Úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna

24. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 00:29:15 (919)


[00:29]
     Sighvatur Björgvinsson :
    Virðulegur forseti. Það eru aðeins örfáar spurningar.
    Í fyrsta lagi varðandi ákvæði 4. gr. þar sem rætt er um ákvörðun um fiskverð í viðskiptum milli óskyldra aðila. Þar er gert ráð fyrir að takist ekki samningur geti úrskurðarnefnd tekið ákvörðun um verð í öllum slíkum viðskiptum og gildistími ákvörðunar nefndarinnar geti verið allt að þrír mánuðir. Þá er mín spurning sú: Er þá sú ákvörðun nefndarinnar bindandi fyrir viðskipti milli allra þeirra aðila sem kunna að koma við sögu á gildistímanum eða er ákvörðunin bara bindandi gagnvart þeim eina aðila sem til stendur að eiga viðskipti við um einn farm? Í því sambandi get ég t.d. nefnt að nú er loðnuskip sem gerir samninga við loðnuverksmiðju um að landa þar afla sínum í eitt skipti. Náist ekki samningar getur viðkomandi úrskurðarnefnd úrskurðað. Sá úrskurður getur gilt í þrjá mánuði. Og er sá úrskurður þá bindandi fyrir öll viðskipti loðnuveiðiskipsins á öllum þeim tíma við óskylda aðila hversu margir sem þeir kunna að vera? Ef svo er erum við raunverulega að taka upp fiskverðsákvarðanir að nýju samkvæmt gamla kerfinu um

ákvörðun fiskverðsnefndar.
    Í öðru lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra um ákvæði í 5. gr. þar sem segir: ,,Skal í því sambandi`` --- við ákvörðun nefndarinnar það er að segja --- ,,tekið mið af verði í nærliggjandi byggðarlögum fyrir sambærilegan fisk að stærð og gæðum.`` Síðan segir: ,,Þá skal nefndin taka tillit til líklegrar þróunar afurðaverðs.`` Mig langar til að forvitnast um hjá hæstv. ráðherra hvernig það á að gerast, hvernig úrskurðarnefndin getur tekið ákvörðun um líklega þróun afurðarverðs kannski þrjá mánuði fram í tímann. Það hefði ég mikinn áhuga á að vita hvernig ætti að framkvæma.