Stjórn fiskveiða

23. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 21:11:30 (882)

[21:11]
     Gísli S. Einarsson :
    Herra forseti. Ég mun ekki verða mjög langorður við þessa umræðu. Það væri að vísu ástæða til að mæla þessa umræðu ekki í klukkutímum heldur í dögum, svo mikilvægt er málið, en mér er ljóst að þrátt fyrir að ég telji að það sé verulegur meirihlutavilji í þinginu fyrir breytingartillögum sem hv. stjórnarandstöðuþingmenn hafa núna lagt fyrir, þá geri ég mér ljóst að meiri hlutinn, fylgjandi stjórn, ætlar sér að valta yfir minni hlutann þannig að ég sé ekki ástæðu til að vera með mjög langa ræðu.
    Í dag og undanfarna daga hafa komið mótmæli krókakarla og smábátaeigenda í metravís á faxi og í bréfum t.d. eins og þetta, með leyfi forseta:
    ,,Stykkishólmi, 14. júní.
    Fundur í smábátafélaginu Ægi í Stykkishólmi með bæjarstjórn Stykkishólms skorar á þingmenn að

samþykkja ekki fiskveiðistjórnarkerfi yfir okkur sem gerir okkur ókleift að stunda sjómennsku á bátum okkar sem aðalstarf. Við viljum að tekið verði upp eitt kerfi en ekki tvö til að stjórna sókn þessara báta og eigum þar við róðrardagakerfi. Minnum við þingmenn Vesturlands sérstaklega á loforð þeirra fyrir kosningar í vor varðandi smábáta.

Smábátafélagið Ægir.``


    Slíkar ályktanir og samþykktir smábátafélaganna út um allt land hafa verið að berast þingmönnum undanfarna daga. Símakvaðningar hafa verið nærri stöðugar til þingmanna sem reynt er að brýna til að fella fyrirliggjandi tillögur um málefni smábáta. Samt liggur það fyrir, herra forseti, nú í dag, í kvöld eða í nótt að komið er að úrslitastund varðandi fyrirliggjandi frv. sem við ræðum núna.
    Við 2. umr. taldi ég að rétt væri að fresta öllu málinu til haustþings. Ég er enn á þeirri skoðun. Og menn hefðu átt að vanda sig við vinnuna í sumar fram í október ef einhver meining er til staðar hjá hv. þingmönnum stjórnarmeirihlutans sem boðuðu marktækar breytingar í stjórnunarkerfi fiskveiða og sitja nú beygðir undir ofurvaldi kvótaflokkanna, framsóknar og íhalds.
    Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að draga til baka ummæli mín frá 2. umr. um hv. þm. Magnús Stefánsson, að hann hafi í kosningabaráttunni marglofað aukningu til aflamarksbáta. Auðvitað var það ekki svo samkvæmt orðanna hjóðan. Þau voru þannig sett fram að það mátti skilja hv. þm. á þann veg, en auðvitað var aðeins um ádrátt að ræða en ekki viljayfirlýsingu eða neina meiningu.
    Tillögur meiri hluta sjútvn. hafa reyndar breyst örlítið til betri vegar í meðförum hv. sjútvn. og koma þær nú örlítið í átt til þeirra fyrirheita sem gefin voru við 2. umr. En ég ætla, með leyfi forseta, að vitna til hv. þm. Kristjáns Pálssonar sem sagði í grein í Morgunblaðinu 8. apríl sl., með leyfi forseta, eftirfarandi:
    ,,Í núverandi lögum um stjórn fiskveiða eru ekki margar leiðir til að koma til móts við erfiða stöðu landróðrabáta og vinnslunnar í landi. Sú leið sem helst kæmi þar til greina er að mínu mati að úthluta til landróðrabáta aflaheimildum Jöfnunarsjóðs (áður Hagræðingarsjóðs), sem ræður yfir um 12 þúsund þorskígildum sem sjútvrh. getur ráðstafað.`` --- Og í framhaldi af þessu: ,,Stefna Sjálfstfl. er að endurskoða núverandi lög um stjórn fiskveiða þannig að hún tryggi ávallt heildarhagsmuni þjóðarinnar í veiðum, vinnslu og markaðsmálum.``
    Hvar getur að líta í fyrirliggjandi frv. áhrif hv. þm.? Ég segi það að annað liggur ekki fyrir en yfirklór í frumvarpsformi og það sem vitnað er til. Ef svo er, þá vorkenni ég hv. þm. vesöldina við að koma sínum skoðunum á framfæri.
    Mér þykir, herra forseti, lítt leggjast fyrir kappana sem telja sig vera að bylta fiskveiðistjórnunarkerfi hæstv. ráðherra Þorsteins Pálssonar og Halldórs Ásgrímssonar. Með leyfi forseta vil ég vitna til eftirfarandi orða hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar í DV 3. apríl sl., en því miður er þingmaðurinn fjarverandi. En svo segir í þessari grein, með leyfi forseta:
    ,,,,Við setjum fram þau skilyrði fyrir stuðningi við ríkisstjórn að komið verði til móts við kröfur okkar um breytta fiskveiðistjórnun. Við setjum þessa stefnu fram af fullum heilindum og það væri fullkomið ábyrgðarleysi að fylgja þessu máli ekki eftir,`` segir Einar K. Guðfinnsson, alþingismaður og efsti maður á lista Sjálfstfl. á Vestfjörðum. Fjórir efstu menn á listanum hafa sett fram kröfu um að tekin verði upp sóknar- og flotastýring. Í framhaldi af því hafa þeir lýst því yfir að þeir muni ekki styðja þá ríkisstjórn sem standi að óbreyttu kvótakerfi.``
    Menn geta svarað þeirri spurningu sem vaknaði á þessum tíma um hvort þetta væri kosningabomba sjálfir í dag. Hann svarar sjálfur á þann veg 3. apríl sl.: ,,Okkur er dauðans alvara með þetta mál. Við getum ekki, munum ekki og viljum ekki styðja þá stjórn sem ekki breytir þessu kerfi.``
    Ég spyr: Hver er að finna fyrirheit í frv. og í tillögum stjórnarliða sem lúta þessum háleitu markmiðum hv. þm., því miður fjarverandi, Einars K. Guðfinnssonar?
    Ég vil enn vitna til orða úr þessari sömu grein, með leyfi forseta:
    ,,Þessi mál verða gerð upp á vettvangi Sjálfstfl. og það fer auðvitað eftir pólitískum styrk okkar hvernig til tekst``, segir hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson. Og ég spyr hv. þm. sem vilja hugleiða málið: Er eitthvað í fyrirliggjandi tillögum sem lýtur að þeim háleitu markmiðum sem hv. þm. setti hér fram?
    Enn fremur og áfram, með leyfi forseta:
    ,,Á sameiginlegum fundi frambjóðenda á Vestfjörðum, sem haldinn var í Bolungarvík á dögunum, lýsti Guðjón A. Kristjánsson, 4. maður á lista sjálfstæðismanna``, nú hv. 1. þm. á lista sjálfstæðismanna á Vestfjörðum, ,,því yfir að hann og aðrir frambjóðendur listans höfnuðu stefnu Þorsteins Pálssonar sjútvrh. og samstarf við Framsfl. væri óæskilegt eftir kosningar.``
    Hver er svo staðreyndin, hv. þm.? Staðreyndin er sú að það sem ég hef verið að vitna til er ekki annað en kosningabombur, fyrirheit sem ekki hefur verið staðið við og ekki hefur litið dagsins ljós á neinn hátt enn.
    Virðulegur forseti. Ég óskaði svara frá hæstv. sjútvrh. við spurningum við 2. umr. um fyrirliggjandi frv. Þeim var ekki svarað. Æskilegt væri, herra forseti, að hæstv. sjútvrh. hlýddi enn á þær spurningar sem ég ætla enn að brýna hann á og biðja hann um að svara og ég vonast til þess að herra forseti geti gert ráðstafanir til að hæstv. sjútvrh. hlýði a.m.k. á spurningarnar þó að ég geti ekki gert mér væntingar um að hann svari frekar en vant er þegar til hans er beint spurningum í umræðum.
    ( Forseti (GÁ) : Forseti mun gera ráðstafanir og gengur þá hæstv. sjútvrh. í salinn.)
    Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir að koma í salinn og hlýða enn á þær spurningar sem ég hyggst leggja fyrir hann sem eru og blasa við á brésefni Landssambands smábátaeigenda og ég vil gera að mínum, með leyfi forseta:
    1. Stenst sú framkvæmd ákvæði laga um jafnræði að gera í einni sviphendingu hluta krókaflotans að verðmiklum eignum á sama tíma og hinn hlutinn er gerður verðlaus? Ég segi nei. En hvað segir hæstv. sjútvrh.?
    2. Stenst frv. ákvæði stjórnarskrár um atvinnufrelsi og eignarrétt? Ég segi nei. En hvað segir hæstv. sjútvrh.?
    3. Er frv. í samræmi við samþykktir sem Íslendingar hafa skrifað undir á alþjóðavettvangi, svo sem Ríó-sáttmálans? Ég segi nei. Hvað segir hæstv. sjútvrh.?
    4. Hafa stjórnvöld sýnt fram á að þau hafi undir höndum nægilega traust vísindaleg gögn sem réttlæta lagasetningu á borð við fram komið frv.? Ég segi nei. En hvað segir hæstv. sjútvrh.?
    Ég endurtek að því miður er það ekki háttur hæstv. sjútvrh. að svara spurningum sem til hans er beint í umræðum.
    Herra forseti. Ég leyfi mér að skora á alla viðstadda þingmenn að styðja brtt. hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, Össurar Skarphéðinssonar og Guðnýjar Guðbjörnsdóttur. Þær eru það sem ég hef trú á að um 70% þingheims geti fylgt ef menn greiddu atkvæði eftir sannfæringu sinni en ekki af tillitssemi við hæstv. sjútvrh. Það eina sem ég held að menn gætu sætt sig við er að þessir 86 dagar, sem er hámarkaður fjöldi sóknardaga, yrðu til frjálsrar ráðstöfunar. Um þetta mundi nást sátt í þinginu. Um þetta held ég að við ættum að gera verið sammála öll ef sjútvn. gæti komið sér saman um slíkt. Ég legg því til, herra forseti, að hv. sjútvn. verði gefið færi á að gera þessar breytingar, að 86 dagar verði til frjálsrar ráðstöfunar fyrir krókakarla, og þá er ég með og ég er sannfærður um að 70--80% af þingheimi munu styðja slíka tillögu.