Gjald af áfengi

25. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 16:33:13 (992)


[16:33]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Nú er upplýst að hæstv. fjmrh. var að hóta áfengisvarnaráði, en hann sagði: ,,meðal annars``. Þar með er ljóst að hann átti ekki bara við áfengisvarnaráð. Þannig að ég skora á hæstv. fjmrh. að ljúka málinu og segja þá við hverja hann átti. Hann hefur aðeins nefnt hér einn, en segir um leið að það hafi verið fleiri. Er þetta þannig að hæstv. fjmrh. leggur ekki í að botna það, en er hins vegar reiðubúinn að leggjast á veigaminnsta og veikburðasta aðilann af þeim opinberu aðilum sem hafa látið þetta í té, þ.e. áfengisvarnaráð? Er hæstv. fjmrh. t.d. með orðum sínum að veitast að landlæknisembættinu sem lét í ljósi mjög eindregnar skoðanir á þessu máli sem varð til þess að hæstv. heilbrrh. fór í símann til þess greinilega að kvarta við landlækni um að þetta væri nú ekki nógu góður texti sem frá landlæknisembættinu kæmi? ( Viðskrh.: Ég er ekkert að kvarta.) Það mátti nú alveg skilja það á sínum tíma að hæstv. starfandi heilbrrh., hæstv. viðskrh., hefði látið landlækni heyra að hann væri ekki vel sáttur við þær yfirlýsingar sem komu frá landlæknisembættinu, teldi þær byggðar á misskilningi og ekki réttum upplýsingum.
    Ég skora sem sagt á hæstv. fjmrh. að botna vísuna algjörlega og tæma upptalninguna þannig að það sé alveg skýrt hvaða aðilar það eru sem hæstv. fjmrh. er að dylgja gagnvart eða hóta, hvað sem menn vilja kalla það, með orðum sínum hér áðan.