Stjórnarskipunarlög

25. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 12:09:11 (959)


[12:09]
     Frsm. stjórnarskrárnefndar (Ragnar Arnalds) :
    Virðulegi forseti. Stjórnarskrárnefnd þingsins hefur fjallað um 2. mál þessa þings, frv. til stjórnarskipunarlaga. Í þessu tilviki er um að ræða 43. gr. stjórnarskrárinnar sem er umorðuð og er gerð tillaga um í frv. að svo verði orðuð, með leyfi forseta:
    ,,Endurskoðun á fjárreiðum ríkisins, stofnana þess og ríkisfyrirtækja skal fara fram á vegum Alþingis og í umboði þess eftir nánari fyrirmælum í lögum.``
    Í 2. gr. er sérstaklega tekið fram að umboð þingkjörinna yfirskoðunarmanna ríkisreiknings falli úr gildi er þeir hafi lokið skoðun sinni á ríkisreikningi fyrir árið 1994.
    Í þessu frv. til stjórnarskipunarlaga er einnig ákvæði til bráðabirgða þess efnis að þrátt fyrir ákvæði 31. og 45. gr. stjórnarskrárinnar skuli næstu reglulegar alþingiskosningar fara fram annan laugardag í maí 1999, nema Alþingi hafi áður verið rofið.

    Ástæða þessarar brtt. eða þessarar frumvarpsgreinar er flestum kunn, þ.e. að tímasetning alþingiskosninga hefur verið að færast fram með árunum og er nú komin nú seinast í byrjun aprílmánaðar. Það er allt of snemmt, en vegna þess ákvæðis stjórnarskrárinnar að nákvæmlega fjögur ár og ekki meira skuli líða milli kosninga er hætta á því að kosningatíminn færist áframhaldandi fram og væri þá kominn hugsanlega í marsmánuð næst ef ekki yrði gripið til þessa ráðs, að slá því föstu að í næsta skipti skuli kosningar fara fram annan laugardag í maí 1999, nema Alþingi hafi áður verið rofið.
    Það gildir það sama um þessar tillögur og það frv. sem hér er um að ræða eins og það sem var hér seinast á dagskrá, að Alþingi getur nú við síðari meðferð málsins engu breytt því ella fellur málið dautt niður. Því gerir nefndin tillögu um að frv. verði samþykkt óbreytt.