið til ónýtis á Íslandsmiðum eins og nú. En menn gefa sér ekki tíma til að ræða það. Menn gefa sér ekki tíma til að ræða það að eftir að aflamarkið hefur verið ákveðið lægra og lægra er freistingin ríkari og ríkari til þess að henda fiski sem er ekki í flokki þeirra verðmætustu eins og glögglega mátti lesa í nýlegri úttekt Morgunblaðsins. Menn ræða ekki um það vandamál, það vandamál sem þetta stjórnkerfi hefur skapað varðandi nýtingu íslenskra fiskimiða. Nei, menn ræða hér um vandamálið trillukarlar. Menn ræða um vandamálið því að það er orðið vandamál á Íslandi að við eigum góða fiskimenn og það vandamál verður að leysa. Menn hafa miklu meiri áhuga á því að leysa það vandamál að skera afla niður við trog fremur en að finna leiðir til þess að koma í veg fyrir það að verðmætum sé varpað á glæ. Við skulum hafa það í huga í þessu sambandi að hver 10 þúsund tonn sem þannig fara í sjóinn eru heilsársatvinna 1.500 manna fiskiþorps á landsbyggðinni. Hversu mörgum fiskimannaþorpum á landsbyggðinni skyldi nú vera kastað í sjóinn vegna áhrifa kvótakerfisins? Hvernig stendur á því að hv. þm. gefa sér ekki tíma til að ræða þau áhrif þessa stjórnunarkerfis fiskveiða en eru allir uppteknir af því að við eigum að reyna að koma í veg fyrir það sem byggði Ísland upp á sínum tíma, þ.e. velgengni bátasjómanna? Því fæstar af byggðunum við Íslandsstrendur væru til ef forfeður þessara manna hefðu ekki sótt sjóinn með svipuðum hætti og þeir gera nú og skilað sínu verki.
    Menn tala um að þessir krókaveiðimenn séu að skapa vandamál. Hvaða vandamál hafa þeir skapað til dæmis í því kjördæmi sem við hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson vorum kjörnir á þing fyrir í síðustu kosningum? Þeir hafa skapað þau vandamál að þar hefur ekki verið atvinnuleysi eins og ella myndi hafa verið frá því í maí og fram í nóvember. Þegar menn tala um málefni trillukarla og krókaleyfismanna þá tala menn gjarnan um afkomumöguleika þeirra og þeirra fjölskyldna. En málið er bara miklu stærra heldur en það. Vegna þess að það eru þessir menn sem hafa séð til þess að heilu landshlutarnir hafa ekki hnigið, þeir geta enn staðið sæmilega traustum fótum. Ef þessir menn hefðu ekki komið til hefði verið fjöldaatvinnuleysi á nær öllum stöðum á Vestfjörðum frá vori til hausts undanfarin ár. Það er afbrot þessara manna að hafa komið í veg fyrir það. Fyrir það afbrot skal nú refsað.
    Þegar ég var að alast upp vestur á Patreksfirði sem drengur þá unnu menn þar 13.000 tonn af þorski á ári hverju. Á öllu suðursvæði Vestfjarða eru nú til aflaheimildir upp á 3.000 smálestir. Við þær aðstæður hefðu þessi byggðarlög lagst í eyði ef krókaveiðimenn hefðu ekki komið til sögunnar. Þeir hafa bjargað þessum byggðum, fyrir það er nú verið að refsa þeim. Og ég spyr, virðulegur forseti: Það er ekki langt síðan að frambjóðendur fóru á fundi víðs vegar um land. Við Vestfirðingarnir áttum saman 14 framboðsfundi og það sem þar var sagt er enn í fersku minni margra. Ég spyr frambjóðendur stjórnarflokkanna sem þar töluðu: Voru þeir að boða þær breytingar sem verið er að samþykkja nú á Alþingi Íslendinga með þeirra atkvæðum? Var það þetta sem frambjóðendur Sjálfstfl. og frambjóðendur Framsfl. í Vestf. voru að segja ykkur á 14 fundum að þeir ætluðu sér að gera þegar þeir kæmu hingað inn í Alþingi Íslendinga?
    Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði að af tillitssemi við hæstv. sjútvrh. greiddi hann atkvæði gegn samvisku sinni. Af tillitssemi við hv. þm. ætla ég ekki að rifja upp ummæli hans á þessum 14 framboðsfundum vestur á fjörðum þar sem við sátum saman við borð. ( Gripið fram í: Jú, gerðu það.) Ég ætla ekki að gera það m.a. vegna þess að ég veit að þeir sem á hann hlýddu muna yfirlýsingar hans jafn vel og ég. ( Gripið fram í: Hverjir voru það?)
    En hvers vegna er þetta vandamál þá komið upp sem varaformaður og framsögumaður meiri hluta stjórnarsinna í sjútvn. lýsti hér áðan, þ.e. að nú þurfi að gera sérstakt átak til að taka á vandamálinu krókaveiði? Ég spyr: Er þetta í samræmi við yfirlýsingar tveggja þingmanna Sjálfstfl. á Vestf. í stjórnarliðinu, eins þingmanns Framsfl. í sama kjördæmi, tveggja þingmanna Framsfl. á Reykn., a.m.k. eins þingmanns Sjálfstfl. í sama kjördæmi, tveggja þingmanna Sjálfstfl. á Vesturl., í samræmi við yfirlýsingu a.m.k. eins þingmanns Framsfl. í sama kjördæmi? Hvernig stendur á því ef menn lesa yfirlýsingar allra þessara hv. þm. frá því fyrir og eftir kosningar að það er þingmeirihluti fyrir þeim tillögum sem hér er verið að leggja til? Ef marka má þeirra eigin orð þá ætti að vera hér ríkur þingmeirihluti fyrir hinu gagnstæða. En hvernig stendur á því að það er þingmeirihluti fyrir þeim breytingum sem hér á að gera ef menn miða við yfirlýsingar þessara hv. þm. sem í sumum tilvikum eru rúmlega eins mánaðar gamlar? Eru allir þessir menn svona tillitssamir við hæstv. sjútvrh. eða eru kannski sumir þessara þingmanna svona tillitsamir við hann, aðrir svona tillitssamir við hæstv. utanrrh., og enn aðrir svona tillitsamir við formann Landssambands íslenskra útvegsmanna? Hvar er þá tillitið til fólksins sem kaus þessa hv. þm. til Alþingis út á þær yfirlýsingar og þau loforð sem þeir gáfu?
    Virðulegi forseti. Ég ætla þá að víkja aðeins að brtt. sem meiri hluti sjútvn. flytur og brtt. á þskj. 100 sem ég flyt ásamt hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og Guðnýju Guðbjörnsdóttur. Í fyrsta lagi leyfi ég mér að benda á og vísa þar til c-liðar í 1. tillögu meiri hlutans að eins og frá lögunum er gengið þrátt fyrir þær breytingar sem hér er verið að gera byggist lagatextinn allur á banndagahugtakinu. Sóknardagahugtakið er ekki skýrt út nema í einni einustu setningu og að öðru leyti er öll uppbygging laganna miðuð við banndagahugsunarháttinn og sóknardagarnir reiknaðir þannig út að miðað er við fasta banndaga og viðbótarbanndaga samkvæmt núverandi óbreyttu kerfi og sóknardagarnir síðan fundnir sem 66% af þeim afgangi sem þá lifir. Allur hugsunarhátturinn í frumvarpinu er hugsunarháttur banndagakerfisins og það eru varla nema tvö orð í öllum lögunum þar sem minnst er á sóknardaga. Það er því mikill misskilningur ef einhver heldur að þarna sé verið að gera einhverjar gerbreytingar frá núverandi kerfi. Til þess hefði þurft miklu vandaðri vinnu og orðið að gera viðameiri breytingar en gerðar voru.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að sóknardagarnir svokölluðu geti orðið 86 talsins. Þeir voru 136 á því tímabili sem nú er að líða og tillagan gerð um það að þeim fækki í 86. En ekki nóg með það heldur er gert ráð fyrir því að tímabilaskiptingin gildi gagnvart þessum sóknardögum og þeir sem vilja flytja sóknardagamöguleika sína frá vetri til sumars verði að gjalda fyrir það með því að afsala sér helmingi af þeim sóknardögum sem falla á vetrarmánuðina. Og ekki nóg með það, þeim er bannað að nýta nokkurn þessara sóknardaga sem til falla á vetrarmánuðunum, þeim er uppálagt að tilkynna fyrir fram áður en vetrarmánaðatímabilin hefjast að þeir ætli sér ekki að gera bát sinn út á því tímabili, leggja honum og flytja síðan dagana með 50% refsitolli yfir til sumarsins.
    Þetta þýðir að sóknarmöguleikar þeirra manna sem ekki ætla að stunda útgerð yfir haust og vetrarmánuðina eru aðeins 60 dagar á ári. Ég verð að leyfa mér að benda á það að einhver tvískinnungur er í afstöðu þessa ráðuneytis sem segir í einu orðinu að fiskgengd á Íslandsmiðum sé nú orðin svo lítil að það þurfi að skera aflamarkið niður í 165.000 tonn og í hinu orðinu að menn eigi að geta lifað af því að stunda atvinnu sína 86 daga á ári. Það má þá ekki vera nein smá fiskgengd á miðunum ef fjölskylda á að geta haft framfærslu sína af því að stunda útgerð í 86 daga á ári. Þarna er einhver rökleysa í málflutningi hæstv. ráðuneytis að halda því fram í öðru orðinu að fiskgengdin sé svo lítil að ekki megi veiða nema 165.000 tonn á árinu en gera því engu að síður skóna að fólk geti framfleytt sér og fjölskyldum sínum með því að stunda veiðar í 86 daga ár ári. Hvað þá heldur gagnvart þeim sem þurfa að sætta sig við 60 sóknardaga.
    En það er ekki nóg með að með þessum hætti verði kleift að flytja sóknardaga frá vetri til sumars með 50% afföllum, eins og nákvæmlega er útlistað í brtt. meiri hlutans, heldur er sagt í einni setningu: ,,Ráðherra getur á sama hátt með reglugerð leyft flutning milli annarra tímabila.``
    Hvernig á hann að gera það? Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig ætlar hann að gera það? Ætlar hann að nota sömu afsláttarreglur, þ.e. ef sjómaður flytur sóknardaga sína frá vetrartíma yfir til sumartíma þá þarf hann að gjalda fyrir það með því að helminga sóknardaga sína? Á þessi sami maður ef hann flytur sóknardagana til baka frá sumri til vetrar að gjalda líka fyrir það með helmings afslætti af dögum? Það yrði þá lítið eftir þegar búið væri að flytja þessa sóknardaga svo sem tvisvar eða þrisvar á milli tímabila. Það væri kannski ágæt aðferð til að skerða enn frekar frelsi krókaveiðimanna. Við spurðum að þessu í hæstv. nefnd. Það verður að segja eins og er að meirihlutamönnum vafðist tunga um höfuð. En þeir sögðu: Auðvitað á að tvöfalda, auðvitað á að tvöfalda tilfærsluna. Þ.e. ef sjómaður flytur skulum við segja 30 sóknardaga frá vetri til sumars og fær þá 15 sóknardaga fyrir það á sumrinu og flytur síðan þessa 15 sóknardaga til baka til vetrartímans þá tvöfaldast þeir aftur og verði 30. Þetta var svarið sem við fengum í hv. sjútvn. Þá var næst spurt: En hvað þá um sjómanninn sem ekki hefur flutt neina sóknardaga frá vetri til sumars en vill flytja sóknardaga frá sumri til veturs? Og það getur meira en vel verið því á stöðum þar sem gott er að gera út smærri báta yfir vetrarmánuðina gæti það verið freistandi að flytja daga frá sumri til vetrar þegar hæsta fiskverðið er. Hvaða svar kom þá frá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni: Þá á líka að tvöfalda.
    Er þetta rétt, hæstv. sjútvrh., á þá líka að tvöfalda? Er þá aðferðin fyrir trillukarlana sú að geta tvöfaldað sóknardagafjölda sinn á hættulegustu mánuðum ársins með því að flytja sóknardaga frá sumri til vetrar og tvöfalda sóknardagana? Ef svo er, virðulegi sjútvrh., hvaða áhrif halda menn að það hafi á áhættusókn þessa flota? Eða er það kannski svo að þetta mál sé óhugsað og hæstv. sjútvrh. geti ekki kveðið upp úr með það hvort fara á þá leið sem hv. forsvarsmaður meiri hlutans sagði okkur frá á fundinum í dag eða þá leið sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði okkur frá eða báðar leiðirnar eða hvoruga leiðina?
    A.m.k. finnst manni það skjóta nokkuð skökku við að taka það mjög stíft fram hvernig skuli fara með ef flytja á sóknardaga frá vetri til sumars en hafa algerlega opna reglugerðarheimild hvernig fara á með ef flytja á þessa sömu veiðidaga til baka. Ég tala nú ekki um ef menn ætla að flytja veiðidaga eða sóknardaga frá sumri til vetrar.
    Svona eru vinnubrögðin, virðulegi forseti. Menn hafa enga vinnu lagt í þessa hugsun, menn hafa ekki hugmynd um hvað þeir eru að leggja til. Það er ekki ónýtt ef það er niðurstaðan að það sem eigi að gerast og sé hægt að gera sé að tvöfalda sóknardagafjölda sinn yfir vetrarmánuðina með því að flytja þá frá sumri til vetrar. En allt þetta skiptir engu máli, virðulegi forseti, vegna þess að í lögunum stendur að samanlagður afli krókaleyfisbátanna megi ekki fara yfir 21.000 tonn. Þannig að þetta skiptir bara engu máli. Allar þessar tilfærslur eru þýðingarlausar því að miðað við a.m.k. fiskgengdina eins og hún hefur verið núna þá verður krókaleyfisflotinn löngu búinn að reka sig upp undir þakið áður en menn eru búnir að útfæra allar þessar tilfærslur.
    Svo er það skrýtnasta af öllu saman þetta: Ef menn ætla að flytja sóknardagana sína, við skulum segja frá vetrarmánuðunum yfir á sumarmánuðina þannig að menn fái einhverja sóknardaga þar til viðbótar, þá á að taka þann afla sem menn fá yfir sumartímann, reikna ákveðið hlutfall af honum og bókfæra hann yfir á vetrartímann eins og þeir hefðu verið að veiðum þá. Þ.e. menn verða að gera það upp eftir fiskveiðiárið, það er ekki nóg að menn viti hvað hefur fiskast á hverju tímabili fyrir sig heldur hvað var mikill afli hjá hverjum og einum krókakarli sem fiskaði á viðkomandi veiðitímbilum sem stafaði af því að hann flutti einhverja daga frá einu veiðitímabili til annars og á því að færast úr úr öllu bókhaldinu og fara frá júnímánuði í febrúar. Menn vita þetta ekki fyrr en eftir að fiskveiðiárinu er lokið. Þá standa menn kannski allt í einu uppi með það, menn geta hugsað sér það, að það verði bara ekki nokkur maður sem nýtti sér sóknardagana yfir vetrarmánuðina, svona ,,extreme`` tilvik að allir krókakarlar tækju þá ákvörðun að nú ætlum við ekkert að veiða í vetur, við ætlum að fara með alla sóknardagana yfir á sumarið. Svo kemur allur aflinn á sumarið. En þá reikna menn út á eftir að þrátt fyrir það að enginn hafi farið á sjó allan veturinn þá hafi krókaleyfisflotinn fiskað svona og svona mörg tonn á því tímabili og auðvitað verði að taka tillit til þess þegar sóknardagarnir fyrir það tímabil eru ákvarðaðir eftir heilt ár. Svo segja menn að það sé óleysanlegur vandi að fylgjast með sókn þessa flota. En hvernig halda menn að það verði nú þegar hæstv. sjútvrh. og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson og Árni R. Árnason þurfa að fara í heimilisbókhaldið hjá hverjum einasta trillukarli til að athuga hvernig eigi að umreikna afla þeirra yfir á tímabil?
    En allt þetta skiptir engu máli því þessir menn mega ekki veiða nema 21.600 þorsktonn á ári. Þeir veiða nú í ár 31.000--32.000 tonn af þorski á kvótaári í lágmarki. Hæstv. sjútvrh. hefur sagt að síðan séu líkur á því að hægt sé að auka þetta aflamark á næstu árum. En á sama tíma og verið er að auka fyrir flotann í heildina þá á að taka krókaleyfisflotann niður um 10.000 tonn. Ég veit að ykkur var sagt áðan að það komi yfirlýsing frá sjútvrh. að ef hann ákveður að auka aflamarkið t.d. við ákvörðun um aflamark á næsta fiskveiðiári þá muni hann skoða að fjölga sóknardögum og lyfta aflaþakinu. En það getur hann ekki gert vegna þess að þetta er hvort tveggja bundið í lögum. Það eina sem hann getur gert er að leita til Alþingis með tillögu um að breyta þessum lögum. Og hvað, virðulegi forseti, tekur langan tíma að breyta lögum hér á hinu háa Alþingi. ( Gripið fram í: Hver pantaði lög?) Það er ekki ólíklegt að það geti tekið nokkra mánuði. Hæstv. sjútvrh. hefur í sinni hendi í 3. gr. laga um stjórn fiskveiða heimild til þess að ákveða aflamark að höfðu samráði við Hafrannsóknastofnun. Og hann gerir það með einni undirskrift. En

það er verið að telja mönnum trú um það að hann geti gert það sama gagnvart krókabátunum bæði hvað varðar sóknardaga og heildaraflamark þegar hvort tveggja er hins vegar bundið í lög og hann getur hvorugu breytt nema með því að leggja fram frv. á Alþingi Íslendinga, það fari í gegnum þrjár umræður, í gegnum sjútvn., í gegnum umsagnir allra umsagnaraðila. Hvað haldið þið, virðulegu þingmenn, að ágætur maður eins og Kristján Ragnarsson, formaður LÍÚ, gæti nú leikið sér á þeim langa tíma?
    Ef menn ætla sér að tengja aflahámark krókaveiðiflotans og sóknardagana við ákvarðanir hæstv. ráðherra um heildaraflamark fyrir allan flotann þá verða menn auðvitað að gera það í lögunum, þannig að gert sé ráð fyrir því í lögunum sjálfum að ef hann auki heildaraflamark flotans þá aukist sóknardagarnir og aflamark krókaleyfisflotans um sama hundraðshlutann.
    ( Forseti (StB) : Forseti vildi spyrja hv. þm. um hvort hann eigi mikið eftir af sinni ræðu. Það var gert ráð fyrir að gera matarhlé og komið er að þeim tíma þannig að ef hv. þm. á stutt eftir þá mætti hann ljúka ræðu sinni eða halda áfram að loknu matarhléi.)
    Þingmaðurinn getur nú talað aftur líka. [Lófatak á þingpöllum.]
    ( Forseti (StB) : Forseti vill biðja ágæta gesti á þingpöllum að gæta stillingar.)
    Ég skal reyna að stytta mál mitt, virðulegi forseti, við skulum sjá hvað okkur miðar en ég held að ég eigi ekki mjög langt eftir.
    Þá vík ég að brtt. okkar Össurar Skarphéðinssonar og Guðnýjar Guðbjörnsdóttur. Þar leggjum við einmitt til í fyrstu brtt. okkar að það verði bundið í lög að heildaraflamark krókaveiðiflotans og fjöldi sóknardaga breytist með sömu hlutfallslegri breytingu og heildaraflamark flotans. Þurfa menn þá ekkert að fara í grafgötur með það hvernig framkvæmdin verður eða bíða eftir langvinnri afgreiðslu Alþingis eftir að sú ákvörðun hefur verið tekin. Og þeim hv. þm. sem segjast styðja þetta sjónarmið gefst nú kostur á að greiða atkvæði með því. Greiða atkvæði með tillögu um það að ef hæstv. sjútvrh. eykur heildaraflamagn á næsta fiskveiðiári til að mynda þá aukist veiðiréttur krókaleyfisbátanna um nákvæmlega það sama hlutfallslega bæði hvað varðar fjölda sóknardaga og heildaraflamagn. Og það er ekkert að marka þá menn sem af tillitssemi greiða atkvæði gegn slíkum ákvæðum í lagafrv. en segjast ætla að framkvæma það engu að síður þótt lögin veiti þeim ekki heimild til þess.
    Það eru tvær aðrar veigamiklar efnisbreytingar sem í þessum brtt. eru fólgnar. Það er í fyrsta lagi að við leggjum til að þessum flóknu útreikningum á fjölda sóknardaga sem miðast við banndagakerfið verði sleppt. Þess í stað verði einfaldlega tilgreint að á fiskveiðiárinu 1995--1996 verði fjöldi sóknardaga hjá þeim krókaveiðimönnum sem velja það kerfi 96, bundnir við þá tölu. Og þeir ráði því síðan sjálfir hvenær á árinu þeir vilja nýta sér þessa sóknardaga. Menn felli niður þessar tímabilsskiptingar, felli niður þessar refsiheimildir ef menn kjósa að veiða fremur á einum árstíma en öðrum en haldi sig við þennan fjölda sóknardaga á árinu 1996, 96 daga, en sé algjörlega frjálst hvenær á tímabilinu þeir nýta sér þá daga. Þetta er önnur efnisbreytingin af þremur.
    Sú þriðja er að heildaraflakvóti smábátaflotans verði miðaður við 31.500 tonn sem er nánast það sama og þessi floti er að veiða á yfirstandandi fiskveiðiári. Þ.e. að það ár, sem allir eru sammála um að kvótinn er í algeru lágmarki, verði notað sem viðmiðunarár fyrir krókaleyfisflotann þannig að það gerist ekki að á sama tíma og aðrar útgerðir fá aukningu veiðiheimilda, ef hæstv. sjútvrh. tekur ákvörðun þar um, þá skerðist aflaheimildir krókaleyfisflotans.
    Þetta eru þær þrjár breytingar sem brtt. á þskj. 100 fjalla um: Að menn tengi heildaraflamark krókaveiðiflotans og fjölda sóknardaga við aflamarksákvarðanir hæstv. sjútvrh. til að tryggja að krókaleyfismenn geti fengið að njóta batnandi tíðar í fullu samræmi við aðra veiðimenn. Þetta er tillaga eitt. Tillaga tvö er að menn ákveði fjölda sóknardaga á þessu viðmiðunarári 96 og að menn séu frjálsir að því hvenær á árinu þeir nýta þá. Og í þriðja lagi að menn miði við 31.500 tonn sem aflamark krókaveiðiflotans eins og hann stefnir á í dag með að vísu mun fleiri sóknardögum. Aðrar brtt. á þingskjalinu eru einfaldlega tæknilegs eðlis til að samræma lagatextann eins og hann er nú orðinn þeim tillögum sem ég hef hér mælt fyrir.
    Virðulegi forseti. Ég ætla nú að ljúka máli mínu í þetta skipti. En ég ítreka það að miðað við yfirlýsingar og loforð sem fjölmargir stjórnarliðar gáfu kjósendum sínum ætti ekki að vera þingmeirihluti fyrir þeim tillögum sem meiri hluti sjútvn. flytur. Þá ætti að vera þingmeirihluti fyrir þeim tillögum sem við flytjum á þskj. 100. Svo er bara að bíða og sjá, virðulegur forseti, hvort ríkir sterkara í hugum hv. þm. tillitssemi við ráðherra eða tillitssemi við kjósendur sína. Ég er sannfærður um það og tala af nokkurri reynslu í þeim efnum að ráðherrar eru mjög fljótir að gleyma slíkri tillitssemi. Það er ekki víst að kjósendur þessara hv. þm. séu jafngleymnir á slíka hluti.