Áfengislög

25. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 15:03:40 (977)

[15:03]
     Svavar Gestsson (frh.) :
    Virðulegi forseti. Það mál sem hér er á dagskrá og við ræddum fyrir nokkrum dögum er flutt af dómsmrh. og felur í sér breytingu á áfengislögum. Við höfum nú þegar á allmörgum fundum í þessari virðulegu stofnun gert tilraun til þess að skýra fyrir mönnum, svo sem best verður á kosið, hvaða mál er hér í raun og veru á ferðinni. Hérna er verið að breyta býsna veigamiklum þætti í íslensku þjóðlífi án þess að það standi neinar efnislegar ástæður til þess innan lands. Það eru engin efnisleg rök fyrir málinu innan lands. Það er heldur ekki þannig að einhver flokkur sé hér t.d. að ganga fram og uppfylla kosningaloforð sem gefin voru fyrir síðustu kosningar. Þetta mál er ekki þannig vaxið. Þetta mál er þannig vaxið að við erum aðilar að Evrópsku efnahagssvæði og þeir sem flytja málið telja óhjákvæmilegt vegna þess að einkavæða hluta af verslun með áfengi í þessu landi.
    Nú er um það skiptar skoðanir, en í sjálfu sér ætla ég ekki að blanda mér í þær núna heldur bara undirstrika það að í raun og veru er Alþingi Íslendinga upp við vegg í málinu og þeir sem tala í málinu, eins og t.d. hæstv. heilbrrh., tala eins og Alþingi geti ekkert annað en samþykkt það sem ákveðið er í Brussel og menn séu dæmdir til þess, ekki af neinum hagkvæmnisástæðum, ekki af heilbrigðisástæðum, ekki af forvarnaástæðum, engum ástæðum öðrum en þeim að Alþingi Íslendinga er upp við vegg.
    Þegar EES-málin voru til meðferðar á sínum tíma þá sögðum við mörg: Já, það er verið að þrengja að sjálfstæði íslensku þjóðarinnar með því að útlendingum er afhent lagasetningarfrumkvæði að veigamiklum hluta til. Útlendingum er afhent lagasetningarfrumkvæði. Ég man eftir því að þegar nokkrir nýir þingmenn hittu þingmenn sem höfðu setið hér um skeið og spurðu um frumkvæði, hvaðan kemur frumkvæðið? Þá benti ég á það m.a. að frumkvæðið að setningu laga kemur nú orðið annars staðar að utan frá. Við ráðum þessu ekki samkvæmt þeim rökum sem talsmenn málsins flytja. Hámarki nær þó þessi málflutningur hjá hæstv. félmrh., sem ég skil út af fyrir sig vel að er í vissum vanda, þegar hann segir: Ég flyt málið, en ég er á móti því. Og menn tala eins og þeir séu bundnir á höndum og fótum og viti ekkert hvernig þeir eigi að snúa sér í málunum.
    Það er auðvitað nauðsynlegt að benda á það í þessu sambandi, hæstv. forseti, að í raun og veru stríðir þessi afstaða, sem fram kemur hjá hæstv. félmrh., gegn grundvallarákvæðum stjórnarskrár og laga um alþingismenn, sem eiga að greiða atkvæði samkvæmt samvisku sinni einni. Þeir eru ekki bundnir af sínum flokkum, þeir eru einungis bundnir af sinni samvisku. Og það er nokkurt umhugsunarefni að það skuli gerast að mál eftir mál sé tekið hingað inn, eins og búsetumálið fyrir nokkru, eins og þetta mál hér núna og menn húrra með þetta inn í þingið og segja: Ég get ekki annað. Upp við vegg, bundnir á höndum og fótum. Þetta er merkilegt. Þannig að allar þær sögur sem við lærðum forðum upp úr Jónasi frá Hriflu, í Íslandssögunni fyrr á öldinni, þar sem var dáðst að þeim mönnum sem höfðu spornað gegn hinu erlenda valdi, eru bara eins og brandari við hliðina á öllu þessu, eins og brandari. Og það væri kannski betra ef menn létu eiga sig að rifja mikið upp sjálfstæðisbaráttuna vegna þess að menn eru hér bara upp við vegg og eru að afgreiða lest, færibandalest frá Brussel, flæðilínu frá Brussel og geta enga björg sér veitt.
    Af þessum ástæðum, hæstv. forseti, tel ég að það sé nauðsynlegt að yfir þessi mál sé farið í samhengi og það hefði verið skynsamlegra að láta á það reyna hvað dómstóllinn hefði sagt í þessu máli. Það er mín skoðun. Og mér er kunnugt um það að innan stjórnarflokkanna eru margir sem telja að upp á fordæmi málsins í heild og stöðu Íslands gagnvart EES þá hefði að mörgu leyti verið alveg eins gott að láta á stöðu málsins reyna, hvort við erum virkilega dæmd til að einkavæða heildverslun með brennivín.
    Svo bætist það við, hæstv. forseti, að það kemur fram að allir aðilar í heilbrigðiskerfinu vara við þessu. Ég bað hæstv. iðnrh. að sitja hér, af því að hann gegnir fyrir hæstv. heilbrrh., vegna þess að ég ætla að leggja fyrir hæstv. heilbrrh. nokkrar spurningar. Aðilar í heilbrigðiskerfinu vara við þessu og samkvæmt lögum er það einn aðili sem er ráðgjafi heilbrrh. í þessum málum, samkvæmt lögum. Það er landlæknir. Það stendur í lögunum um landlækni að hann sé ráðunautur heilbrrh. í þessum málum. Heilbrrh. á að hlusta á landlækni númer eitt. Þegar við ræddum þessi mál um daginn, þegar þau voru síðast á dagskrá, þá lá ekki fyrir í umræðunni umsögn landlæknis. Síðan birtist hún síðustu daga, m.a. í fjölmiðlum. Ég heyrði hana í Ríkisútvarpinu á sunnudaginn var. Landlæknir segir svo, með leyfi forseta, í lok sinnar umsagnar: ,,Ef samþykkt framangreinds frv. verður til að auka framboð og neyslu áfengis, sem margt bendir til að verði, leggst landlæknisembættið á móti samþykkt þess.`` Ég hygg að þess séu fá dæmi að landlæknir hafi talað jafnafdráttarlaust um andstöðu sína við mál og hann gerir hér, þó svo hann kjósi að gera það í skilyrðissetningu, sem er út af fyrir sig eðlilegt að hann geri miðað við hans embættisstöðu og miðað við það að ríkisstjórnin og þar á meðal hans yfirmaður, hæstv. heilbrrh., stendur að því að flytja málið hingað inn.
    Í umsögn sinni fer landlæknir yfir það að aðrar þjóðir hafa á undanförnum árum sett sér það mark að dregið verði úr áfengisnotkun. Það kemur fram í athyglisverðri töflu um samdrátt í áfengisneyslu meðal Evrópuþjóða á árunum 1980--1992 að samdráttur í áfengisneyslu á Spáni er 21%, á Ítalíu 33%, Svíþjóð 4%, samtals í allmörgum löndum um 14%. En svo eru tvö lönd sem skera sig úr. Annað er Ísland með um 20%, hitt er Finnland með svipaða tölu. Í Danmörk er einnig aukningu.
    Hér eru menn með öðrum orðum með eitthvað í kerfinu --- ég segi eitthvað, ég veit ekki alveg nákvæmlega hvað það er, sem ýtir undir notkun á áfengi og eykur hana stórkostlega frá því sem verið hefur. Hvað er það? Hvað er það í þjóðfélaginu? Hvað er það í umhverfinu? Hvað er það í samfélaginu yfir höfuð sem ýtir undir notkun á áfengi; um fimmtung á þessum tíma? Mér er það ekki ljóst, hæstv. forseti, og hefði verið ástæða til þess að byrja þessa umræðu á því að rannsaka það. Auðvitað átti að byrja þessa umræðu á því að rannsaka það. Auðvitað átti að fara í ítarlegar rannsóknir á vegum þeirra aðila sem kunna á þessa hluti og auðvitað átti á grundvelli þeirrar rannsóknar að byggja tillögu um mótun opinberrar stefnu í áfengismálum. Hún hefur út af fyrir sig verið mótuð eða gerð tilraun til þess, en henni var jafnharðan stungið niður í skúffu.
    Með öðrum orðum, hér hefur landlæknir talað, æðsti maður þessara mála á Íslandi. Það er ekki hlustað á hann. Ég hef orðið var við það í dag að það er ákvörðun stjórnarmeirihlutans að ljúka þessum málum, að gera þau að lögum. Og það er því miður þannig, miðað við úrslit síðustu alþingiskosninga, hvað sem verður í næstu kosningum, að þessir aðilar ráða meiri hlutanum hér á Alþingi. Það er því miður svo. Þannig að auðvitað verður það að hafa sinn gang. Og við hin sem höfum verið amla á móti þessum málum hljótum að áskilja okkur allan rétt á haustþinginu til þess að taka á móti á ný ef þeir keyra þetta í gegn með þeim hætti sem hér hefur verið hugsað.
    En erindi mitt í stólinn, til að ljúka ræðu minni, hæstv. forseti, var að spyrja hæstv. starfandi heilbrrh.: Hvað mun heilbrrn. gera til þess að bregðast við þeim alvarlegu aðvörunarorðum sem birtast í umsögn landlæknis, sem er dags. 7. júní 1995?