Stjórn fiskveiða

23. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 22:33:51 (892)


[22:33]
     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Herra forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson lýsti því skörulega héðan úr ræðustól að eitt það versta við róðrardagakerfi væri einmitt að því væri skipt í sóknartímabil vegna þess að það var hans skoðun að slíkt mundi auka slysahættu. Honum tókst ekki að koma því út. Honum tókst heldur ekki að koma út þeirri staðreynd að þetta kerfi byggir í raun á viðbótarbanndögum sem eru grunnur útreikninga á fjölda róðrardaga og það skiptir heldur engu máli.
    Staðreyndin er einfaldlega þessi: Úr þessum ræðustól bauð hann mér að fylgja tillögu frá sér, sem ég taldi að hann ætlaði að búa til, um að auka heildaraflamark krókabátaflotans um 10 þúsund tonn. Ekki nóg með það, herra forseti, hann hafði við mig samband og bað mig að aðstoða sig við að gera þessa tillögu sem ég gerði. Ég sé ekkert sem réttlætir að hann heykist á því að flytja þessa tillögu. Hins vegar veit ég að hann er drengur góður og hefur stórt hjarta og hann sér það nú að ég á kannski við ofurefli að etja hér í kvöld varðandi þá tillögu og þess vegna bið ég hann um að flytja þessa tillögu með mér. Þorir hann það?