Stjórn fiskveiða

23. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 22:36:29 (895)


[22:36]
     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég hef aldrei litið svo á að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson væri 2. persóna. En ég vil segja að það sem kom þó fram í þessu andsvari hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni er nákvæmlega það að hann er hæstánægður með það sem hér liggur fyrir. Hann er hreykinn af því að það er hægt að svissa svolítið til sóknardögum á milli tímabila. Hann veit hins vegar ekkert hvernig útfærslan er á því, nákvæmlega ekki neitt. En það skiptir ekki meginmáli. Kerfið sem við höfum öll verið að gagnrýna, þ.e. banndagakerfi í núverandi formi, er þrælakerfi, það er rétt hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni.
    Ég segi það hins vegar: Það sem hann býður hér upp á í dag er engu síður þrælakerfi, kerfi sem er þannig að það er verið að þvinga þá sem hafa bærilega veiðireynslu inn undir kvóta sem mun leiða til þess að 250 smábátar sem hafa aflareynslu upp á svona 24 tonn í slægðum þorski munu taka það. Það eru 56% af heildarpottinum. Þá eru eftir 10 þúsund tonn og um það eiga að slást 825 krókabátar á því sóknardagakerfi sem hv. þm. stærir sig af hérna. Hvað halda menn að það þýði? Auðvitað þýðir það ekkert annað en fjöldagjaldþrot, atvinnuleysi og það sem er allra vest, stóraukna slysahættu.