Stjórn fiskveiða

23. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 21:34:13 (886)

[21:34]
     Guðný Guðbjörnsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér á sér stað ákaflega merkileg umræða. Það hriktir í stoðum fiskveiðistjórnunar Þorsteins Pálssonar.
    Í stefnu Kvennalistans í sjávarútvegsmálum er m.a. lögð áhersla á að 1. gr. laganna um stjórnun fiskveiða sé virk, nefnilega að þjóðin eigi nytjastofnana, og að skylt sé að koma með allan afla að landi og tryggja með öllum ráðum að afla sé ekki hent í sjóinn. Einnig viljum við skipta fiskimiðunum í grunnsjávarmið og djúpsjávarmið og að grunnsjávarmiðin séu fyrst og fremst nýtt af íbúum nærliggjandi svæða. Við viljum að skip yfir ákveðnum stærðarmörkum veiði ekki á grunnsjávarmiðum.
    Á meðan ekki er tekið á þeim tveimur meginágöllum aflamarkskerfisins sem snerta ofannefnda þætti, þ.e. að fiskveiðiheimildir, þau gífurlegu verðmæti, eru færðar á æ færri og færri hendur á silfurfati án endurgjalds og að brottkast fisks er jafnmikið hér og annars staðar þar sem aflamark er notað við stjórnun fiskveiða, þá stríðir núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi í grundvallaratriðum gegn stefnu Kvennalistans. Þær aðferðir í fiskveiðistjórnun sem beitt hefur verið hafa hvorki náð þeim tilgangi að stuðla að verndun og uppbyggingu fiskstofnanna né að minnka fiskiskipastól landsmanna sem reyndar skiptir ekki meginmáli fyrir þá sem eru á aflamarki. Með tilliti til þessa annmarka á núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi er óhjákvæmilegt að endurmeta stjórnunaraðferðirnar með langtímasjónarmið í huga þar sem horft er til sjálfbærrar þróunar. Kvennalistinn leggur til róttæka endurskoðun á núverandi fiskveiðistjórnun til að ná þeim markmiðum að þjóðin öll njóti afraksturs auðlindarinnar, tryggð sé verndun og uppbygging fiskstofnanna og fiskiskipastóllinn verði rekinn á sem hagkvæmastan hátt. Kvennalistinn hefur lengi haft þá stefnu að tengja beri veiðiheimildir byggðarlögum þannig að auk þjóðarhagsmuna verði tekið mið af byggðasjónarmiðum við úthlutun veiðiheimilda.
    Með því að efla veiðar krókabáta eins og gert er í þeim brtt. sem ég studdi við 2. umr. og flutt er af minni hluta sjútvn. og þeim brtt. sem ég flyt nú ásamt þeim Össuri Skarphéðinssyni og Sighvati Björgvinssyni, þá er verið að efla veiðar með vistvænum veiðarfærum og það er verið að auka líkurnar á því að grunnsjávarmiðin séu nýtt af íbúum nærliggjandi byggðarlaga. Ég ætla ekki að endurtaka allt það sem þegar hefur komið fram um þær brtt. sem ég stend hér að, en meginefni þeirra er:
    1. Að sóknardagar verði 95 og að heimilt verði að flytja þá á milli árshluta að vild. Þetta ætti að gera þessar veiðar bæði hagkvæmari, skemmtilegri og öruggari en annars og gefa veiðimanninum það frelsi sem hann hlýtur að sækjast eftir.
    2. Þá leggjum við til að ef heildaraflamarki hvers árs er breytt samkvæmt ákvörðun sjútvrh., þá skuli fjöldi sóknardaga krókabáta taka hlutfallslega sömu breytingum. Við kvennalistakonur viljum sem sagt efla þessar vistvænu veiðar og þess vegna finnst okkur mjög sanngjarnt að þeir njóti þarna sama bata og aðrir og taki þá væntanlega líka á sig sömu skerðingar.
    3. Þá leggjum við til að aflahámark krókaveiðibáta verði hækkað úr 21 þúsund tonni í 31.500 tonn. Og hvers vegna? Er eitthvert réttlæti í því eða hef ég kannski bara orðið fyrir þrýstingi frá þeim ágætu gestum sem hafa verið á pöllunum núna þessa dagana og eru hér nú? Nei, 31.500 tonn er sá afli sem þeir hafa veitt í ár og um leið og ég styð það að efla vistvænar krókaveiðar, þá bendi ég á að þau skip sem eru á aflamarki eru mörg hver mun stærri en krókaveiðibátarnir og þau hafa því mun meiri möguleika en krókaveiðibátarnir til að veiða utan lögsögunnar. Því tel ég fullkomlega réttlætanlegt að tekið sé mið af því að ekki hefur tekist að fækka krókaveiðibátum og að nauðsynlegt sé að horfast í augu við ástandið eins og það er. Með þessu er ég því að velja vistvæn veiðarfæri umfram önnur.
    Þó að krókaveiðikarlarnir á pöllunum hafi vafalaust haft einhver áhrif á mín sjónarmið í þessu máli, þá legg ég áherslu á að það sem ég hef fyrst og fremst lært af þeim með því að hlusta á þeirra sjónarmið er hversu margbreytilegur hópur krókaveiðisjómenn eru. Þeir eru á mjög misstórum bátum með mismörg og mismunandi veiðarfæri, þeir eru frá mismunandi landshlutum og hafa því mjög skiptar skoðanir. Ég er því enn þá sannfærðari en áður að stefna Kvennalistans um byggðakvóta sem yrði úthlutað af kjörnum fulltrúum viðkomandi byggðarlaga er mun eðlilegri stefna en að miðstýra öllu héðan frá Reykjavík eða frá Alþingi eða ráðuneytinu. Ég legg áherslu á að ég styð ofannefndar brtt. vegna þess að ég tel að það sé bæði þjóðarheill og í samræmi við stefnu Kvennalistans.
    Ég hef haft aðstöðu til að kynna mér alþjóðlega umræðu um stjórnun fiskveiða á undanförnum mánuðum og sannfærist æ betur um réttmæti byggðakvóta og um annmarka kvótakerfisins sem er byggt á mjög vafasömum og umdeildum arðsemishugtökum hagfræðinga. M.a. er ég hérna með skýrslu um brottkast, alþjóðlega rannsókn á því, og þetta er fylgifiskur aflamarks út um allan heim og við verðum að taka á þessum vanda.
    Kvótakerfið er nú æ víðar gagnrýnt, ekki síst vegna þess hversu miklum afla er kastað. Það má vera að það sé hagkvæmast út frá einhverjum ákveðnum sjónarmiðum, en það þjónar hagsmunum æ færri aðila og því verður aldrei sátt um það kerfi fyrr en krókaveiðar verða stundaðar af meira frelsi og veiðileyfagjaldi verði komið á. Að því mun ég stefna á komandi kjörtímabili.