Greiðsluaðlögun

25. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 14:32:52 (968)


[14:32]
     Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) :
    Virðulegi forseti. Það er eins með mig og hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson að hér er ég með þykkan bunka af tilvitnunum, ekki reyndar eftir sjálfan mig um húsnæðismál heldur eftir hv. 8. þm. Reykn., Ólaf Ragnar Grímsson. Þetta eru reyndar ekki tilvitnanir um greiðsluvanda heimilanna. Þegar ég fer yfir það sem hv. þm. hefur látið fara frá sér á síðasta kjörtímabili um það hvað Alþb. hafi viljað gera í húsnæðismálum þá finnst lítið í þskj. um þá hluti og munurinn er sá á okkur framsóknarmönnum og Alþb. að við

höfðum tillögur um það hvað gera eigi. Það er ekki bara lýðskrum eins er hjá hv. þm. sem kemur hér upp ítrekað og með ekkert annað en lýðskrum, engar tillögur hvað á að gera í greiðsluvanda heimilanna. Það er hins vegar alveg rétt hjá hv. þm. að flokksþing Framsfl. í nóvember á síðasta ári mótaði tillögur flokksins í húsnæðismálum, í greiðsluerfiðleikum heimilanna. Við fylgdum því eftir á Alþingi með frv. um greiðsluaðlögun. En hvað gerðist þegar það frv. lá hér fyrir? Þá lagðist Alþfl. gegn því að frv. næði fram að ganga.
    Ég vonast til þess og nú af því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur yfirgefið þingsalinn eftir að hafa flutt þessa ágætu ræðu sína hér, þá vonast ég til þess að ég lendi ekki í sömu sporum og hv. þm. lenti í á síðasta kjörtímabili þegar hann ásamt öðrum þingmanni Alþfl., Sigbirni Gunnarssyni, flutti till. til þál. um greiðsluaðlögun fyrir fólk í greiðsluerfiðleikum. En hvað gerðist? Sjálfstfl. sagði við þá: Nei, þið flytjið ekki þessa tillögu. Til þess að aðstoða þá við að geta greitt atkvæði með eigin tillögu þá flutti hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson þessa tillögu óbreytta í frv. um Húsnæðisstofnun ríkisins. En hvað gerðist í atkvæðagreiðslu? Hv. þm. Össur Skarphéðinsson greiddi atkvæði gegn eigin tillögu hér í þingsalnum. (Gripið fram í.) Greiddi atkvæði gegn eigin tillögu hér í þingsalnum. Við framsóknarmenn lendum vonandi aldrei í þessari stöðu eins og hv. þm. hefur lent í. ( ÓRG: Þú ert nú búinn að lenda í því núna.) Nú væri fróðlegt að rifja upp kosningasvik Alþb. þegar hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson var í fjmrn. og loforðalista Alþb. sem hv. þm. fór með fyrir þær kosningar. En munurinn á þessu þingi og fyrri þingum er sá að nú fer þetta mál til nefndar. Alþfl. nær ekki að leggjast gegn því. Sjálfstfl. og Framsfl. styðja að málið fari til nefndar og verði skoðað af félmn. á þessu sumri.