Gjald af áfengi

25. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 16:55:14 (997)


[16:55]
     Ögmundur Jónasson :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. Hjálmar Jónsson á þess kost að taka þátt í áfengisvörnum því að síðar í dag munum við leggja fram brtt. við þau frv. sem hér eru til umræðu sem eru til þess fallin að stuðla að áfengisvörnum.
    Hæstv. forseti. Ég ætla að verða við þinni beiðni um að stytta mjög mál mitt. Ég mun ekki fara út í málefnalega rökræðu á grundvelli þess sem hér hefur verið sagt. Ég ætla ekki að rökræða við hæstv. iðnrh. sem talaði hér sem iðnrh. um samkeppnisstöðu innlendra og erlendra bjórframleiðenda. Ég held því miður að þar greini okkur talsvert á. Ég ætla ekki heldur að fara út í rökræðu við hæstv. fjmrh. um merkingar á áfengi. Enn fór hann því miður með rangfærslur í því efni. Látum það vera þótt hann kunni að vera litblindur og tali um rauða miða þar sem bláir miðar eru. En staðreyndin er sú að allt áfengi sem selt er til veitingahúsa er merkt. Það er brennimerkt og það er merkt með sérstökum miðum frá ÁTVR. Þetta hef ég kynnt mér mjög rækilega. Það sem deilan stendur um og það sem menn hafa verið að rökræða, þeir sem á annað borð hafa farið út í slíka rökræðu, er með hvaða hætti slíkt eftirlit og slíkar merkingar eru í bestu farinu.
    Það er reyndar svo, hæstv. forseti, að margt af því sem hér hefur verið sagt snýst eiginlega um grundvallaratriði í pólitík. T.d. væri hægt að hafa mjög langt mál um það sem hæstv. starfandi heilbrrh. og viðskrh. sagði áðan um hvernig menn annars vegar töluðu í kosningabaráttu og hins vegar hvernig menn töluðu þegar þeir væru komnir í ríkisstjórn. En hitt vil ég taka undir með honum að það er enginn minni maður að því að skipta um skoðun á grundvelli röksemda og nýrra upplýsinga, það er alveg rétt. En það sem mér finnst miður í þessari umræðu er að núna alveg undir lokin er að hefjast raunveruleg málefnaleg umræða.
    Ég ætla að ljúka þessu máli mínu á því að fara örfáum orðum um það sem hæstv. fjmrh. sagði um áfengisvarnaráð áðan vegna þess að það finnst mér vera mjög alvarlegt sem hann þar hafði í frammi.
    Ég er með í höndunum það plagg sem hann er væntanlega að vitna í. Það eru umsagnir áfengisvarnaráðs frá 29. maí 1995 um þær lagabreytnigar sem hér er um að ræða þar sem vitnað er í Alþjóðaheilbrigðisstofnunina, þar sem vitnað er í rannsóknir sem áfengisvarnaráð hefur gert á dreifingarmátanum sem viðhafður er í ýmsum ríkjum, þar sem vitnað er í alþjóðlegar samþykktir um að stefnt skuli að því að draga úr áfengisneyslu um 25% fyrir aldamót, nokkuð sem íslenska ríkisstjórnin samþykkti 1986. Og það væri fróðlegt að fá að vita frá hæstv. fjmrh. hvað það er í þessum gögnum sem hann er að finna að. Er hann að finna að því að þessir aðilar, áfengisvarnaráð Íslands, láti þessa umræðu yfirleitt til sín taka? Mér finnst þetta vera mjög alvarlegur hlutur. Mér finnst ekki ganga að afgreiða þetta mál með einhverjum almennum yfirlýsingum. Hæstv. ráðherra verður að finna orðum sínum stað. Hann verður að skýra nákvæmlega út fyrir okkur hvað hann er raunverulega að tala um vegna þess að ég fæ ekki komið auga á annað en ígrundaða og málefnalega afstöðu.
    Hæstv. forseti. Ég ætla að stytta mál mitt. Í lokin aðeins að ítreka þetta og vekja sérstaka athygli á því að við erum að toga upp með töngum, við erum að toga upp með töngum ýmislegt sem menn hafa ekki hirt um að svara í umræðu sem staðið hefur í margar vikur samfellt og þá sjaldan sem þeir hafa látið svo lítið að koma hingað í þingsal hafa menn setið án þess að mæla orð af munni og ekki svarað rökum, ekki komið fram með upplýsingar sem beðið er um. Ég vil leyfa mér í lokin að ítreka þá ósk mína að þær fundargerðir og upplýsingar og nefndarálit sem ég óskaði eftir að yrðu birt opinberlega verði birt. Við erum að toga það upp með töngum að þetta sé þegar allt kemur til alls allt á ábyrgð ráðherra. Það sé ekki á ábyrgð þeirra embættismanna sem hafa unnið að þessum frv. sem embættismenn. En við skulum minnast þess í hvaða samhengi sú umræða fór fram. Hún fór fram í því samhengi að annars vegar vorum við mörg hver, sem erum þessum lagabreytingum andvíg, að benda á þann þrýsting sem fram hefur komið frá Verslunarráði Íslands, Kaupmannasamtökunum og hagsmunaaðilum í bjóriðnaði og annars staðar og hins vegar hefur verið bent á að það hafi aðrir komið að þessum málum en þessir einir og þar hafa nöfn þessara embættismanna verið nefnd.
    Hæstv. forseti. Ég ætla að virða beiðni þína um að hafa mál mitt í knappara lagi og er því lokið.
    ( Forseti (ÓE) : Umræðunni er lokið.)
    Forseti, þó þessi orð hafi verið sögð, má ég í lokin aðeins fagna því að hæstv. fjmrh. skuli hafa komið fram með hugmyndir þar sem frestað er gildistöku laganna. Mér finnst það til bóta og ég áskil mér og við önnur sem höfum haft samstarf um málflutning í þessum málum um að taka þessi mál að nýju í haust og þá vil ég ítreka að það er ýmislegt órætt í þessu máli.
    ( Forseti (ÓE) : Það ítrekast að umræðunni er lokið.)