Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

25. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 13:44:21 (960)

[13:44]
     Frsm. efh. - og viðskn. (Sólveig Pétursdóttir ):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um frv. til breytingar á lögum um Viðlagatryggingu Íslands, nr. 55/1992, með síðari breytingum, og lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 28/1985, með síðari breytingum, frá efh.- og viðskn., á þskj. 103 og meðfylgjandi brtt. á þskj. 104.
    Nefndin hefur fjallað um málið og fékk á fund til sín Ólaf Davíðsson frá forsætisráðuneyti og Kjartan Gunnarsson frá viðskiptaráðuneyti.
    Eftir að hafa rætt málið hefur nefndin ákveðið að leggja til að þær breytingar verði gerðar á frumvarpinu að hætt verði við að innheimta 20% aukaálag á iðgjöld viðlagatryggingar næstu fimm árin. Álagið mun því áfram vera 10% út árið 1999, sbr. lög nr. 36/1995, og ætti að gefa samtals 255 millj. kr. í ofanflóðasjóð á næstu fimm árum. Þess í stað leggur nefndin til að hlutur Viðlagatryggingar í ofanflóðasjóði verði aukinn um 3 prósentustig af heildariðgjaldatekjum umfram það sem frumvarpið gerir ráð fyrir og að sú ráðstöfun standi í sex ár en ekki fimm. Þetta ætti að gefa 192 millj. kr. á ársgrundvelli eða samtals um 1.152 millj. kr. á næstu sex árum. Ofanflóðasjóður fær 6,5 millj. kr. á ári samkvæmt fjárlögum. Því má áætla að þessar tillögur nefndarinnar leiði til þess að heildartekjur sjóðsins á næstu sex árum verði um 1.446 millj. kr. Gerð er tillaga um þær brtt. nefndarinnar sem hér hafa verið raktar á sérstöku þingskjali.
    Þetta eru því svipaðar fjárhæðir og gert var ráð fyrir í frv. sjálfu, þessar breytingar sem nefndin leggur til. Undir nál. rita nöfn sín:
    Sólveig Pétursdóttir, Ágúst Einarsson, Jón Baldvin Hannibalsson, Pétur H. Blöndal, Steingrímur J. Sigfússon, Arnbjörg Sveinsdóttir, Einar Oddur Kristjánsson. og Magnús Stefánsson.