Framleiðsla og sala á búvörum

25. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 11:53:53 (957)


[11:53]
     Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) :

    Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hefur farið fram um frv. sem hefur öll verið málefnaleg. Auðvitað ætla ég ekki á þessu stigi að blanda mér í deilur manna um afrek fyrri ríkisstjórna og leiði það hjá mér en ég þakka fyrir umræðuna um frv.
    Ég þakka líka hv. landbn. fyrir það hvernig hún hefur staðið að sinni vinnu og að málið skuli hafa fengið skjótan framgang því það er vissulega rétt að það kom seint fram. Það kom of seint fram af því að það var boðað strax í upphafi að til stæði að leggja fyrir frv. um breytingu á svokölluðum búvörulögum. Vissulega tafðist að koma því inn í þingið og því meiri ástæða er til að þakka hv. landbúnaðarnefndarmönnum fyrir framgang þeirra að málinu.
    Ég felli mig út af fyrir sig við þær breytingar sem hér hafa verið gerðar sem varða dagsetningar þar sem eru sett inn tímabundin ákvæði í báðar efnisgreinarnar sem máli skipta, 1. og 3. gr. Ég tek undir með hv. þm. Agli Jónssyni að ég hefði að vísu viljað að tíminn á haustþingi væri gefinn nokkuð rýmri en til 1. nóvember. En ég lýsti því yfir við 1. umr. um frv. að við þyrftum ekki að hafa áhyggjur af þeirri dagsetningu sem var þar fyrst tilgreind, 1. mars 1996, þ.e. frestun frá 15. sept. 1995 til 1. mars 1996, við gætum fært hana til. Mér finnst nokkuð þrengt að að það skuli vera 1. nóvember 1995, ég hefði viljað sjá þar aðeins meira svigrúm en eins og hv. þm. sumir hafa nefnt leggur þetta bara meiri áherslu á að vinna hratt og vel. Vissulega er þörf á að gera það þó svo að ég verði nú líka að láta það kom fram að það er kannski dálítið mikið sagt eins og einhver hv. þm. nefndi að það yrði að leiða til þess að viðunandi lausn fyndist fyrir bændastéttina. Ég býst við að það yrði nánast kraftaverk ef okkur tækist að ná fram svo mikilli breytingu sem nauðsynleg er þannig að allir gætu sagt að þeir teldu það viðunandi. Við skulum setja okkur það markmið að glíma við vandann og ná þeirri bestu lausn sem við getum náð og í sem mestri sátt við bændastéttina en ég óttast hins vegar að ekki fari allir ósárir frá þessari glímu eins og staðan er nú. Þess vegna er mikið sagt að segja að það geti orðið viðunandi lausn fyrir alla aðila. En auðvitað munum við reyna að gera okkar besta.
    Ég tek líka undir það sem kom fram hjá sumum hv. þm., m.a. hv. 11. þm. Reykn. sem nefndi að það yrði haft samráð við þingið í gegnum landbn. Landbn. fengi að fylgjast með því sem verður unnið að í sumar og fyrir haustið og auðvitað er það bæði sjálfsagt og ég hygg líka nauðsynlegt til þess að flýta fyrir afgreiðslu mála þegar þing kemur saman hér í haust. Ég mun leggja mig fram um að reyna að eiga sem allra best samstarf við alla hv. þm. sem skipa landbn. sem verða síðan tengiliðir eða upplýsingaaðilar inn í þingflokka sína.
    Ég tek líka undir það með hv. 11. þm. Reykn. að það er ekki góð aðferðafræði að vera með verðjöfnun á þessum erlendu mörkuðum eða því verði sem fæst fyrir kjöt sem selt er á erlendum mörkuðum. Auðvitað þarf að þróa sölumennskuna á annan hátt en hefur verið gert. En þó er kannski ekki auðvelt að bera þetta saman við t.d. það sem við höfum mesta reynslu af og þekkingu í og best hefur tekist til í sambandi við sölu á fiskafurðum, þ.e. sölustarfsemi sjávarútvegsins, því þar eru menn að selja inn á markaði sem kalla eftir þessari vöru og við höfum kosti á og möguleika á að ná þar verði sem við verðum a.m.k. að telja ásættanlegra en það sem við höfum þurft að búa við í sambandi við landbúnaðinn, kjötframleiðsluna og kjötsöluna. Þar erum við oftar en ekki að reyna nánast að neyða okkar ágætu vöru inn á markaði sem eru meira og minna fullir eða jafnvel hálflokaðir fyrir landbúnaðarvörum frá öðrum ríkjum. Nú ætti þetta vonandi að breytast og við skulum vona að GATT-samningurinn margumræddi opni okkur líka möguleika til þess að eiga auðveldara með að koma vörum okkar á hina erlendu markaði en hefur verið a.m.k. nú um skeið. Annað sem líka gerir mismun á milli annars vegar sjávarútvegs og hins vegar landbúnaðarafurðanna eða kjötsölunnar okkar er að verðin í sjávarútveginum hafa verið líkari. Þau hafa auðvitað ekki verið eins en það hefur ekki verið eins mikið bil eins og við horfum á í kjötsölunni þar sem við erum annars vegar að selja kjöt fyrir rúmar 100 kr. kg inn á tiltölulega stóra markaði. Ég nefni Japan þar sem við höfum selt undanfarin tvö ár um og yfir 100 tonn --- 1993 voru það meira að segja u.þ.b. 200 tonn sem fóru á Japansmarkað --- fyrir rúmar 100 kr. og á annað hundrað tonn á síðasta ári fyrir svipað verð. Síðan seljum við á aðra markaði fyrir 200, 300 eða jafnvel 400 kr. kg. Þá sjáum við að hér er um að ræða allt allt aðrar aðstæður en eru í sjávarútveginum. Þetta vildi ég láta koma fram, hæstv. forseti, án þess að eyða í það lengri tíma.
    Ég vil líka taka undir það sem komi fram í máli hv. þm. Árna M. Mathiesens að auðvitað verða Bændasamtökin að taka sjálf á sínum málum og vinna í þessum sölumálum. Hugmynd sem hér var nefnd að hefði komið fram á fundi hv. landbn. um stofnun sölusamtaka er að sjálfsögðu þeirra mál, hvernig þeir standa að því, og þá von til þess að þeir geti tekið þessi mál þannig í sínar hendur að löggjafinn eða stjórnvöld þurfi sem minnst eða í það minnsta minna að koma að málunum. En þetta er bara þróun og auðvitað langtímaþróun þannig að ég þakka fyrir það viðhorf sem hefur komið fram hjá hv. þm. um að það þurfi að gefa svigrúm til að móta stefnu í þessum málum og við munum reyna að nýta sumarið vel. Því eins og margoft hefur komið fram og ekki síst í 1. umr. um þetta frv., þá er brýnt að taka á málum og vinna vel þannig að við horfum fyrr en síðar á einhverjar lausnir, bæði lausn á þessum bráðavanda, sem svo hefur verið kallaður, en svo ekki síður lausn hvað varðar starfsgrundvöll landbúnaðarins til lengri tíma. Það er ekki síst mikilvægt fyrir landbúnaðinn og fyrir þessa atvinnugrein að starfa í umhverfi eins og allar aðrar atvinnugreinar þar sem menn sjá stefnumótun til lengri tíma en ekki bara alltaf eilífa glímu við vandamál dagsins. Stundum eru það nú reyndar vandamál gærdagsins, það eru ekki einu sinni morgundagsins,

en við þurfum að komast til þess að líta til lengri tíma.
    Ég vil endurtaka þakkir mínar til hv. landbn. og hv. þm. sem þar starfa fyrir að bregðast fljótt og vel við og að það skyldi hafa náðst samstaða um málið í nefndinni þó auðvitað séu menn með einstaka fyrirvara.