Málefni Brunamálastofnunar

25. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 10:31:26 (930)


[10:31]
     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Undanfarna daga hafa málefni Brunamálastofnunar ríkisins verið töluvert í umræðunni og ekki von á öðru þar sem allir stjórnarmenn Brunamálastofnunar hafa sagt af sér og gildir það bæði um aðalmenn og varamenn. Stjórn stofnunarinnar er skipuð samkvæmt lögum um brunavarnir og brunamál, nr. 41/1992. Fulltrúa í stjórnina skipa félmrh., Samband ísl. sveitarfélaga, Samband ísl. tryggingafélaga, Brunatæknifélag Íslands og Landssamband slökkviliðsmanna. Jafnframt sagði skólanefnd Brunamálaskólans af sér, bæði aðalmenn og varamenn. En skólanefndin er skipuð einstaklingum með sérþekkingu og reynslu í brunamálum samkvæmt ákvæðum reglugerðar þar um.
    Það er ljóst að þekking þeirra fulltrúa sem sæti áttu í skólanefnd og stjórn, hvort sem um er að ræða aðalmenn eða varamenn, spannar alla helstu þætti brunamála.
    Eins og fram hefur komið í fréttum og í afsagnarbréfum stjórnarmanna er ástæða þess að allt þetta fólk, 15 manns, segir af sér, ákveðnir samstarfsörðugleikar milli stjórnar og yfirmanns stofnunarinnar. Það er vissulega áhyggjuefni þegar stjórn svo mikilvægrar stofnunar segir öll af sér svo að ekki sé talað um skólanefnd Brunamálaskólans sem er sú stofnun sem menn bundu miklar vonir við og er hluti af Brunamálastofnun en þannig töldu menn að bestur árangur og heildaryfirsýn yfir alla þætti menntunar og fræðslumála næðist svo að nýting tækja, búnaðar og húsnæðis stofnunarinnar yrði með lágmarkstilkostnaði.

    Stjórn stofnunarinnar gegnir ábyrgðarmiklu hlutverki. Ábyrgðin er jafnvel meiri en stjórnir annarra opinberra fyrirtækja bera að jafnaði. Samkvæmt lögum skal stjórn Brunamálastofnunar ríkisins hafa eftirlit með rekstri og starfsemi stofnunarinnar og eftirlit með því að fylgt sé ákvæðum laga og reglna sem um stofnunina gilda. Stjórnin á jafnframt að móta stefnu stofnunarinnar í samráði við brunamálastjóra og hún ber ábyrgð gagnvart ráðherra. Brunamálastjóri veitir stofnuninni forstöðu og ber ábyrgð gagnvart stjórninni.
    Mér hafa borist nokkrar fundargerðir Brunamálastofnunar en þær eru samkvæmt ákvörðun fyrrv. stjórnar öllum opnar. Fundargerðirnar bera það með sér að afsögn þessara stjórnarmanna á sér langan aðdraganda. En 31. des. 1994 ritar stjórnin þáv. félmrh. bréf þar sem stjórnin lýsir áhyggjum sínum varðandi fjármál stofnunarinnar og má skilja að stjórnin telji sig ekki hafa aðgang að þeim gögnum sem hún þurfi til að geta sinnt því eftirliti með stofnuninni sem henni ber að gera. Í niðurlagi bréfsins segir, með leyfi forseta:
    ,,Ef ekki verða nú þegar gerðar af hálfu ráðuneytis ráðstafanir til að bæta það ástand sem að framan er lýst og nú ríkir við stjórnun Brunamálastofnunar ríkisins er augljóst að stjórnarmenn geta ekki við það unað lengur og hljóta að lýsa ábyrgð á hendur ráðuneyti og jafnframt snúa sér hver til síns tilnefningaraðila.``
    Undir bréfið rita allir þáverandi stjórnarmenn. Þáv. félmrh. biður í framhaldi þessa bréfs Ríkisendurskoðun um úttekt á stofnuninni.
    Ég ætla ekki að rekja lið fyrir lið þær athugasemdir sem Ríkisendurskoðun gerir en sumar hverjar tel ég alvarlegs eðlis. Niðurstaða stjórnar Brunamálastofnunar er að aðfinnslur Ríkisendurskoðunar séu mjög alvarlegar, en í athugasemdum stjórnar og í bréfi hennar til hæstv. félmrh. segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Eins og fram kemur í athugasemdum stjórnar hefur stjórnin ekki getað framfylgt lagalegum skyldum sínum við eftirlit með fjárreiðum stofnunarinnar. Að mati stjórnar er ástandið það alvarlegt að stjórnarmenn telja sig ekki lengur geta borið ábyrgð gagnvart ráðherra á stjórn Brunamálastofnunar.``
    Þá segir í athugasemdum stjórnar vegna skýrslu Ríkisendurskoðunar, með leyfi forseta:
    ,,Stjórn Brunamálastofnunar ríkisins lítur það mjög alvarlegum augum hve víða virðist vera pottur brotinn í meðferð á almannafé. Stjórnin harmar það að hafa ekki getað fullnægt lagalegum skyldum sínum við eftirlit með fjárreiðum stofnunarinnar vegna samstarfsörðugleika. Eins og athugasemdir Ríkisendurskoðunar bera með sér er augljóst að ekki er nægjanlegt eftirlit og aðhald í rekstri stofnunarinnar. Stjórn Brunamálastofnunar ríkisins getur ekki og vill ekki taka þátt í rekstri opinberrar stofnunar þar sem farið er með almannafé á þennan hátt.``
    Virðulegi forseti. Þegar öll stjórn stofnunar og skólanefnd, alls 15 manns, segir af sér með þessum orðum er það alvarlegur hlutur. Því spyr ég hæstv. ráðherra:
    1. Hvernig hyggst hæstv. ráðherra bregðast við því að allir aðalmenn og varamenn stjórnar og skólanefndar hafa sagt af sér í fullu samráði við þá aðila er tilnefndu þá til stjórnarsetu?
    2. Mun ráðherrann beita sér fyrir því að þessir sömu aðilar tilnefni í stjórn Brunamálastofnunar án undangenginnar rannsóknar á því hvers vegna þessi staða er nú komin upp í þessari mikilvægu stofnun?
    3. Hyggst ráðherrann ræða við þá aðila sem tilnefna eiga í stjórnina um ástæður þess að fulltrúar þeirra hafa nú beðist lausnar eða telur hæstv. ráðherra að stjórn stofnunarinnar hafi haft tækifæri til að starfa samkvæmt því umboði sem stjórninni er veitt í lögum og rekstur stofnunarinnar sé samkvæmt þeim reglum sem í gildi eru um bókhald og ráðstöfun fjár í ríkisstofnunum?
    4. Er það skoðun hæstv. ráðherra að allt sé með felldu í rekstri Brunamálastofnunar ríkisins? Telur hann að aðfinnslur Ríkisendurskoðunar séu ekki alvarlegri en svo að þær kalli ekki á aðgerðir af hálfu ráðuneytisins eins og mér finnst koma fram í bréfi sem ráðuneytið ritar stjórn síðast í maí?