Stjórn fiskveiða

23. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 19:19:54 (878)

[19:19]
     Sighvatur Björgvinsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Öll lagasetning er barn síns tíma. Þegar við samþykktum breytingar á lögum um stjórn fiskveiða fyrir einu ári þá var það breyting á lögum sem gerði ráð fyrir því að krókaveiðiflotinn yrði tekinn allur undir aflamark og á hann skipt, ef ég man rétt, 5.200 tonnum. Hæstv. sjútvrh. hafði þá lagt til að aflahámarkið yrði miðað við rúmlega 13.000 tonn. Tillagan sem endanlega var gerð eftir að stjórnarflokkarnir höfðu náð um það samkomulagi var að miðað skyldi við aflareynslu síðustu þriggja ára og tekið mið af 21.500 tonnum. Það sem síðan hefur gerst er einfaldlega þetta: Það hefur verið miklu meiri fiskigengd á miðunum ekki síst á hefðbundnum miðum smærri báta heldur en nokkurn óraði fyrir og þeir hafa gert sig samseka um þann glæp, ef glæp skyldi kalla, að taka þeirri fiskgengd og skila aflanum að landi.
    Það er því alveg ljóst að fiskstofnarnir eru í uppsveiflu og ég man vel eftir því að fyrir einu ári síðan efuðust forsvarsmenn smábátamanna um að miðað við þá 136 sóknardaga sem þá var úthlutað yrði mögulegt að ná 21.500 tonna heildarársafla. En þeim hefur tekist að ná 50% meira vegna þess að það er miklu meiri fiskur í sjónum. Alþingismenn verða auðvitað að beygja sig fyrir staðreyndum og miða við þann tíma og þá reynslu sem fyrir liggur og það erum við að gera með því að taka tillit til aflareynslu krókaveiðiflotans á því fiskveiðiári sem er nú að ljúka með sama hætti og við fyrir ári síðan tókum mið af aflareynslu krókaveiðiflotans á viðmiðunarárunum þar á undan.
           [Fundarhlé. --- 19:22]