Stjórn fiskveiða

23. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 21:29:04 (884)


[21:29]
     Gísli S. Einarsson (andsvar) :
    Herra forseti. Í Morgunblaðinu um helgina, á sjómannadeginum, voru 10 síður um þann fisk sem bátaflotinn er að kasta í sjóinn og um þann afla sem menn bera ekki að landi. Í Morgunblaðinu í gær, hv. þm. Árni R. Árnason, er önnur grein sem heitir ,,Græðgi í norðri``. Í þessu blaði tekur eyfirskur sjómaður mynd af um það bil 70 tonnum sem eru á floti í hafinu. Um leið og hv. þm. getur tryggt að umgengnin um auðlindina verði á annan hátt en hún hefur verið, þá eigum við samleið.
    Ég hef, hv. þm., í löngu máli reifað allítarlega á hvern hátt ég tel mögulegt að auka afkastagetu auðlindarinnar. Ég hef sagt: Með verðmætatengingu alls aflans eða þessara 450 þús. þorskígilda er unnt að fá allan afla að landi sem veiðist. Og það er það sem málið snýst um. Ég sagði að ég óskaði eftir því að hv. sjútvn. yrði kölluð saman og hún kannaði hvort ekki væri vilji fyrir því að veiðidagar yrðu 86 frjálsir að eigin vali fyrir krókakarla og við það stend ég að ég tel að það sé 70--80% vilji í þinginu fyrir því. Og það er nægjanlegt svar, hv. þm. Árni R. Árnason.