Úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna

24. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 00:32:43 (921)


[00:32]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Það er í sjálfu sér ekki tilefni til að ræða þetta mál mikið eins og málin standa í augnablikinu heldur eðlilegt að bíða niðurstöðu í þeim samningaviðræðum sem nú standa yfir og vonandi eru nú að leiða til niðurstöðu --- ef ekki hefur nú þegar verið undirritað samkomulag gerist það vonandi á næstunni --- og taka þá málið fyrir. Ég tel eðlilegt að deiluaðilar verði kallaðir fyrir sjútvn. og ég bendi á að að mörgu leyti er ekki síður eðlilegt að leggja spurningar um einstök atriði fyrir þá þar sem hér er verið að lögfesta samkomulagsfarveg í deilu sem deiluaðilar hafa orðið ásáttir um að setja á laggirnar með tilstyrk löggjafans. Þannig er kannski ekki síður þeirra að svara fyrir um hvernig menn sjá fyrir sér einstök framkvæmdaatriði málsins en hæstv. sjútvrh., enda honum ætlað það hlutverk fyrst og fremst í þessu máli að tilnefna oddamann í úrskurðarnefnd í samráði við deiluaðila. Þar sem hv. þm. á einnig sæti í sjútvn. veit ég að hann getur átt þess kost að koma sínum spurningum þar á framfæri. Verði eitthvað annað óljóst í meðferð málsins er rétt að bíða og sjá til að á það reyni hér, þ.e. í kjölfar þess að samningar hafa verið undirritaðir, og málið komi til frekari umfjöllunar Alþingis.