Þingfararkaup

26. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 17:40:54 (1002)


[17:40]
     Svanfríður Jónasdóttir :
    Virðulegi forseti. Eftir að farið var að undirbúa þingstörfin í vor eftir kosningar á vettvangi formanna þingflokkanna var fljótlega reifuð sú hugmynd að áfram yrði haldið þeirri vinnu sem áður var farin af stað varðandi endurskoðun á lögunum um þingfararkaup. Þau drög sem fyrir lágu voru þá kynnt og niðurstaða okkar í þingflokki Þjóðvaka varð að í ljósi þess að hér átti að vera um stutt sumarþing að ræða, menn töluðu um 10 daga, gætum við ekki litið svo á að breyting á lögunum um þingfararkaup yrði forgangsmál. Það var ljóst þá að á því stutta sumarþingi sem boðað var átti að fást við stór mál varðandi sjávarútveg, varðandi GATT o.fl. Auk þess voru ákveðin efnisatriði sem ekki samrýmdust þeirri launastefnu sem við vildum sjá þróast. Vissulega voru síðan enn önnur atriði sem við töldum að væru til bóta. Virðulegi forseti. Niðurstaðan varð sú að við gætum ekki litið á þetta mál sem forgangsmál og mundum þar af leiðandi ekki taka þátt í vinnslu þess. Þessi niðurstaða var kynnt öðrum formönnum þingflokkanna og síðan ítrekuð á fundi formanna þingflokka með forseta. Við höfum því ekki komið að vinnu við samningu þessa frv. né frágang en kynnt okkur það eftir föngum nú eftir að það er komið fram í þinginu.
    Áfram eru vissulega í frv. ákvæði til bóta, svo sem í þá veru að reyna að jafna kjör þingmanna án tillits til búsetu þannig að hin hvimleiðu lögheimililismál verði nú úr sögunni, að þingmenn eigi rétt á barnsburðarleyfi o.fl. En það eru einnig áfram inni ákvæði um álagsgreiðslur, um að forsætisnefnd ákvarði tiltekin starfskjör eða starfskostnað sem áður var í höndum Kjaradóms og að skattaleg meðferð starfskostnaðar verði ákvörðuð í lögum þessum. Allt hlýtur þetta að orka tvímælis og getur aukið á tortryggni fólksins í landinu varðandi tilgang þessarar lagasetningar. Þingflokkur Þjóðvaka styður ekki þetta frv., en mun ekki tefja fyrir afgreiðslu þess.