Alþjóðaviðskiptastofnunin

23. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 00:18:59 (914)


[00:18]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil láta koma fram við lokaafgreiðslu þessa máls að vissulega markar þessi niðurstaða þáttaskil hér á landi og mun hafa mikil áhrif og hvað sem fullyrðingum líður um að GATT og þau áform nái ekki fram að ganga mun íslenskur landbúnaður nú standa frammi fyrir miklum breytingum og verða að aðlaga sig þeim. Þær breytingar verða margar sársaukafullar. Ég vil þó sérstaklega taka fram hér að ég óttast hag garðyrkjunnar, gróðurhúsanna, við þessar aðstæður. Það gerist nú að sá atvinnuvegur fer heldur illa út úr þessu. Til viðbótar sætti hann því við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið að fá þar á sig tollalausan innflutning. Ég vil segja hér og skora á hæstv. landbrh. og ríkisstjórnina að taka málefni garðyrkjubænda sérstaklega til athugunar við þessa niðurstöðu, hvernig hægt er að bæta starfsumhverfi greinarinnar í landinu og gera henni kleift að takast á við þá óhjákvæmilegu samkeppni sem nú blasir við.