Samningur milli Íslands og Færeyja um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

23. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 23:42:40 (905)


[23:42]
     Össur Skarphéðinsson :
    Herra forseti. Ég er samþykkur nefndarálitinu sem liggur fyrir og tel að það sé nauðsynlegt að þingið fyrir sitt leyti staðfesti þennan samning milli Íslands og Færeyja um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum. Ég hef hins vegar fyrirvara og tel rétt að skýra hann.
    Nú er það svo að eins og fram kom í máli hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar felast gríðarmiklir framtíðarhagsmunir í vexti og viðgangi norsk-íslenska síldarstofnsins. Það var gífurlegt áfall fyrir íslenskt þjóðarbú þegar stofninn hrundi seint á 7. áratugnum og það er algerlega nauðsynlegt að það komi skýrt fram og ekki síst að hæstv. ríkisstjórn geri sér glögga grein fyrir því að ábyrgðin á hruni stofnsins er alfarið Norðmanna. Það er ekki með nokkru móti hægt að koma með sannfærandi rök fyrir því að Íslendingar hafi með ofveiði drepið þennan stofn. Það liggja fyrir staðreyndir sem því miður allt of fáir virðast vera meðvitaðir um og þær felast í eftirfarandi, herra forseti:
    Allar götur frá 1950, a.m.k. frá árinu 1951, stunduðu Norðmenn stórfelldar sveiðar á smásíld. Það voru þessar smásíldarveiðar sem leiddu til hruns stofnsins. Átta sinnum frá árinu 1951 til ársins 1968 veiddu þeir svo mikið af síld sem flokka má undir ungsíld, á aldrinum frá 0--4 ára, að innan við 10% af nýliðuninni komst upp og sameinaðist fullorðna hrygningarstofninum. Það kom jafnvel fyrir einu sinni að einungis eitt prómill komst upp og þetta var það sem norskir fræðimenn sögðu sjálfir árið 1980 að hefði leitt til hruns stofnsins. Norðmenn og þá norsk stjórnvöld sérstaklega hafa reynt að færa rök að því að það hafi verið stórsíldarveiðar Íslendinga norðan og norðaustan Íslands sem leiddu til hrunsins. Það er mjög orðum aukið svo að ekki sé meira sagt. Ég hef áður rakið þetta hér í ræðu. Ég bendi á að það komu ár þar sem Norðmenn voru að taka tugi milljarða smásílda á meðan Íslendingar tóku einungis um 6 milljarða sílda á mesta aflaárinu 1967. Ég tel þess vegna að Íslendingar eigi heimtingu á afskaplega drjúgri hlutdeild úr stofninum. Stofninn er í vexti. Þegar hann var hvað stærstur var hann 10 millj. tonna. Fræðimenn hafa sýnt fram á það með góðum rökum að þegar stofninn er kominn yfir 2,5 millj. tonna er líklegt að góðir árgangar klekist undan slíkum stofni. Nú er stofninn kominn í 3 millj. tonna þannig að það er ljóst að hann er kominn yfir hinn krítíska þröskuld.
    Það hefur líka tekist, m.a. fyrir tilstyrk og þrýsting íslenskra vísindamanna, að hefta allar veiðar Norðmanna á smásíld. Þess vegna tel ég líklegt að á næstu árum muni stofninn stækka mjög mikið og ekki síst vegna þess að árferði í sjónum er gott og mikil áta. Þarna er því um mikla hagsmuni að tefla.
    Ég vek eftirtekt á því, herra forseti, að á öllum síldarárunum miklu, allar götur frá 1950 og til þess tíma þegar veiðum var hætt, þegar stofninn hrundi, þá voru einungis tveir árgangar sem stóðu undir allri þessari gríðarlegu síldveiði, árgangurinn frá 1950 og 1959. Allir hinir voru ofveiddir á unga aldri þannig að þeir komust ekki upp til þess að styrkja stóra stofninn. Til að mynda vek ég eftirtekt á því að svo langt sem árið 1964 var það árgangurinn frá 1950 sem stóð enn undir 65% af veiðinni.
    Nú blasir það við að tekist hefur að hefta veiðar Norðmanna á smásíld. Hrygningarstofninn er kominn í drjúga stærð, það er að vænta góðra árganga undan síldinni og það sem mest er um vert: nú liggur það fyrir að síldin hefur tekið upp sitt fyrra göngumunstur. Fréttir frá því í gær herma að færeysk skip hefðu fundið síld á Rauða torginu svokallaða sem voru vetursetustöðvar síldarinnar áður.
    Þegar síldin hefur tekið upp þetta göngumunstur blasa við eftirfarandi staðreyndir: Fullorðin hrygningarsíld úr þessum stofni dvelur einungis í norskri lögsögu tvo mánuði á ári. Hún mun dvelja í eða í grennd við íslensku efnahagslögsöguna 7--8 mánuði á ári. Þar með er alveg ljóst samkvæmt þessu að við hljótum að geta krafist verulegrar hlutdeildar úr stofninum, ekki síst vegna þess að það er á ætisslóðinni norðan og norðaustan Íslands sem síldin fitar sig og það er sú íslenska fita sem gerir síldina miklu verðmeiri eftir dvölina að sumrinu til við Ísland.
    Ég segi þess vegna, herra forseti, ég tel ekki hægt að láta Norðmenn skammta okkur úr hnefa. Og ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að hvað sem hæstv. ráðherrar segja um geysileg vonbrigði þeirra yfir því sem Norðmenn buðu hef ég efasemdir um að þeir hafi haft uppi rétta samningatækni og ég fullyrði að þeir létu Norðmenn skammta sér úr hnefa. Þrátt fyrir yfirlýsingar þeirra um annað. Það liggur fyrir að kvótinn sem talið er ráðlegt að veiða úr þessum stofni í dag er í kringum 900 þúsund tonn. Norðmenn tóku 650 þús. tonn. Eftir eru því 250 þúsund tonn. Og hvað var það sem Íslendingar gerðu sér að góðu? Það voru 250 þús. tonn. Ég get ekki dregið aðra ályktun en þá að okkur hafi verið skammtað úr hnefa af Norðmönnum.
    Það er að vísu svo að í 6. gr. samningsins sem við leggjum til í utanrmn. að verði staðfestur er tekið fram að þessi samningur hafi ekkert fordæmisgildi. Ég vil ekki hafa mörg orð um það. En ég þekki engan samning sem gerður hefur verið nokkru sinni í sögu mannkynsins sem ekki hefur haft fordæmisgildi inn í framtíðina.
    Herra forseti. Ég hef fyrirvara um þann tonnafjölda sem getið er um í samningnum og hef leitt rök að því hvers vegna ég er ekki ánægður með þá tölu, en ég tel að miðað við allar aðstæður sé rétt að þessi samningur verði staðfestur og mæli með því.