Gjald af áfengi

25. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 16:30:54 (990)


[16:30]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Undir lok ræðu sinnar vék hæstv. fjmrh. að því að ýmsir aðilar, m.a. opinberir aðilar, hefðu látið frá sér fara um þessi mál efni sem fjmrh. gagnrýndi hér mjög harðlega og undir rós ýjaði að því að þeir mundu skilja hvað hann ætti við. Þegar fjmrh. talar með þeim hætti sem hann gerir er alveg ljóst að í slíkum orðum geta falist hótanir, alvarlegar viðvaranir. Og það er reyndar ekki við hæfi að fjmrh. flytji slíkt úr ræðustól á Alþingi nema hann tilgreini þá við hverja hann á. Eða ætlar hann að láta alla þá opinberu aðila sem um þetta mál hafa fjallað liggja undir þeim grun að hæstv. fjmrh. hafi verið að vara þá við í ræðustóli? Hvaða opinberir aðilar hafa fjallað um þetta mál? Heilbrrn., landlæknir, svo ég nefni tvo aðila. Er hæstv. fjmrh. með orðum sínum að eiga við heilbrrn. eða landlæknisembættið? Ég skora á hæstv. fjmrh. að upplýsa hér hverjir það voru sem hann átti við í ummælum sínum svo það fari ekkert á milli mála. Sé fjmrh. að beita valdi sínu í orðræðu á þinginu með þessum hætti er alveg óhjákvæmilegt að hann tali skýrt. Það er ekki við hæfi að hann sé með hótanadylgjur eins og hér voru áðan. Ég vil þess vegna beina þeim tilmælum til hæstv. fjmrh. að hann greini frá því hvaða opinberu aðilar það eru sem hann átti við með sínum orðum.