Málefni Brunamálastofnunar

25. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 10:55:06 (936)


[10:55]
     Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) :
    Herra forseti. Það liggur náttúrlega alveg ljóst fyrir að það hafa verið samstarfsörðugleikar í Brunamálastofnun milli stjórnar og framkvæmdastjóra. En sjaldan veldur einn þá tveir deila og ég tel enga ástæðu til að taka einhliða afstöðu að óathuguðu máli með öðrum aðilanum.
    Ég vil taka það fram að mér hefur borist ályktun, dags. 11. maí, frá fundi sem haldinn var í tengslum við ráðstefnu slökkviliðsstjóra á Hótel Loftleiðum 11. maí 1995: ,,Lýsa eftirtaldir slökkviliðsstjórar stuðningi við það starf sem Brunamálastofnun hefur unnið á undanförnum missirum.`` Og undir þetta skrifa hvorki meira né minna en 15 slökkviliðsstjórar. Einhliða fordæming á starfi brunamálastjóra tel ég að sé ekki að sjá í því.
    En það sem máli skiptir er það að brunamál eru ekki í einhverju sérstöku ólagi á Íslandi. Miðað við Norðurlönd t.d. er lægra hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu sem eru bætt brunatjón á Íslandi en á öðrum Norðurlöndum. Það eru færri menn sem á undanförnu tíu ára tímabili hafa farist í eldsvoðum á Íslandi en á öðrum Norðurlöndum, þ.e. 0,62 á ári á 100 þús. íbúa. Í Danmörku er hlutfallið 1,29, í Svíþjóð 1,52, í Noregi 1,64 og í Finnlandi 2,32.
    Ríkisendurskoðun tók ekki undir allar þær ásakanir sem stjórnin sendi. Ríkisendurskoðun fór yfir þetta og gerði þær ekki að sínum og ég verð að taka Ríkisendurskoðun trúanlega. Ég held að það sé rétt að menn kynni sér þessa skýrslu. Það er rétt að félmrn. bað um hana og það var eðlilegasti farvegurinn að fá Ríkisendurskoðun til þess að líta á þetta mál því að þetta eru ekki fyrstu ávirðingarnar sem fyrrverandi stjórn ber á brunamálastjóra og ég treysti Ríkisendurskoðun til þess að hafa gert þetta samviskusamlega. En ég sé enga ástæðu til þess að halda skýrslunni eitthvað leyndri. Ég tel að Brunamálastofnun, herra forseti, sé ekki óstarfhæf, það sé ofmælt. Hins vegar liggur það ljóst fyrir að það þarf að huga þarna að skipulagi og endurbæta það og m.a. kann að koma til greina að flytja þessa stofnun út á land.