Þingfararkaup

26. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 17:58:23 (1008)


[17:58]
     Guðný Guðbjörnsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir þau sjónarmið að það er margt í frv. sem er til bóta og ég geri ekki athugasemdir við. Hér er verið að lögleiða ýmislegt sem tíðkast hefur og er það vel. Það er fyrst og fremst ein grein frv. sem ég geri athugasemd við eins og reyndar hv. þm. Kristín Halldórsdóttir, en það er 9. gr. frv. sem kveður á um að endurgreiða skuli alþingismönnum annan starfskostnað sem ég reyndar tel ekkert óeðlilegt að gera, eins og t.d. ráðstefnukostnað. En með því að það sé heimilað að þessar greiðslur komi sem föst upphæð mánaðarlega, þó að það sé gert að því er virðist til þess að það sé auðveldara í framkvæmd, má auðveldlega túlka þetta sem óskattskylda launagreiðslu sem hún yrði t.d. í reynd fyrir þá sem hafa lítinn sem engan ráðstefnukostnað eða minni kostnað en aðrir.
    Ég tel mjög vafasamt að Alþingi gefi höggstað á sér með þessum hætti og ekki til þess fallið að auka traust fólks á Alþingi. Ef ætlunin væri að nota þessa grein til að hækka laun alþingismanna ættu slíkar tekjur að vera skattskyldar. Það er því mat mitt að hér sé farin sú hefðbundna sporsluleið að hækka launin með óbeinum óskattskyldum greiðslum.
    Ég er þeirrar skoðunar að það beri að endurgreiða kostnað, t.d. við ráðstefnur. En ég tel að vænlegra sé að gera það samkvæmt reikningum og ég er einnig þeirrar skoðunar að það beri að hækka laun alþingismanna, ekki síst til að koma í veg fyrir að alþingismenn séu að snapa upp vinnu hér og þar til þess að hafa sómasamleg kjör. En þessu tvennu á ekki að blanda saman eins og 9. gr. þessa frv. býður upp á.
    Við kvennalistakonur höfum lagt áherslu á að í þeim tilgangi að koma á launajöfnun kynjanna sé æskilegt að endurskoða launakerfi ríkisins og gera það sýnilegt þannig að öll laun séu uppi á borðinu. 9. gr. þessa frv. er því spor í gagnstæða átt og því mun ég ekki greiða henni atkvæði mitt.