Stjórn fiskveiða

23. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 00:10:22 (911)


[00:10]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Virðulegi forseti. Þó það sé vissulega svo að ýmis ákvæði þessa frv. hafi batnað í meðförum þingsins er það engu að síður eftir sem áður meingallað að okkar mati og við erum í raun andvíg ýmsum ákvæðum þess. En kæmi til þess hins vegar að þetta frv. yrði fellt væri það ávísun á að óbreytt banndagakerfi yrðu örlög krókaveiðimanna á næsta fiskveiðiári með öllum þeim þrengingum sem því mundi fylgja. Í ljósi þessara aðstæðna kjósum við að sitja hjá við endanlega afgreiðslu málsins. Í því felst ekki stuðningur við það á nokkurn hátt heldur þvert á móti, með vísan til þess sem ég hef áður sagt, þá teljum við frv. meingallað og væri að mörgu leyti, ef ekki væru uppi þessar aðstæður, eðlilegast að greiða atkvæði gegn því. En við sitjum hjá við endanlega afgreiðslu málsins í ljósi þessara aðstæðna.